Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 492/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 492/2021

Miðvikudaginn 6. apríl 2022

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 22. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. september 2021 þar sem umönnun sonar hennar, B, var felld undir 5. flokk, 0% greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 29. júlí 2021 sótti kærandi um áframhaldandi umönnunargreiðslur með syni sínum. Með umönnunarmati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. september 2021, var umönnun sonar kæranda felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, frá 1. september 2021 til 31. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2021. Með bréfi, dags. 24. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. október 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. október 2021. Athugasemdir bárust ekki. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins á lækkun á umönnunarmati sonar kæranda. Með bréfi, dags. 7. mars 2022, barst rökstuðningur stofnunarinnar og var hann kynntur kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. mars 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru er er farið fram á að kærð ákvörðun verði endurskoðuð. 

Í kæru kemur fram að sonur kæranda hafi fæðst með klumbufætur á báðum fótum og sé hans tilfelli frekar í verri kantinum. Frá fæðingu hafi hann verið í gipsmeðferð og seinna spelkumeðferð. Hann hafi farið í aðgerð þar sem lengt hafi verið í hásin. Ekki sé útséð um að hann þurfi að fara í fleiri aðgerðir.

Sonur kæranda sé í þéttu eftirliti hjá bæklunarlækni. Drengurinn noti sérútbúna skó þar sem tvö pör séu niðurgreidd árlega en kærandi borgi hluta. Drengurinn komi til með að þurfa að fá fleiri pör af skóm sem kærandi þurfi að borga að fullu og þá muni drengurinn þurfa að fara í sjúkraþjálfun.

Drengurinn þurfi langtum meiri umönnun en önnur börn. Nú sé staðan þannig að hann sé í spelkumeðferð alla nóttina, hann sofi lítið og slitrótt vegna verkja. Umönnun drengsins sé eingöngu á herðum kæranda þar sem hún sé einstætt foreldri […]. Það að færa drenginn úr 4. umönnunarflokki, 25% greiðslur, í 5. umönnunarflokk, 0% greiðslur, sé að mati kæranda ekki réttlætanlegt. Staða drengsins hafi ekki breyst og kostnaður komi til með að verða meiri.

Í athugasemdum kæranda frá 8. mars 2022 greinir kærandi frá því að aðstæður sonar síns hafi verið öðruvísi en flestra annarra barna með klumbufætur.

Drengurinn sé með klumbufætur á báðum fótum og sé hans tilfelli frekar slæmt. Þar sem meðferðin hafi ekki gengið vel hafi hann þurft meiri umönnun og fleiri læknatíma, meiri þjálfun og meðferðir en flest önnur börn sem fæðist með klumbufætur. Drengurinn hafi síðast verið í gipsi í byrjun þessa árs, löngu eftir að umönnunarflokkur hafi fallið niður úr 4. flokki í 5. flokk. Drengurinn sé í sjúkraþjálfun tvisvar í viku, hann þurfi stöðugt að vera í sérútbúnum skóm og þess á milli í spelkum. Það þurfi að fylgjast vel með að hann fari ekki úr skónum. Allar nætur þurfi drengurinn að vera í spelkum og hluta af degi. Þetta sé […] ára drengur sem sé nýfarinn að fara af stað. Síðast þegar hann hafi verið í gipsi á báðum fótum upp að nára hafi lítið annað verið hægt að gera en að bera hann á milli staða. Það valdi drengnum miklum óþægindum að þurfa að vera í spelkum alla nóttina, hann sofi illa og vakni mjög oft.

Kærandi eigi mjög erfitt með að skilja af hverju barn sem fæðist með fötlun, fötlun sem sé blessunarlega hægt að laga í flestum tilfellum á nokkrum árum, sé ekki að lágmarki fellt undir 4. umönnunarflokk. Kærandi vísar í 2. gr. reglugerðar nr. 504/1997 sem er svohljóðandi:

„Með hugtakinu fatlað barn er átt við barn, sem vegna greindarskerðingar, geðrænna truflana eða líkamlegrar hömlunar þarf sérstaka þjálfun, aðstoð og gæslu á uppvaxtarárum sínum.

Með hugtakinu langveikt barn er átt við barn, sem þarfnast læknisfræðilegrar meðferðar vegna alvarlegs og/eða langvinns sjúkdóms.

Með hugtakinu alvarleg þroskafrávik er átt við barn með þroskafrávik sem jafna má við fötlun.

Með hugtakinu hegðunarvandamál er átt við barn með hegðunarvandamál sem jafna má við geðræna sjúkdóma.“

Það sé mat kæranda að drengurinn falli undir skilgreiningu á barni sem þurfi vegna líkamlegrar hömlunar sérstaka þjálfun, aðstoð og gæslu á uppvaxtarárum sínum. Hið eina sem sé kannski öðruvísi sé það að þetta ætti vonandi að vera komið í lag á næstu árum, fari allt vel.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun um umönnunarmat.

Kært umönnunarmat, dags. 17. september 2021, sé samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. september 2021 til 31. maí 2023. Um hafi verið að ræða fjórða umönnunarmat vegna drengsins. Fyrsta umönnunarmatið, dags, 28. september 2020, hafi verið mat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. júní 2020 til 30. nóvember 2020. Annað umönnunarmat drengsins, dags. 14. desember 2020, hafi verið mat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2020 til 28. febrúar 2021. Þriðja umönnunarmat drengsins, dags. 6. mars 2021, hafi verið mat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. mars 2021 til 31. ágúst 2021. Fjórða umönnunarmat drengsins, dags. 17. september 2021, hafi verið mat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. september 2021 til 31. maí 2023. Það mat sé í gildi í dag.

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 504/1997 sé kveðið á um að heimilt sé að veita framfærendum fatlaðra og langveikra barna aðstoð frá Tryggingastofnun ríkisins, ef sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Einnig sé heimilt að veita aðstoð til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik og barna með hegðunarvandamál.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé ákveðin flokkun vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna barna með fötlun, veikindi og þroskaraskanir. Þessi flokkun reglugerðarinnar, ásamt fyrirliggjandi gögnum, sé notuð þegar umönnunarmat sé ákvarðað hjá Tryggingastofnun.

Yfirfarin hafi verið þau gögn sem hafi legið til grundvallar umönnunarmati. Í læknisvottorði, dags. 16. ágúst 2021, komi fram sjúkdómsgreiningin Aðskeifur táfótur, Q66.0. Einnig komi fram að barnið noti spelkur þegar það sofi og við önnur tækifæri. Í eldra vottorði, dags. 27. janúar 2021, sem hafi legið til grundvallar umönnunarmati, dags. 26. mars 2021, hafi komið fram að barnið noti spelku stóran hluta sólarhringsins sem valdi aukinni umönnun.

Í umsókn foreldris, dags. 29. júlí 2021, segi að drengurinn þurfi þétt eftirlit lækna. Barnið hafi farið í aðgerð og sé í meðferð með spelkum og sérsmíðuðum skóm og þurfi sérstaka gæslu og meðhöndlun. Kostnaður sé vegna kaupa á sérsmíðuðum skópörum. Sótt hafi verið um framhald umönnunarmats.

Í samræmi við áðurnefnda lagagrein og reglugerð hafi þótt viðeigandi að fella umönnun, gæslu og útgjöld vegna drengsins undir mat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, enda falli þar undir börn sem vegna sjúkdóms þurfi aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga. Niðurstaða Tryggingastofnunar hafi því verið sú að samþykkja umönnunarmat og veita umönnunarkort sem gefi afslátt af ýmissi heilbrigðisþjónustu, svo sem vegna komugjalda hjá sérfræðingum, auk gjaldfrjálsrar þjálfunar barna eins og sjúkra- og talþjálfun. Álitið hafi verið að vandi drengsins yrði áfram nokkur og þörf fyrir samstarf við sérfræðinga. Þannig hafi þótti rétt að tryggja drengnum umönnunarkort fyrir næstu ár.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. mars 2022, segir að óskað hafi verið eftir frekari rökstuðningi fyrir því að umönnunarmat þann 17. september 2021 hafi verið lægra en mat, dags. 26. mars 2021.

Eins og fram komi í fyrri greinargerð stofnunarinnar hafa verið veitt fjögur umönnunarmöt vegna barnsins.

Í læknisvottorði, sem hafi verið notað við fyrsta mat drengsins þann 28. september 2020, hafi komið fram að drengurinn væri með klumbufætur og hafi verið í gifs- og spelkumeðferð allan sólarhringinn í þrjá mánuði frá því að vottorð hafi verið skrifað. Samþykkt hafi verið mat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. júní 2020 til 30. nóvember 2020.

Við annað mat þann 14. desember 2020 hafi verið kallað eftir nýju vottorði. Drengurinn sé búinn í gifsmeðferð og sé að ljúka spelkumeðferð allan sólarhringinn í nóvember miðað við fyrra vottorð. Þar sem spelkunotkun virðist hafa gengið illa hafi kærandi notið vafans og ákveðið hafi verið að samþykkja 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2020 til 28. febrúar 2021.

Þriðja mat hafi verið gert þann 26. mars 2021. Í vottorði komi fram að það hafi verið viss vandamál við notkun spelku og það hafi krafist mikillar umönnunar og geri áfram. Drengurinn noti spelku ennþá stóran hluta sólarhringsins og auki það umönnun og krefjist þess að móðir sé með hann. Drengurinn sé því í aukinni þörf fyrir umönnun að minnsta kosti næsta árið. Samþykktur hafi verið 4. flokkur, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. mars 2021 til 31. ágúst 2021.

Í fjórða mati þann 17. september 2021 komi fram í vottorði að drengurinn sé enn í klumbufótameðferð eins og áður. Það hafi verið smá bras í byrjun að nota spelkur og hann noti nú spelkur og einnig bæklunarskó. Hann sé í eftirliti og noti spelkurnar þegar hann sofi og við öll tækifæri þegar hann sé vakandi. Enn talsverð umönnun. Talið hafi verið að staðan væri betri þar sem drengurinn væri ekki lengur í spelkumeðferð allan sólarhringinn. Nýtt mat hafi því verið lægra en fyrri möt eða 5. flokkur, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. september 2021 til 31. maí 2023.

Tryggingastofnun vilji taka fram að ekki sé um lækkun á mati að ræða. Fyrra mat hafi verið tímabundið og hafi runnið út á þeim tíma sem það hafi átt að gera. Við nýtt mat hafi verið byggt á nýjum gögnum og þeim forsendum sem hafi verið í máli drengsins. Sú framkvæmd sé í samræmi við lög og reglur um umönnunargreiðslur. Einnig sé hún í samræmi við fyrri úrskurði úrskurðarnefndar, sbr. til dæmis í málum nr. 80/2013 og 119/2014.

Sonur kæranda hafi verið metinn í 4. flokk, 25% greiðslur, á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. ágúst 2021. Svo langur tími sé óvenjulegur fyrir önnur börn með sama vanda en það hafi verið gert vegna þess að tilfelli drengsins hafi verið óvenjulegt og hann hafi krafist meiri umönnunar. Miðað við þau gögn sem hafi legið fyrir við síðasta mat stofnunarinnar þann 17. september 2021 hafi verið talið að staða sonar kæranda væri orðin betri þar sem barnið hafi ekki verið lengur í sólarhrings spelkumeðferð. Miðað við fyrirliggjandi gögn hafi það verið mat stofnunarinnar að rétt væri að meta drenginn í 5. flokk, 0% greiðslur. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. september 2021 þar sem umönnun sonar kæranda var metin í 5. flokk, 0% greiðslur, frá 1. september 2021 til 31. maí 2023.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. nefndrar 4. gr. að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 4. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um fimm mismunandi flokka vegna langveikra barna og fimm flokka vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Falla alvarlegustu tilvikin í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk. Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar á lyfja- og lækniskostnaði en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

Í reglugerðinni er um að ræða tvenns konar flokkanir, annars vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna langveikra barna, tafla II.

Um fyrri tegund flokkunar, þ.e. vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna, segir um 4. og 5. flokk:

„fl. 4. Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

fl. 5. Börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga.”

Í læknisvottorði C, dags. 16. ágúst 2021, kemur fram sjúkdómsgreiningin Talipes equinovarus. Í vottorðinu segir í sjúkrasögu:

„Drengurinn er í klumbufótameðferð eins og áður. Hefur verið smá bras í byrjun að nota spelkur og hann notar nú spelkur og einnig bæklunarskó. Er í eftirliti, notar spelkurnar þegar hann sefur og við öll tækifæri þegar hann er vakandi þegar það er hægt. Talsverð umönnun áfram.“

Í læknisvottorði C, dags. 27. janúar 2021, segir um almenna heilsufars- og sjúkrasögu:

„B er með klumbufætur eins og áður hefur verið sagt.

Það hafa verið viss vandamál í notkun spelku og það hefur krafist mikillar umönnunar og gerir áfram. Hann notar spelku ennþá stóran hluta sólarhringsins og eykur það á umönnun og krefst þess að móðir sé með hann og haldi í spottana.

Hann er því áfram í aukinni umönnunar þörf a.m.k. næsta árið.“

Meðal gagna málsins liggja fyrir læknisvottorð C læknis, dags. 13. ágúst og 6. nóvember 2020, vegna fyrri umsókna um umönnunarmat. Í læknisvottorði, dags. 13. ágúst 2020, segir um almenna heilsufars- og sjúkrasögu:

„Drengurinn er með klumbufætur. Gerð hefur verið hásinarlenging á honum og hefðbundin gipsmeðferð. Síðan þurfti að hefja gipsmeðferð aðeins aftur en fer síðan í spelkur.

Búist er við hefðbundinni meðferð og spelkunotkun héðan í frá í þrjá mán. allan sólarhringinn síðan áframahlandi spelkunotkun þegar hann sefur í okkur ár.

Því er sótt um umönnunarbætur.“

Í læknisvottorði C, dags. 6. nóvember 2020, segir meðal annars um almenna heilsufars- og sjúkrasögu:

„Spelkumeðferð hefur reynst erfið og því viss hætta á að hann þurfi að endurtaka gipsmeðferðina.

Ljóst að það fer mikil vinna í þetta og því farið fram á umönnunarbætur.“

Í rafrænni umsókn kæranda um umönnunarmat, móttekinni 29. júlí 2021, segir í lýsingu á sérstakri umönnun eða gæslu:

„Þetta er barn sem þarf þétt eftirlit lækna. Barnið er með spelkur og notar sérstaka skó. Hann er í umsjón bæklunarlæknis.“

Í greinargerð um tilfinnanleg útgjöld vegna heilsuvanda og meðferðar segir meðal annars í umsókn:

„Drengurinn þarf að fara í þétt eftirlit lækna. Hann hefur farið í aðgerð og óvíst er hvort að sú meðferð sem er núna með spelkum og sérsmíðuðum skóm beri tilætlaðan árangur. Ef það gengur ekki þarf hann að fara aftur í aðgerð. Þetta er barn sem þarf sérstaka gæslu og meðhöndlun.

Kostnaður felst í sérsmíðuðum skóm nokkrum sinnum á ári. Læknisheimsóknum og sérstakri umönnun. Sótt er um frá 1 sept 2021“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, fær ráðið af kæru að ágreiningur varði greiðsluflokk. Í umönnunarmati frá 17. september 2021 var umönnunun drengsins felld undir 5. flokk, 0% greiðslur. Í matinu segir að um sé að ræða barn sem þurfi stuðning, þjálfun og eftirlit sérfræðinga. Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins hafa samtals verið gerð fjögur umönnunarmöt vegna drengsins. Umönnun drengsins var felld undir 4. flokk, 25% greiðslur, á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. ágúst 2021. Með kærðu umönnunarmati var umönnun drengsins felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. september 2021 til 31. maí 2023. Til þess að falla undir mat samkvæmt 4. flokki, töflu I, þarf umönnun að vera vegna alvarlegra þroskaraskana og/eða atferlisraskana sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar og eftirlits sérfræðinga, aðstoðar í skóla og á heimili og á meðal jafnaldra. Aftur á móti falla börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga, undir 5. flokk í töflu I.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefndin í huga að lækkun á umönnunarmati felur í sér íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem rökstyðja þarf sérstaklega. Aftur á móti horfir nefndin til þess að fyrra mat var tímabundið og eðli máls samkvæmt þarf að meta aðstæður og umönnunarþörf á nýjan leik miðað við aðstæður hverju sinni.

Í fyrri umönnunarmötum þar sem fallist var á að umönnun sonar kæranda félli undir 4. flokk, 25% greiðslur, kemur fram að um sé að ræða barn sem þurfi umtalsverðan stuðning, þjálfun, lyfjameðferð og þétt eftirlit sérfræðinga. Ákvarðaðar voru umönnunargreiðslur vegna meðferðar og kostnaðarþátta. Einnig var bent á að yrði sótt um að nýju þyrfti að staðfesta tilfinnanlegan útlagðan kostnað vegna meðferðar barnsins með framlagningu á reikningum. Í greinargerð Tryggingastofnunar frá 7. mars 2022 kemur fram að umönnun sonar kæranda hafi verið metin til 4. flokks, 25% greiðslur, í óvenjulega langan tíma miðað við önnur börn með sama vanda vegna þess að hans tilfelli hafi verið óvenjulegt og krafist meiri umönnunar. Miðað við þau gögn, sem hafi legið fyrir við síðasta mat stofnunarinnar 17. september 2021, hafi verið talið að staða sonar kæranda væri orðin betri þar sem barnið væri ekki lengur í sólarhrings spelkumeðferð.

Í kæru bendir kærandi á að umönnun drengsins sé umtalsverð, hann þurfi þétt eftirlit lækna, sérútbúna skó og að hugsanlega þurfi hann að gangast undir aðra aðgerð. Þá segir að kostnaður muni aukast.

Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins er sonur kæranda með klumbufætur. Þá liggur fyrir að hann þurfi þétt eftirlit lækna, hann sé með spelkur og noti bæklunarskó. Af gögnum málsins verður ráðið að drengurinn hafi í upphafi verið í spelkumeðferð allan sólarhringinn og að spelkumeðferðin hafi verið erfið. Í læknisvottorði C, dags. 16. ágúst 2021, sem lá til grundvallar kærðu umönnarmati, er greint frá því að það hafi verið „smá bras“ í byrjun að nota spelkur og að drengurinn noti nú spelkur og bæklunarskó. Drengurinn noti spelkurnar þegar hann sofi og við öll tækifæri þegar hann sé vakandi þegar það sé hægt. Af framangreindu læknisvottorði verður ráðið að spelkumeðferðin gangi nú betur en í upphafi.

Úrskurðarnefndin telur að með gildandi mati þar sem umönnun vegna drengsins var felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, sé umönnun drengsins ekki vanmetin og að tekið hafi verið tillit til umönnunar hans.

Í kæru er vísað til kostnaðar vegna kaupa á sérsmíðuðum skóm og fyrirhugaðrar sjúkraþjálfunar hjá syni kæranda. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 er heimilt að meta til hækkunar greiðslna ef um sannanleg tilfinnanleg útgjöld er að ræða, til dæmis vegna ferða- eða dvalarkostnaðar vegna læknismeðferðar. Einungis ein kvittun liggur fyrir í málinu og því telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að greiða kæranda umönnunargreiðslur með vísan til ákvæðis 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Kæranda er þó bent á að hún geti lagt fram gögn um kostnað til Tryggingastofnunar og óskað eftir breytingu á gildandi mati ef hún telur kostnað vegna drengsins gefa tilefni til þess.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. september 2021, um að fella umönnun sonar kæranda undir 5. flokk, 0% greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, þar sem umönnun sonar hennar, B, var felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, er staðfest. 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta