Mál nr. 1/2004: Dómur frá 19. apríl 2004
Ár 2004, mánudaginn 19. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 1/2004
Alþýðusamband Íslands kt. f.h.
Starfsgreinasambandsins vegna
Verkalýðsfélagsins Hlífar,
Félags iðn- og tæknigreina,
Félags járniðnaðarmanna,
Rafiðnaðarsambandsins, vegna
Félags íslenskra rafvirkja og
Félags rafeindavirkja,
Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar og
Matvæla- og veitingasambands Íslands vegna
Félags matreiðslumanna
(Eva B. Helgadóttir hdl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Alcan á Íslandi hf.
(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)
kveðinn upp svofelldur
d ó m u r:
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 25. mars sl.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Starfsgreinasambandsins, Sætúni 2 Reykjavík, kt. 601000-3340, Sætúni 1 Reykjavík, vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar, kt. 620169-3319, Reykjavíkurvegi 64, Hafnarfirði, Félags iðn- og tæknigreina, kt. 410503-2040, Borgartúni 30, Reykjavík, Félags járniðnaðarmanna, kt. 530169-5299, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, Rafiðnaðarsambandsins, kt. 440472-1099, Stórhöfða 31, Reykjavík, vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar, kt. 490272-1009, Lækjargötu 34d, Hafnarfirði, og Matvæla- og veitingasambands Íslands, kt. 500796-3089, Stórhöfða 31, Reykjavík, vegna Félags matreiðslumanna.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík f.h. Íslenska álfélagsins hf., nú Alcan á Íslandi hf., kt. 680466-0179, Straumsvík.
Dómkröfur stefnanda
Að viðurkennt verði að starfsmaður með hlutastarfssamning samkvæmt fylgiskjali 19 með kjarasamningi aðila og verður veikur í hlutastarfsfjarveru eigi rétt á að taka frí samkvæmt þeim samningi að veikindum loknum.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda
Gerð er krafa um að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Málavextir
Um árabil hefur verið í gildi sérstakur kjarasamningur milli stefnda, Íslenska álfélagsins hf., nú Alcan á Íslandi hf., annars vegar og hlutaðeigandi verkalýðsfélaga hins vegar, þ.e. stefnanda, Verkalýðsfélagsins Hlífar, Félags iðn- og tæknigreina, Félags járniðnaðarmanna, Rafiðnaðarsambandsins vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar og Matvæla- og veitingasambands Íslands vegna Félags matreiðslumanna. Gildir þessi kjarasamningur samkvæmt ákvæði greinar 1.1 um öll störf við framleiðslu, viðhald, skrifstofuhald og þjónustu í áliðjuverinu í Straumsvík með þeim einum undantekningum sem vísað er til samkvæmt fylgiskjali nr. 1 með kjarasamningnum. Vegna stærðar vinnustaðarins og hversu mörg stéttarfélög eiga aðild að kjarasamningnum hafi verið kosinn aðaltrúnaðarmaður á vinnustaðnum, sbr. grein 7.11.2. Hlutverk hans sé skilgreint í meginatriðum í 2. mgr. greinar 7.11.2 og er þar á meðal getið um hlutverk hans sem tengiliðs við framkvæmdastjórn og starfsmannastjóra um túlkun kjarasamninga og lausn ágreiningsmála.
Fyrirkomulag þetta hafi um margt verið farsælt í áranna rás og verið unnt að leysa úr ágreiningsmálum á vettvangi aðaltrúnaðarmanns og starfsmannastjóra án þess að annað hafi þurft til að koma en viðræður milli aðila.
Nýverið sé komið ágreiningsmál, sem ekki hafi tekist að leysa, er varði túlkun ákvæðis sem lúti að réttarstöðu starfsmanna sem verða veikir í hlutastarfsfjarveru.
Kveðið er á um það í sérstakri yfirlýsingu í fylgiskjali 19, sem fylgir kjarasamningi málsaðila, að starfsmenn sem orðnir eru 60 ára og hafa starfað í að minnsta kosti 5 ár hjá stefnda geti átt rétt til hlutastarfs, þ.e. styttingar vinnuskyldu, allt að tveimur mánuðum á ári. Fyrir slíkt starf, sbr. 6. tl. yfirlýsingarinnar, er starfsmanni greidd jafnaðarlaun á hverju launatímabili og skulu þau vera í sama hlutfalli við laun fyrir fullt starf eins og vinnuskyldan reiknuð yfir heilt ár. Svo dæmi sé tekið ef starfsmaður ætlar að vera fjarverandi sem nemur 60 dögum (36 vaktir) auk áunnins sumarfrís er starfshlutfall hans á ársgrundvelli rúmlega 80%. Af þeim sökum fær hann greitt sem nemur rúmlega 80% af fullum launum alla mánuði ársins bæði á þeim tíma sem hann er fjarverandi vegna hlutastarfsfrísins og líka þeim tíma sem hann sinnir í raun störfum í fullu starfi.
Sérstaklega er áréttað að jafnaðarlaun þessi eru greidd að því tilskyldu að ávallt sé innt af hendi tilskilin hlutavinna. Við útfærslu þessarar yfirlýsingar hefur sá háttur verið hafður á að starfsmenn sem þessara réttinda æskja sæki um hlutastarf sem síðan endurnýjast árlega nema starfsmaður óski breytinga og er þá skilgreint á hvern hátt beri að haga fjarveru frá störfum og hvert starfs- og launahlutfall starfsmannsins verður næsta árið.
Einn þeirra starfsmanna stefnda sem notið hefur þeirra réttinda sem yfirlýsingin á fylgiskjali 19 kveður á um er Gunnar Guðmundsson og hefur hann notið þeirra réttinda frá því í maí 1997 og hefur endurnýjað árlega umsókn um slíkt hlutastarf. Í mars 2001 var útfært á hvern hátt haga bæri útfærslu hlutastarfs hans næsta 12 mánaða tímabil frá 1. maí 2001 að telja. Var hlutastarfsfjarvera hans ákveðin frá 30. júní til 24. júlí 2001. Í aprílmánuði varð Gunnar hins vegar fyrir slysi sem leiddi til þess að hann varð óvinnufær fram í september 2001. Hann fékk greidd laun þann tíma í samræmi við ákvæði kjarasamninga og hélt föstum jafnaðarlaunum sínum vegna hlutastarfsfjarveru tímabilsins eins og hann átti rétt til. Er hann varð vinnufær að nýju tók hann sumarleyfi sitt sem farið hafði forgörðum vegna slyssins en hlutastarfsfjarveruna, sem hann varð einnig af vegna slyssins, fékk hann ekki bætta. Leitað var lausna á málinu við stefnda annaðhvort þannig að ráðgert hlutastarf frá maí 2001 til maí 2002 félli niður og hann fengi þannig full laun fyrir vinnuna sem hann innti af hendi eða að Gunnari yrði gert kleift að taka út fjarveru vegna hlutastarfsins síðar en upphaflega var ráðgert fyrst hann varð veikur þegar hann átti að taka út hlutastarfsfríið sitt. Vísað var til fyrri tilvika þar sem svipuð aðstaða hafði komið upp. Þessum sjónarmiðum hafnaði stefndi og fulltingi lögmanna hefur ekki heldur orðið til þess að leyst yrði úr ágreiningnum.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn um viðurkenningu á rétti til hlutastarfsfjarveru, samkvæmt fylgiskjali 19 við kjarasamning aðila, að veikindum loknum á eftirfarandi rökum:
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að réttur til launa í veikindum geti ekki verið háður því hvort vinnuframlag starfsmanns er misskipt á mánuði ársins. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að um veikindi í hlutastarfsfjarveru gildi sömu lögmál og gilda um veikindi í hefðbundnu orlofi.
Þegar reyndi á túlkun ákvæðisins hafnaði stefndi þeim sjónarmiðum stefnanda að veikindi í hlutastarfsfjarveru yllu því annaðhvort að samningur um hlutastarf félli niður vegna brostinna forsendna eða að hlutastarfsfjarvera yrði tekin síðar. Skoðun stefnda virðist vera sú að þar sem starfsmaðurinn átti að vera fjarverandi vegna hlutastarfsfjarveru eigi hann engan veikindarétt ef hann verður veikur á tímabilinu. Stefndi telur tilvikið sambærilegt við mann sem starfar fyrri hluta vikunnar en verður veikur síðari hluta vikunnar þegar ekki sé neitt vinnuframlag af hans hálfu. Stefnandi mótmælir afstöðu stefnda og vísar til þess að starfsmaður með hlutastarfssamning hafi þegar unnið fyrir fjarverurétti sínum með því að starfa í fullu starfshlutfalli á skertum launum og þar af leiðandi sé ekki um hefðbundið hlutastarf að ræða þar sem starfsmaðurinn vinni jafnmikið þá mánuði sem hann starfar. Starfsmaður með hlutastarfssamning vinni meira flesta mánuði ársins til þess eins að geta tekið lengra frí og sé árslaunum hans dreift niður á alla mánuði ársins burtséð frá vinnuframlagi hans hvern mánuð. Hann sé þannig búinn að efna sinn hluta þess gagnkvæma samnings um hlutastarfsfjarveru án þess að hafa fengið endurgjaldið.
Að mati stefnanda beri að líta til þess á hvaða grunni réttur til hlutastarfsfjarveru byggist. Rétturinn byggist á yfirlýsingu á fylgiskjali 19 með kjarasamningi aðila og feli í sér rétt til þess ýmist að dreifa vinnuskyldu reglulega yfir árið eða vinnuskylda falli niður hluta árs. Starfsmaður sem velji það að vinnuskylda falli niður tiltekna mánuði ársins sé þar af leiðandi búinn að vinna þann rétt inn með vinnu sinni aðra mánuði ársins. Starfsmaðurinn sé þannig á nokkurs konar jafnaðarkaupi allan ársins hring þótt hann vinni fullt starf þá mánuði sem hann vinnur. Með vísan til þess sé hlutastarfsfjarvera starfsmannsins samsvarandi hinni hefðbundnu orlofstöku sem rýri ekki rétt starfsmannsins til launa í veikindum lögum samkvæmt. Vísast í þessu samhengi til 6. gr. laga nr. 30/1987 um orlof.
Hvergi sé kveðið á um hvernig beri að líta á veikindi starfsmanna í hlutastarfsfjarveru í ákvæðum kjarasamnings málsaðila. Af þeim sökum meðal annars telur stefndi sér stætt á að svipta starfsmenn rétti til hlutastarfsfjarveru vegna veikinda. Stefnandi telur samning um hlutastarf starfsmanns haldast þrátt fyrir óvænt veikindi enda sé hvergi kveðið á um annað. Leiðir það til þess að starfsmönnum í hlutastarfsfjarveru beri að fá frí bætt sem þeir verða af vegna veikinda. Ella skortir á að réttindi og skyldur starfsmannsins haldist í hendur.
Stefnandi byggir á meginreglum vinnuréttar og samningaréttar og lögum nr. 80/1938. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til þess að fá álag er honum nemi dæmt úr hendi gagnaðila.
Málsástæður stefnda
Af hálfu stefnda er tekið fram um málsatvik að um laun og önnur starfskjör hlutastarfsmanna fari samkvæmt almennum ákvæðum kjarasamningsins nema að því er varðar sérákvæði 6. töluliðar fylgiskjals (19). Samkvæmt því greiðist laun fyrir hlutastarf sem jafnaðarlaun á hverju launatímabili. Um rétt til launa í veikindum fari samkvæmt 5. kafla kjarasamningsins. Sérákvæði um veikindi í orlofi séu að finna í gr. 4.5 í kjarasamningnum. Engin samsvarandi ákvæði séu í samningnum að því er varðar veikindi í hlutastarfsfjarveru.
Starfsmaður sá sem vísað sé til í máli þessu hafi ekki orðið fyrir tekjutapi vegna veikindanna.
Af hálfu stefnda er gerð sérstök athugasemd við kröfugerð stefnanda. Dómkrafa stefnanda sé að viðurkennt verði að starfsmaður með hlutastarfssamning samkvæmt fylgiskjali 19 með kjarasamningi aðila og verði veikur í hlutastarfsfjarveru eigi rétt á að taka frí að veikindum loknum, án nánari afmörkunar á kröfunni. Óskilgreint sé hvers konar hlutastarf við sé átt, hve langan tíma starfsmaður skuli eiga rétt á fríi og með hvaða skilmálum eða kjörum. Athygli dómsins er vakin á því að krafan sé það óljós að hún geti ekki, að mati stefnda, ráðið réttarágreiningi aðila til lykta og geti því ekki talist dómhæf.
Sýknukrafa stefnda byggist á eftirfarandi málsástæðum:
Hlutastarfsmenn með styttingu á vinnuskyldu, samkvæmt fylgiskjali 19, 5. tl. 2. mgr., fái greidd jafnaðarlaun miðað við starfshlutfall allt árið. Sérstaða þeirra felist eingöngu í því að starfsmaður taki skert starfshlutfall út í samfelldri lengri fjarveru einu sinni á ári. Að öðru leyti sé staða hans og annarra hlutastarfsmanna, t.d. þess sem sé í hlutastarfi og vinnur fullan vinnudag mánudag til fimmtudags en sé í fríi á föstudegi, fullkomlega sambærileg. Sá maður eigi ekki tilkall til veikindalaunagreiðslu verði hann veikur á föstudegi og eftir að hann hafi skilað vikulegri vinnuskyldu sinni. Maður í hálfu starfi sem ljúki vinnuskyldu sinni á einni viku og eigi síðan frí næstu viku fái heldur ekki greitt aukalega umfram jafnaðarlaun sín þótt hann verði veikur í frívikunni. Né heldur eigi þessir starfsmenn rétt á fríi síðar vegna veikindanna. Samkvæmt gr. 5.1 í kjarasamningi aðila skulu menn halda launum í veikindatilfellum þann tíma sem þar er tiltekinn. Veikindi veita á hinn bóginn hvorki rétt til viðbótarlaunagreiðslna umfram það sem starfsmaður hefði haft hefði hann ekki veikst né uppbótarfría.
Eðli veikindalaunagreiðslna sé að tryggja mönnum að þeir haldi þeim launum í veikindum samkvæmt þeim reglum sem þar greinir, sbr. gr. 5.1.1 og 5.1.2 í samningnum. Veikindalaunareglurnar tryggja mönnum hins vegar ekki greiðslur umfram það. Starfsmenn auka ekki tekjur sínar. Gildir þá einu hvort miðað er við viku-, mánaðar- eða ársuppgjör á vinnuskyldu.
Það sé því ekki um að ræða innvinnslu í eiginlegum skilningi. Verði menn veikir á frídögum sínum sé það á þeirra eigin áhættu. Eigi það jafnt við um almenna frídaga og hlutastarfsfrí.
Sama gildi um veikindi í orlofi að því marki sem ekki hafi verið sérstaklega samið í kjarasamningum um annað. Um veikindi í orlofi hafi verið samið um sérstakt fyrirkomulag veikist starfsmaður innanlands eða innan EES-svæðisins. Uppfylli starfsmaður sem veikist í orlofi ekki skilyrði þeirra reglna eigi hann ekki rétt á uppbótarorlofi skv. gr. 4.5 í kjarasamningi aðila. Hann beri þá sjálfur áhættuna af veikindum sínum.
Í kjarasamningum sé ekki að finna samsvarandi sérreglu um uppbótargreiðslur til hlutavinnumanna veikist þeir í hlutastarfsfríi að aflokinni vinnuskyldu. Tilgangur veikindalaunagreiðslna sé heldur ekki sá sami og orlofs. Annars vegar sé verið að tryggja að starfsmenn verði ekki fyrir launamissi í veikindum og hins vegar að menn njóti hvíldar frá vinnu í ákveðinn tíma. Að baki þessum réttindum liggi því ólík sjónarmið og aðstæður.
Reglur um uppbótarorlof í veikindum séu að auki frávik frá meginreglu sem beri að túlka þröngt. Þær verði því ekki lagðar til grundvallar greiðsluskyldu í veikindum hlutastarfsmanna.
Hlutastarfsfrí sé vegna lækkaðs starfshlutfalls og starfsmaður því ekki í starfi þann tíma. Að tala um frí í þessu sambandi sé því í raun alrangt.
Stefndi mótmælir því þeirri túlkun stefnanda að um veikindi hlutastarfsmanns utan vinnuskyldutímabils gildi sömu sjónarmið og um veikindi í orlofi. Slíkum tilvikum verði ekki jafnað til orlofs, hvorki á grundvelli kjarasamnings né orlofs. Að mati stefnda geti starfsmenn fráleitt aukið frítökurétt sinn við það að verða veikir utan vinnuskyldutímabils.
Þá verði ekki fallist á að rök séu fyrir því að leggja orlofsreglur til grundvallar af þeirri ástæðu einni að viðkomandi hlutastarfsmenn taki árlega styttingu vinnuskyldu sinnar út í einu lagi með svipuðum hætti og orlof en ekki í heilum dögum eða vikum í hverjum mánuði. Ef fallist yrði á þá málsástæðu fæli það í sér mismunun gagnvart öðru hlutastarfsfólki.
Samningar um hlutastarf feli í sér breytingu á ráðningarsamningi. Fyrir liggur að Gunnar hafði verið hlutastarfsmaður frá 1997. Fyrir slysið hafði þegar verið ákveðið hvenær hlutastarfsfjarveran yrði sumarið 2001. Á því varð engin breyting. Vakin sé athygli á því að á útfærslublaðinu um hlutastarfið standi að ekki sé heimilt að breyta tímabili hlutastarfsfjarveru nema með samþykki starfsmannastjóra. Útfærsla gildir í 12 mánuði. Gengið verði frá nýrri útfærslu með svipuðu umfangi fyrir næsta 12 mánaða tímabil nema annar hvor aðila æski breytinga. Þetta útfærslublað sé ávallt undirritað af öllum hlutaðeigandi og var svo einnig gert í þessu tilviki.
Stefndi mótmælir því að framkvæmd eða venja hafi skapast um greiðslur í veikindum hlutastarfsmanna sem stefnandi geti byggt rétt á.
Stefnandi byggir fyrst og fremst á ákvæðum kjarasamnings aðila, aðallega fylgiskjali (19), gr. 5.1 og 4.5, auk almennra reglna vinnuréttar.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.
Niðurstaða
Samkvæmt stefnu er dómkrafa stefnanda orðuð svo að viðurkennt verði “að starfsmaður með hlutastarfssamning samkvæmt fylgiskjali 19 með kjarasamningi aðila og verður veikur í hlutastarfsfjarveru eigi rétt á að taka frí samkvæmt þeim samningi að veikindum loknum”. Samkvæmt yfirlýsingu um reglur um rétt til styttri vinnuskyldu (hlutastarfs) við 60 ára aldur, sbr. fylgiskjal nr. 19 með kjarasamningi aðila, getur hlutastarf verið með tvennum hætti, sbr. 5. tölulið yfirlýsingarinnar. Annars vegar getur vinnuskylda dreifst reglulega yfir árið, sbr. tölulið 5.1, og hins vegar getur vinnuskylda verið framkvæmd tiltekna mánuði á hverju ári, en fellur niður aðra mánuði, sbr. tölulið 5.2.
Ljóst er samkvæmt málatilbúnaði stefnanda að ekki er neinn ágreiningur með aðilum um túlkun við þær aðstæður þegar vinnuskylda dreifist reglulega yfir árið, sbr. greindan tölulið 5.1 í yfirlýsingunni. Samkvæmt þessu verður að telja að dómkrafa stefnanda sé of víðtæk, sbr. 1. mgr. 25. gr. og d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu leyti eiga athugasemdir stefnda við kröfugerð stefnanda við rök að styðjast. Hins vegar verður ekki á það fallist með stefnda að krafa stefnanda sé af þessum sökum ódómhæf, enda er ljóst að ágreiningur málsins varðar veikindarétt þegar starfsmaður verður veikur í “hlutastarfsfjarveru” við þær aðstæður sem greinir í tölulið 5.2 í umræddri yfirlýsingu.
Eins og fram er komið er deiluefni málsins hvort starfsmaður, sem er í hlutastarfi samkvæmt greindri yfirlýsingu í fylgiskjali nr. 19 með kjarasamningi aðila og innir vinnuskyldu sína af hendi tiltekna mánuði á hverju ári en er án vinnuskyldu aðra mánuði, þ.e. er þá í svonefndri “hlutastarfsfjarveru”, sbr. tölulið 5.2 í yfirlýsingunni, eigi rétt á viðbótarveikindafríi þegar svo stendur á að hann verður veikur í “hlutastarfsfjarverunni”. Samkvæmt tölulið 6.2 í yfirlýsingunni greiðast laun fyrir hlutastarf sem jafnaðarlaun á hverju launatímabili, svo sem nánar greinir, óháð því hvor hátturinn er hafður á efndum vinnuskyldu í hlutastarfi samkvæmt 5. tölulið yfirlýsingarinnar.
Í stefnu er einkum byggt á því af hálfu stefnanda að taka beri mið af reglum um veikindarétt í hefðbundnu orlofi, sbr. 6. gr. laga nr. 30/1987 um orlof, enda samsvari “hlutastarfsfjarvera” hefðbundinni orlofstöku. Mun hér vísað til uppbótarorlofs, sbr. og grein 4.5 í kjarasamningi aðila. Af hálfu stefnda er því mótmælt að orlofsreglur eigi hér við, enda búi allt önnur sjónarmið að baki þeim reglum en reglum um laun í veikindaforföllum. Leggur stefndi áherslu á að starfsmaður beri almennt áhættu af því ef hann veikist á frídögum sínum, hvort sem um sé að ræða almenna frídaga eða hlutastarfsfrí. Ef fallist yrði á kröfu stefnanda fæli það í sér mismunun gagnvart öðru hlutastarfsfólki.
Hvorki í greindri yfirlýsingu í fylgiskjali nr. 19 með kjarasamningi aðila né í 5. kafla í kjarasamningnum, sem fjallar um launagreiðslur í veikinda- og slysaforföllum o.fl., er sérstaklega fjallað um það hvernig taka skuli á því þegar starfsmaður veikist í “hlutastarfsfjarveru”. Fallast verður á það með stefnda að ekki komi til álita að hafa reglur um orlof hér til hliðsjónar, enda er ekki um eiginlegt orlof að ræða. Að þessu virtu og þar sem engum sérstökum reglum er fyrir að fara um álitaefnið í kjarasamningi aðila og umræddu fylgiskjali með honum verður við úrlausn málsins að hafa hliðsjón af því sem almennt gildir um veikindi starfsmanns utan vinnutímabils (vinnutíma). Almennt er við þær aðstæður engu viðbótarfríi fyrir að fara. Verður ekki séð að annað geti gilt í því tilviki sem hér um ræðir, sé ekki sérstaklega um annað samið. Þykir engu geta breytt um þetta þótt svo standi á að vinnuskyldan sé innt af hendi með þeim hætti sem greinir í tölulið 5.2 í greindri yfirlýsingu í fylgiskjali nr. 19 með kjarasamningi aðila, er kann að fela í sér meiri áhættu starfsmanns af veikindum sínum utan vinnutímabils en endranær. Greind áhætta er þó raunar á báða bóga svo sem ljóst má vera. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í máli þessu.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 150.000 krónur.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Samtök atvinnulífsins, f.h. Íslenska álfélagsins hf., nú Alcan á Íslandi hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Starfsgreinasambandsins vegna Verkalýðsfélagsins Hlífar, Félags iðn- og tæknigreina, Félags járniðnaðarmanna, Rafiðnaðarsambandsins vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar og Matvæla- og veitingasambands Íslands vegna Félags matreiðslumanna.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Lára V. Júlíusdóttir
Valgeir Pálsson