Íslensk fyrirtæki láti til sín taka í þróunarsamvinnu
Frestur til að sækja um í Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífs um þróunarsamvinnu er út 3. febrúar næstkomandi. Sjóðurinn mun verja 200 m.kr. til samstarfsverkefna íslenskra fyrirtækja í þróunarlöndum á þessu ári. Fyrirtæki tefla fram fjárfestingu, nýskapandi þekkingu og lausnum til verkefna í þróunarlöndum og stuðla um leið að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Áhersla er á að verkefnin skapi atvinnu og nýja þekkingu í samstarfslöndum og sérstaklega er hvatt til að verkefnin styðji við sértæk markmið þróunarstefnu Íslands, hafi jákvæð loftslags- og umhverfisáhrif eða stuðli að jafnrétti kynjanna.
Á þriðja tug íslenskra fyrirtækja hafa þegar notið stuðnings Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs á undanförnum misserum. Ein áhrifaríkasta leiðin til að uppræta fátækt og bæta lífskjör í heiminum er að styðja við atvinnu- og efnahagsuppbyggingu í þróunarríkjum. Íslensk fyrirtæki búa yfir þekkingu og hæfni til að stuðla að sjálfbærum hagvexti og atvinnutækifærum í þróunarlöndum og geta um leið búið í haginn fyrir framtíðarmakaði í þessum löndum.
Meðal þeirra fyrirtækja sem hlotið hafa styrki úr Heimsmarkmiðasjóðnum eru Marel, Credit Info, BBA//Fjeldco, Kerecis og 66°Norður. Verkefnin hafa verið á hinum ýmsu sviðum, svo sem endurnýjanlegrar orku, sjávarútvegs- og fiskimála, fjármála- og lögfræðiráðgjafar, matvælaframleiðslu, heilbrigðisþjónustu og skapandi greina. Aðkoma einkageirans að þróunarsamvinnu er lykilforsenda árangurs í þróunarsamvinnu á heimsvísu. Framlag hans hefur á liðnum áratug aukist um 10% á ársgrundvelli á móti 2% aukningu á framlagi opinberra aðila samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðabankans. Þar með er framlag einkageirans orðið jafn hátt framlagi hins opinbera á heimsvísu.
Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu var stofnaður í lok árs 2018. Heimilt er að veita allt að 200.000 evru styrk til sama verkefnis sem getur numið allt að helmingi heildarkostnaðar á móti sama eða hærra framlagi fyrirtækja. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra úthlutar styrkjum að fengnu áliti þriggja manna matshóps sem er skipaður þremur óháðum sérfræðingum á sviði þróunarsamvinnu.
Umsóknir þurfa að berast fyrir miðnætti 3. febrúar. Styrkir verða auglýstir tvisvar sinnum í viðbót á árinu 2022 með umsóknarfresti 3. maí og 3. október. Nánari upplýsingar á vef ráðuneytisins en umsóknaferlið er í gegnum stafræna þjónustugátt hins opinbera, Ísland.is.