Fyrri úthlutun úr Tónlistarsjóði 2023
Tilkynnt hefur verið um úthlutanir úr Tónlistarsjóði fyrir fyrri hluta ársins 2023. Alls var rúmum 64 milljónum úthlutað úr sjóðnum en þar af var 32 milljónum úthlutað til sjö samningsbundinna styrkþega til 3 ára í senn. Meðal þeirra eru Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Myrkir Músíkdagar og Jazzhátíð Reykjavíkur.
Til úthlutunar annarra verkefna voru 31.580.000 krónur en að þessu sinni barst 131 umsókn til sjóðsins og var heildarupphæð styrkumsókna 141.391.725 krónur. 56 verkefni fengu úthlutaðan styrk en þann hæsta hlýtur Sönghátíð í Hafnarborg, upp á 1,5 milljónir króna, en sú hátíð hefur vakið mikla athygli frá því að hún var sett á laggirnar.
Auk þess hljóta sjö verkefni sem snúa að börnum og barnamenningu styrk að þessu sinni. Þar á meðal eru BIG BANG tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur og Djasshátíð barnanna, sem hvor um sig hljóta 800.000 krónur í styrki.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, úthlutar úr sjóðnum að fengnum tillögum tónlistarráðs og er sjóðurinn í umsýslu hjá Rannsóknarmiðstöð Íslands.
Lista yfir alla sem hlutu styrki í fyrri úthlutuninni má finna á vef Rannís.
Nýr sjóður væntanlegur
Úthlutunin var sú síðasta úr núverandi Tónlistarsjóði en gert er ráð fyrir að nýr tónlistarsjóður hefji starfsemi á síðari hluta árs 2023 í tengslum við fyrstu heildarlögin um tónlist og nýja tónlistarstefnu til 2030. Með nýjum tónlistarsjóði er leitast við að gera styrkjakerfi tónlistar einfaldara, skilvirkara og gagnsærra.
„Nýr tónlistarsjóður mun koma til með að útrýma óvissu sem hefur ríkt meðal viðburðahaldara við fyrra kerfi og gera þeim kleift að sækja um styrki með mun meiri fyrirvara en áður. Á síðustu misserum hefur margt verið gert til að bæta umhverfi tónlistar á Íslandi og ég er viss um að það sé bjart framundan í íslensku tónlistarlífi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Umgjörð að nýjum tónlistarsjóði er lögð fram í frumvarpi til tónlistarlaga sem verður lagt fyrir þing á vormánuðum og hefur þegar verið samþykkt í ríkisstjórn. Sjóðnum er ætlað að taka við af tónlistarsjóði, hljóðritasjóði íslenskrar tónlistar og útflutningssjóði íslenskrar tónlistar og verður hlutverk hans m.a. að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði.
Sjá einnig: Nýtt tónlistarfrumvarp samþykkt í ríkisstjórn.
Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlöggjöf um tónlist í fyrsta skipti á Íslandi. Ný tónlistarmiðstöð verður stofnuð síðar á árinu en hún verður einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistariðnaðar á Íslandi. Hún mun sinna bæði fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins og kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu.