Hoppa yfir valmynd
29. maí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 233/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 233/2020

Föstudaginn 29. maí 2020

A

gegn

B ehf.

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. febrúar 2020, kærði C, lögfræðingur, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála meint brot B ehf. á 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

I.  Niðurstaða

Kærandi gerir þá kröfu að viðurkennt verði að sú ákvörðun B ehf. að segja henni upp störfum sé brot á 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Í ákvæðinu er kveðið á um að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs samkvæmt 9. eða 26. gr. eða sé í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og þá skuli skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildi um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem hafi nýlega alið barn.

Í 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er gildissvið laganna afmarkað en þar segir að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá kemur fram í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 að úrskurðarnefnd velferðarmála skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Samkvæmt því skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndarinnar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst er af kæru og þeim gögnum sem fylgdu með henni að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun um ágreiningsefni málsins, enda fellur fyrrum vinnuveitandi kæranda ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015. Kærunni er af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta