Hoppa yfir valmynd
21. júní 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íþróttamál á Íslandi vekja athygli Eista

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fylgir forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni og frú Elizu Reid, forsetafrú, í opinberri heimsókn þeirra til Eistlands. Ráðherra hóf ferð sína á fundi með Indrek Saar menningarmálaráðherra Eistlands en hann hefur gengt því embætti í ríkisstjórn Jüri Ratas frá árinu 2015. Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir menningartengsl landanna og frekari samstarfsmöguleika, meðal annars á vettvangi samstarfsáætlunar Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna sem og á sviði íþrótta-og menningarmála. Skipulag og árangur Íslendinga á sviði íþróttamála hefur vakið athygli og mikinn áhuga Eista sem álíta hann til fyrirmyndar, en fyrirhugað er að sendinefnd á þeirra vegum komi hingað til lands í haust til þess að kynna sér þau mál betur.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kvað fundinn með Saar hafa heppnast afar vel: „Það er gott að finna fyrir svo ríkum samstarfsvilja, Eistar eru mjög velviljaðir Norðurlöndunum og ekki síst okkur Íslendingum. Við eigum ýmislegt sammerkt – við deilum til dæmis þeirri skoðun að menning sé eitt mikilvægasta aflið til þess að byggja brýr milli landa.“

Síðar um daginn ávarpaði ráðherra Jónsmessuhátíð í borginni sem skipulögð var af norrænu sendiráðunum þar. Sumarsólstöðunum er jafnan fagnað með miklum hátíðahöldum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi og hafa sendiráðin skipulagt sameiginlega hátíð í Tallinn undanfarin ár. Í ávarpi sínu ræddi Lilja Alfreðsdóttir mikilvægi samstöðu og samstarfs Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og þýðingu þess fyrir Íslendinga, en Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta