Mál nr. 12/2003
A
gegn
Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf.
-----------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 18. mars 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I
Inngangur
Með bréfi, dags. 25. september 2003, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, hefðu verið brotin með því að skipstjórar á skipinu B, sem Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. gerir út, hafi ítrekað brotið á rétti kæranda til starfs um borð á skipinu, ásamt því að neita kæranda um að setja nafn kæranda á biðlista eftir starfi á skipinu.
Bréf kæranda var kynnt Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. með bréfi, dags. 17. desember 2003. Þar var m.a., með vísan í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000, óskað upplýsinga um fjölda og kyn skipverja á skipinu B, hvernig almennt væri staðið að ráðningum í skipsrúm á skipinu, hvort fyrir lægi biðlisti eftir störfum á skipið og hvaða reglur giltu um hann og hvernig hann væri notaður, hvort kærandi hefði sótt um starf á skipinu eða óskað eftir að vera á biðlista eftir starfi, afstöðu fyrirtækisins til kærunnar og annað sem fyrirtækið teldi til upplýsinga fyrir málið í heild.
Með bréfi Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., dags. 12. janúar 2004, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum fyrirtækisins við erindi kæranda.
Með bréfi, dags. 13. janúar 2004, var kæranda kynnt umsögn Hraðfrystihúss Gunnvarar hf. og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2004, veitti Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. nánari upplýsingar varðandi störf kvenna á skipinu B samkvæmt beiðni kærunefndar. Framangreint bréf var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. febrúar 2004. Engar athugasemdir bárust frá kæranda, en nefndinni er kunnugt um að kæranda bárust bæði bréf nefndarinnar.
Málið var tekið fyrir á fundum kærunefndar 3. desember 2003, 27. febrúar 2004 og 12. mars 2004. Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið nægjanlega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II
Málavextir
Kærandi tilgreinir kæruefni á eftirfarandi hátt í kæru sinni: „Kært er vegna meints brots á lögum um jafnan rétt karla og kvenna. Meint brot er, að skipstjórar áðurnefndir hafa ítrekað brotið á rétti mínum til starfs um borð ásamt því að neita mér um að vera á biðlista eftir starfi. Á þeim lista voru 4 karlmenn. Er þetta skýlaust brot á jafnréttislögum að greinilega neita mér um starf vegna kynferðis. Vegna þess að um borð í skipinu B eru 25 karlmenn eiga skipstjórar og útgerðarmenn að marka sér stefnu í jafnréttismálum, skv. lögum en ég held að þeir hafi ekki gert það. Auk þess að neita að gera konum kleift að starfa um borð með því að brjóta jafnréttislög hef ég ákveðið að kæra. Fer ég fram á, að þetta verði athugað og einnig að þeir verði að koma með rökstuðning.“
Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. mótmælir kæruefninu. Hvorki hafi verið um það að ræða að stöður um borð í skipinu B hafi verið lausar, né sé til staðar biðlisti eftir störfum um borð í skipinu.
III
Sjónarmið kæranda
Af hálfu kæranda, sem er matráður, er á því byggt að skipstjórar á skipinu B hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með því að neita kæranda ítrekað um starf um borð í skipinu og með því að neita henni um að komast á biðlista eftir starfi. Kærandi heldur því fram að slíkur biðlisti sé til staðar og að á honum hafi verið fjórir karlmenn. Kærandi vísar til þess að með þessu hafi skýlaust verið brotið gegn jafnréttislögum.
Kærandi segir 25 karlmenn vera um borð í skipinu. Þrátt fyrir það hafi útgerðarfyrirtækið ekki, að því er kærandi telur, markað sér stefnu í jafnréttismálum eins og beri að gera samkvæmt jafnréttislögum. Kærandi kveður útgerðina gera konum ókleift að starfa um borð í skipinu og brjóta með því jafnréttislög.
IV
Sjónarmið Hraðfrystihússins Gunnvarar hf.
Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. hafnar því alfarið að með því að ráða ekki kæranda til starfa á skipinu B hafi fyrirtækið brotið jafnréttislög. Ástæða þess að kærandi var ekki ráðin hafi eingöngu verið sú að ekkert laust starf hafi verið á skipinu þegar kærandi leitaði eftir skipsrúmi. Ekkert skipsrúm hafi verið laust á skipinu í fjölda ára og því hafi aldrei verið auglýst eftir skipverjum allan þann tíma sem núverandi skipstjórar hafa verið við störf. Afleysingamenn hafi oftast verið sjómenn af öðrum skipum fyrirtækisins. Fram kemur að árið 1995 hafi kona síðast farið í veiðiferð á skipinu B.
Í bréfum lögmanns Hraðifrystihússins Gunnvarar hf. kemur fram að hjá fyrirtækinu starfi um 250 manns í u.þ.b. 180 stöðugildum. Fyrirtækið reki m.a. fiskverkun í Hnífsdal, rækjuverksmiðju í Súðavík, þorskeldi í Ísafjarðardjúpi og geri út sjö fiskiskip, þ.á m. skipið B. Fram kemur að síðastliðin 4–5 ár hafi að jafnaði 70–80 sjómenn, allt karlmenn, verið á skipum félagsins.
Á skipinu B sé 25 manna áhöfn, eingöngu skipuð karlmönnum. Í flestum tilvikum séu tveir skipverjar um hvert skipsrúm í svokölluðu skiptiplássum. Skipverjar fari venjulega aðra hverja veiðiferð, en veiðiferð taki að jafnaði 4-5 vikur. Fastráðnir skipverjar séu því 45 um þær 25 stöður sem eru um borð.
Fram kemur að aðalskipstjóri skipsins annist allar mannaráðningar og hafi að öðru leyti umsjón með mönnun skipsins. Ekkert laust skipsrúm hafi verið á skipinu B til fjölda ára og því hafi ekki verið um ráðningar að ræða á síðustu árum. Greint er frá því í bréfi lögmannsins að síðustu fastráðningar hafi átt sér stað með þeim hætti að skipverjar, sem gegnt hefðu störfum afleysingamanna í nokkurn tíma og farið í eina og eina veiðiferð í forföllum fastráðinna skipverja, hafi verið ráðnir á skipið. Tekið er fram að engin föst regla hafi verið varðandi ráðningu afleysingamanna í einstakar veiðiferðir, en oftast sé, eins og áður er rakið, um að ræða sjómenn sem hafi verið á öðrum skipum fyrirtækisins, en mikil aðsókn hafi verið í afleysingastöður á skipinu.
Um aðdraganda þess að kærandi leitaði eftir starfi hjá fyrirtækinu kemur fram í bréfi lögmannsins að kærandi muni hafa haft samband við afleysingaskipstjóra á skipinu B og innt hann eftir því hvort hún gæti fengið skipsrúm. Skipstjórinn hafi greint henni frá því að ekkert laust pláss væri á skipinu. Fram kemur að skipstjórinn kannist ekki við að hún hafi óskað eftir að vera á biðlista eftir starfi og ítrekað er í þessu sambandi að enginn slíkur biðlisti sé til staðar.
Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. hafnar því alfarið að með því að ráða ekki kæranda til starfa á skipinu B hafi fyrirtækið brotið jafnréttislög. Þeirri staðhæfingu kæranda að til staðar sé biðlisti um störf á skipinu er mótmælt og ítrekað að enginn slíkur biðlisti hafi verið til. Fram kemur að þótt fáar konur hafi sóst eftir störfum á skipum félagsins hafi þær vissulega sömu möguleika og karlmenn á ráðningu að uppfylltum sömu kröfum og karlmenn, svo sem um menntun og reynslu af sjómennsku. Þar sem störfum við sjósókn á Vestfjörðum hafi fækkað undanförnum árum sé hins vegar mikil ásókn af hálfu reyndra sjómanna eftir skipsrúmum á skipum fyrirtækisins, auk þess sem sjómenn á öðrum skipum fyrirtækisins sækist í að fá skipsrúm á skipinu B.
V
Niðurstaða
Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla. Í því skyni þurfi að bæta sérstaklega stöðu kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun á stöðu kynjanna og eru þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
Samkvæmt 15. gr. laga nr. 96/2000 skulu störf sem laus eru standa opin jafnt konum sem körlum. Kveðið er á um bann við mismunun við ráðningu og í vinnuskilyrðum í 24. gr. laganna. Þar er kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis.
Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, getur skipstjóri, í umboði útgerðarmanns, ráðið skipverja á skip sitt. Hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. er málum þannig háttað að aðstoðarskipstjórinn á skipinu B annast mannaráðningar á skipið. Á skipum fyrirtækisins, sem 70–80 sjómenn starfa á, hafa eingöngu karlmenn verið skipverjar síðastliðin 4–5 ár. Bendir útgerðarfyrirtækið á að þar sem störfum við sjósókn á Vestfjörðum hafi fækkað á undanförnum árum hafi verið mikil ásókn reyndra sjómanna eftir skipsrúmum á skipum fyrirtækisins.
Óumdeilt er að kærandi mun hafa óskað eftir starfi á skipinu. Einnig er óumdeilt að eingöngu karlmenn hafa starfað um borð í skipinu síðastliðin 4–5 ár. Samkvæmt því sem fram hefur komið í máli þessu hefur ekkert skipsrúm verið laust á skipinu B í fjölda ára og því hefur ekki verið um eiginlegar mannaráðningar að ræða. Fyrirtækið hefur gert ítarlega grein fyrir fyrirkomulagi afleysingamála hjá útgerðinni. Á skipinu er 25 manna áhöfn og í flestum tilvikum eru tveir skipverjar um hvert skipsrúm. Mun hver skipverji fara aðra hverja veiðiferð, en hver ferð tekur að jafnaði 4–5 vikur. Hafi þurft að ráða afleysingarmenn í einstaka veiðiferðir hafi oftast verið ráðnir sjómenn af öðrum skipum fyrirtækisins. Í máli þessu verður að byggja á þeirri fullyrðingu útgerðarfyrirtækisins að á umræddum tíma hafi engin störf verið laus á skipinu. Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekkert hafi komið fram í máli þessu sem bendir til þess að Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. hafi brotið gegn rétti kæranda til starfs á skipinu B.
Kæruefnið lýtur einnig að því að útgerðarfyrirtækið hafi neitað kæranda um að nafn hennar yrði sett á biðlista yfir störf á skipinu á sama tíma og nöfn fjögurra karlmanna hafi verið á slíkum lista. Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. segir engan slíkan lista til og kannast ekki við að kærandi hafi óskað eftir að komast á slíkan lista. Á þeirri fullyrðingu útgerðarfyrirtækisins verður að byggja í máli þessu enda ekkert fram komið í málinu sem bendir til að fyrirtækið hafi mismunað kæranda á þennan hátt.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar jafnréttismála að Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. hafi ekki brotið gegn 15. gr., 22. gr. eða 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.
Ragnheiður Thorlacius
Ása Ólafsdóttir
Ragnar H. Hall