Íþróttamál á Íslandi vekja athygli Eista
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fylgir forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni og frú Elizu Reid, forsetafrú, í opinberri heimsókn þeirra til Eistlands. Ráðherra hóf ferð sína á fundi með Indrek Saar menningarmálaráðherra Eistlands en hann hefur gengt því embætti í ríkisstjórn Jüri Ratas frá árinu 2015. Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir menningartengsl landanna og frekari samstarfsmöguleika, meðal annars á vettvangi samstarfsáætlunar Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna sem og á sviði íþrótta-og menningarmála. Skipulag og árangur Íslendinga á sviði íþróttamála hefur vakið athygli og mikinn áhuga Eista sem álíta hann til fyrirmyndar, en fyrirhugað er að sendinefnd á þeirra vegum komi hingað til lands í haust til þess að kynna sér þau mál betur.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kvað fundinn með Saar hafa heppnast afar vel: „Það er gott að finna fyrir svo ríkum samstarfsvilja, Eistar eru mjög velviljaðir Norðurlöndunum og ekki síst okkur Íslendingum. Við eigum ýmislegt sammerkt – við deilum til dæmis þeirri skoðun að menning sé eitt mikilvægasta aflið til þess að byggja brýr milli landa.“
Síðar um daginn ávarpaði ráðherra Jónsmessuhátíð í borginni sem skipulögð var af norrænu sendiráðunum þar. Sumarsólstöðunum er jafnan fagnað með miklum hátíðahöldum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi og hafa sendiráðin skipulagt sameiginlega hátíð í Tallinn undanfarin ár. Í ávarpi sínu ræddi Lilja Alfreðsdóttir mikilvægi samstöðu og samstarfs Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og þýðingu þess fyrir Íslendinga, en Ísland var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.