Hoppa yfir valmynd
4. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

125 milljónir króna til örvunar á félagsstarfi og heilsueflingar fullorðinna

Frá undirritun samninga vegna átaksins. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett af stað átaksverkefni til að efla félagsstarf fullorðinna í samvinnu við sveitarfélögin, ásamt aðgerðum til heilsueflingar eldri borgara í samvinnu við Landssamband eldri borgara og ÍSÍ. Aðgerðirnar eru mótaðar af starfshópi um lífskjör og aðbúnað aldraðra, og eru hluti af viðspyrnuáætlun ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu. Alls verða 125 milljónir króna settar í verkefnið, sem er þrískipt.

Félagsstarf fullorðinna í samstarfi við sveitarfélög:

80 milljónir króna verða settar í félagsstarf fullorðinna í samvinnu við sveitarfélögin þar sem sveitarfélögunum gefst kostur á að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna sem miða að því að virkja hópinn með fjölbreyttum úrræðum. Sveitarfélög geta sótt um 1.700 króna styrk fyrir hvern íbúa í sveitarfélaginu en gert er ráð fyrir að lágmarksframlag verði ekki undir 100.000 krónum.

Heilsuefling – Landssamband eldri borgara og ÍSÍ:

30 milljónir króna verða settar í sérstaka heilsueflingu eldri borgara í samstarfi við ÍSÍ. Landssamband eldri borgara fær 15 milljónir króna til að vinna að heilsueflingu aldraðra með því að ráða starfsmann í verkefnið sem vinnur, í samstarfi við ÍSÍ, í gegnum tengslanet félaga eldri borgara og sveitarfélaga um allt land. ÍSÍ mun ráða starfsmann til að aðstoða áhugasöm sveitarfélög um land allt við að innleiða með markvissum hætti heilsueflingu til framtíðar sem felur í sér skipulagða þjálfun og aukið heilsulæsi aldraðra, með tilliti til hreyfingar, næringar og annarra þátta sem skipta sköpum fyrir heilsu þeirra og líðan.

Fræðsluátak:

Þá verða 15 milljónir króna settar í gerð fræðsluefnis og auglýsinga sem er sérstaklega beint að öldruðum til heilsueflingar. Efnið verður fjölbreytt, fræðandi og mun hvetja eldri borgara til hreyfingar.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Eldri borgarar hafa þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun vegna Covid-19 faraldursins.  Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt að leggja aukna áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu, forvarnir og fræðslu með það að markmiði að auka lífsgæði og heilbrigði, fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun. Ég er mjög spenntur fyrir þessu samstarfi með sveitarfélögunum, ÍSÍ og Landssambandi eldri borgara í þeim efnum.”

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssamband eldri borgara: „Það er mikil ánægja að hafa skrifað undir þennan samning sem snýr að heilsueflingu, hreyfingu, matarræði fullorðinna og að virkja líkama og sál. Styrkinn munum við nýta til að ráða starfsmann sem ætlað er að fara um landið með fræðslu og hvatningu. Það er mat mitt að hér sé um merkan áfanga að ræða sem skiptir Landsamband eldri borgara og eldra fólk miklu máli. Þetta er einn áfangi af mörgum af starfi starfshóps sem skipaður var af félagsmálaráðherra sem unnið hefur að ýmsum verefnum fyrir eldra fólk í landinu.”

Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður starfshóps um lífskjör og aðbúnað aldraðra: „Hreyfing og virkni fullorðinna er mjög mikilvæg, ekki bara upp á líkamlegt hreysti heldur líka andlegt. Þessi hópur hefur orðið fyrir miklum áhrifum af Covid-19 faraldrinum og ekki náð að stunda hreyfingu eða félagsstarf að neinu ráði. Með þessum aðgerðum erum við að stíga mikilvægt skref í átt að heilsueflingu aldraðra ásamt því að styrkja félagsstarf þeirra með það að markmiði að styrkja líkamlega og andlega heilsu hópsins.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta