Hoppa yfir valmynd
18. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Víðtækt samstarf gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði

Stjórnarráðið - myndVelferðarráðuneytið
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að efna til víðtæks samstarfs til að sporna við félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Velferðarráðuneytið mun leiða vinnuna en að henni munu koma fulltrúar frá fleiri ráðuneytum, eftirlitsaðilum, samtökum launafólks, sveitarfélögum og Samtökum atvinnulífsins. Markmiðið er að skoða mögulegar lagabreytingar og leggja til leiðir sem vænlegar eru til árangurs. Einnig verði sett sameiginleg markmið og mælikvarðar skilgreindir til að meta árangurinn.

Það er viðurkennd meginregla á innlendum vinnumarkaði að aðilar vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði í frjálsum kjarasamningsviðræðum sem gilda hér á landi sem lágmarkskjör. Þannig hafa heildarsamtök á vinnumarkaði axlað sameiginlega ábyrgð á uppbyggingu vinnumarkaðarins í samvinnu við stjórnvöld með það að markmiði að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað. Að undanförnu hefur orðið vart við aukna samfélagsumræðu um félagsleg undirboð á vinnumarkaði hérlendis og hefur Alþýðusambandið vakið máls á því að þau séu að færast í aukana. Félags- og jafnréttisráðherra hefur átt í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins um þessi mál og eru aðilar sammála um að þörf sé á aðgerðum.

Eftirlit á vinnumarkaði

Það er sameiginlegt viðfangsefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að stuðla að því að laun og önnur starfskjör starfsmanna á innlendum vinnumarkaði séu í samræmi við kjarasamninga og lög hér á landi. Ef ákvæði kjarasamninga og vinnu- og skattalöggjafar eru ekki virt grefur það undan starfsemi annarra fyrirtækja og spillir forsendum eðlilegrar samkeppni. Dregur það úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi. Við eftirlitið gegna aðilar vinnumarkaðarins veigamiklu hlutverki sem og skattyfirvöld, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlit ríkisins og lögreglan. Mikilvægt er að þessir aðilar taki höndum saman þannig að sem bestur árangur náist við að tryggja að félagsleg undirboð viðgangist ekki á íslenskum vinnumarkaði.

Ásmundur Einar DaðasonÁsmundur Einar Daðason segir árangur hafa náðst með sameiginlegum eftirlitsheimsóknum framantalinna aðila á vinnustaði, en það það þurfi meira að koma til: „Það þarf að tryggja að þegar upp koma alvarleg mál séu þau til lykta leidd. Það þarf að draga vinnuveitendur sem gerast brotlegir til ábyrgðar og draga þar með úr líkum á að þeir komist upp með að brjóta ítrekað á launafólki sínu.“

Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að eftirtaldir aðilar taki þátt í samstarfinu undir forystu velferðarráðuneytisins: Alþýðusamband Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bandalag háskólamanna, BSRB, dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Embætti ríkislögreglustjóra, Embætti ríkisskattstjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta