Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 49/2003

Fimmtudaginn, 19. febrúar 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

 

Þann 25. júlí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 19. maí 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Forsaga málsins: Ég undirrituð A hóf fullt nám við B-háskólann haustið 2002. Stuttu eftir að námið hófst komst ég að því að ég var ófrísk af mínu þriðja barni. Líkt og á fyrri meðgöngum veiktist ég mjög mikið og var lögð inn á sjúkrahús 11. september 2002 þar sem ég lá samkvæmt læknisráði linnulítið fram í miðjan desember 2002. Vegna þessara veikinda tókst mér ekki að ljúka haustannarprófum í desember og sýndi fram á læknisvottorð þess efnis. Á vorönn ákvað ég hins vegar í samráði við lækni að hefja ekki fullt nám af heilsufarsástæðum. (Tók 9 einingar af 15). Hefði ég hins vegar skráð mig í fullt nám líkt og á fyrri önninni þrátt fyrir að ég hefði ekkert frekar heilsu til að ljúka vorannarprófum heldur en haustannarprófum í desember þá hefði ég fengið óskert fæðingarorlof sem námsmaður í fullu námi.

Mér þykir undarlegt og óréttlátt að hefði ég skráð mig í fullt nám jafnvel þótt ég hefði aldrei ætlað mér eða getað lokið fullu námi vegna veikindanna á meðgöngu hefði ég fengið óskert fæðingarorlof.

Ég vonast til að nefndin sýni máli mínu skilning og leiðrétti þessi kjör mín.“

 

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 5. desember 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

Með umsókn dags. 7. mars 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði frá maí 2003 vegna væntanlegrar fæðingar 28. apríl 2003. Á umsókninni komu fram þær upplýsingar að kærandi hefði hafið nám í byrjun september (lok ágúst), hún hefði veikst vegna meðgöngu, verið meira og minna á sjúkrahúsi til loka nóvember 2002, hefði ekki tekið próf en haldið svo áfram námi í janúar 2003. Með umsókninni fylgdi staðfesting dags. 7. mars frá B-háskólanum um að hún hefði stundað nám við skólann á haustönn 2002 og vorönn 2003, læknisvottorð dags. 11. mars 2003 um að hún hefði ekki getað stundað skólanám í haust (þ.e. á haustönn 2002) vegna veikinda í sambandi við þungun og að hún hefði byrjað aftur i skóla 11. janúar 2003 og útskrift á greiðslu sjúkradagpeninga frá umboði almannatrygginga í sveitarfélaginu D fyrir tímabilið 20. september 2002 – 13. janúar 2003.

Foreldrar í fullu námi eiga rétt á fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 telst fullt nám vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilega kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í 2. mgr. 14. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og að Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 4. apríl var óskað eftir upplýsingum um námsframvindu kæranda, þ.e. hvað hún hefði verið skráð í margar einingar haustönn 2002 áður en hún veiktist og hvað hún væri skráð í margar einingar á vorönn 2003.

8. apríl bárust á faxi frá B-háskólanum annars vegar námsferilsyfirlit um að hún væri skráð í 9 einingar á vorönn 2003 og hins vegar námsferilsyfirlit um að hún hefði verið skráð í 15 einingar á haustönn 2002. Á seinna yfirlitinu var tekið fram að hún hefði verið skráð í 15 einingar á haustönn 2002 en hefði sagt sig úr þeim áföngum fyrir haustannarprófin og að hún væri skráð í 9 einingar á vorönn 2003, prófum ólokið.

 Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 9. apríl 2003 var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að nám á vorönn 2003 væri 9 einingar sem næði ekki 75% námi, miðað við það að fullt nám sé 15 einingar.

9. maí 2003 barst vottorð um fæðingu barns kæranda þann 2. maí 2003 og læknisvottorð um óvinnuhæfni vegna slyss eða sjúkdóms þess efnis að kærandi hefði ekki getað verið í fullu námi eftir áramót vegna veikinda á meðgöngu og hefði fætt 2. maí 2003.

 Lífeyristryggingasvið synjaði með bréfi dags. 19. maí að taka viðbótargögn til greina.

14. gr. a. reglugerða um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000, sbr. 3. gr. breytingarreglugerðar nr. 915/2002 er svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2. mgr. 7. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma.“

Kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga fyrir tímabilið 20. september 2002 til 13. janúar 2003. Fyrir liggja tvö sjúkradagpeningavottorð annars vegar dags. 13. janúar 2003 og hins vegar dags. 28. mars 2003. Á haustönn 2002 var hún skráð í fullt nám (þ.e. nám sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar) og fékk greidda sjúkradagpeninga. Hún fékk ekki greidda sjúkradagpeninga eftir 13. janúar 2003 vegna þess að hún hafði lýst því yfir við starfsfólk umboðs almannatrygginga (eins og skráð hefur verið á vottorð) að hún væri orðin vinnufær. Á vorönn hóf hún skv. læknisvottorði sem fylgdi með umsókn nám að nýju þann 11. janúar og var þá ekki skráð í fullt nám. Skilyrðum 14. gr. a reglugerðarinnar er því ekki fullnægt.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. desember 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 7. janúar 2004, þar sem kærandi ítrekar fyrri kröfur.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrk sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks. 

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt upplýsingum frá B-háskólanum er fullt nám að jafnaði 15 einingar á önn.

Með hliðsjón af því að kærandi elur barn 2. maí 2003, er tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu frá 2. maí 2002 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt námsferilsyfirliti frá B-háskólanum kemur fram að kærandi hafi verið skráð í 15 einingar á haustönn 2002 en sagt sig úr þeim áföngum fyrir haustannarprófin. Einnig kemur fram að kærandi hafi verið skráð í 9 einingar á vorönn 2003. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 11. mars 2003, gat kærandi ekki stundað nám á haustönn 2002 vegna veikinda sem voru tilkomin vegna þungunar hennar. Vegna veikindanna fékk kærandi greidda sjúkradagpeninga fyrir tímabilið 20. september 2002 til 13. janúar 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þótt hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og hafa fengið sjúkradagpeninga sem námsmaður eða vera á biðtíma eftir dagpeningum. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Þar sem kærandi var ekki í fullu námi á vorönn 2003 í skilningi laga nr. 95/2000 og 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 uppfyllir hún ekki skilyrði þess að tekið sé tillit til náms hennar á þeirri önn, sbr. 2. mgr. 14. gr. ffl. Hún uppfyllir því ekki skilyrði þess að fá fæðingarstyrk sem námsmaður.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta