Sérfræðingar ræða rannsóknir umferðarslysa
Norrænar rannsóknarnefndir umferðarslysa funda á Íslandi í dag og á morgun ásamt hollenskum starfsbræðrum sínum. Starfsmenn Rannsóknarnefndar umferðarslysa á Íslandi skipuleggja fundinn sem haldinn er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, bauð í morgun gestina velkomna á fundinn og sagði rannsóknir umferðarslysa mikilvægt verkefni enda væri tilgangur þeirra að draga lærdóm af slysum.
Ágúst Mogensen, forstöðumaður RNU, segir að á fundinum muni hvert land kynna dæmi um eina rannsókn slyss. Með því myndu menn kynnast vinnubrögðum hver annars, miðla reynslu milli sérfræðinga landanna og skiptast á skoðunum. Hann sagði þessa fundi afar gagnlega og væru þeir haldnir reglulega til skiptis á Norðurlöndunum.