Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 12/2021 - Úrskurður

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

 

Veiting starfsréttinda á grundvelli aldurs. Kærufrestur liðinn. Frávísun.

Máli kæranda var með vísan til 3. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála vísað frá kærunefnd jafnréttismála þar sem kærufrestur var liðinn.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála 2. nóvember 2021 er tekið fyrir mál nr. 12/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  1. Með kæru, dags. 20. ágúst 2021, kærði A atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vegna mismununar á grundvelli aldurs sem leiddi af þeim breytingum sem voru gerðar með lögum nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa, sbr. lög nr. 131/2015 um breytingu á þeim lögum, þar sem tilteknum hópi var veitt undanþága til að starfa áfram sem fasteignasalar án þess að hafa til þess löggildingu. Kærunefnd bárust frekari gögn frá kæranda eftir móttöku upphaflega erindisins, síðast 1. nóvember 2021.
  2. Af kæru má ráða að kærandi telji að undanþága í bráðabirgðaákvæði IV í lögunum, sbr. lög nr. 131/2015, sem gilti um starfsmenn á fasteignasölum sem 1. júlí 2015 höfðu starfað sem sölumenn fasteigna í meira en 20 ár og hefðu náð 50 ára aldri og gátu hlotið skráningu á undanþágulista sölumanna samkvæmt umsókn þar um fyrir 1. júlí 2016, sé mismunun á grundvelli aldurs þar sem hann hafi ekki uppfyllt aldursskilyrðið.

    MÁLAVEXTIR

  3. Í kæru kemur fram að kærandi hafði starfað sem fasteignasali og sölustjóri á fasteignasölu í 20 ár þegar lög nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa tóku gildi 21. júlí 2015 og ákvæði laga nr. 131/2015, sem bætti bráðabirgðaákvæði IV við lögin, tóku gildi 30. desember 2015. Með lögunum var gerð sú breyting, sbr. 6. gr. þeirra, að lagt var bann við að fasteignasali fæli öðrum að vinna þau störf sem löggilding fasteignasala tæki til nema um væri að ræða annan fasteignasala sem hefði ábyrgðartryggingu, sbr. 4. gr. laganna. Í bráðabirgðaákvæði IV í lögunum var hins vegar mælt fyrir um tímabundna undanþágu frá framangreindu skilyrði sem kvað á um að starfsmenn á fasteignasölum sem 1. júlí 2015 höfðu starfað sem sölumenn fasteigna í meira en 20 ár og hefðu náð 50 ára aldri gætu hlotið skráningu á undanþágulista sölumanna. Aðila sem teldi sig uppfylla skilyrðin bar að sækja um slíka skráningu skriflega til eftirlitsnefndar fasteignasala fyrir 1. júlí 2016 en með slíkri umsókn áttu að fylgja gögn sem staðfestu að skilyrðin væru uppfyllt. Staðfestu framlögð gögn að framangreind skilyrði væru uppfyllt myndi eftirlitsnefnd fasteignasala tilkynna viðkomandi aðila á undanþágulista hjá ráðuneyti sem veitti viðkomandi aðila heimild til að sinna tilteknum verkefnum sem voru talin upp í liðum a-d í ákvæðinu. Í 2. mgr. ákvæðisins var tekið fram að synjanir um skráningu væri heimilt að kæra til ráðuneytis innan þriggja mánaða frá tilkynningu synjunar.
  4. Kærandi sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ósk um undanþágu frá lögunum en var hafnað með bréfi, dags. 26. janúar 2021, á þeim grundvelli að ekki væri lagaheimild til að veita undanþágu til að starfa við sölu fasteigna. Áður hafði hann sent erindi til ráðuneytisins þar sem hann óskaði eftir að ráðuneytið beitti sér fyrir því að lögunum yrði breytt svo hann gæti haldið áfram að starfa sem fasteignasali.

    NIÐURSTAÐA

  5. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, meðal annars hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um geti í 1. mgr. 1. gr.
  6. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála er mælt fyrir um að erindi skuli berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögunum lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.
  7. Í málinu liggur fyrir að umsóknarfrestur um undanþágu frá ákvæðum laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV í lögunum var til 1. júlí 2016. Samkvæmt því eru rúm fimm ár síðan undanþáguheimildin féll úr gildi. Með vísan til þess og 3. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 er málinu vísað frá kærunefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta