Hoppa yfir valmynd
22. mars 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hvatning úr óvæntri átt fyrir PISA könnunina

Um 4.000 íslenskir nemendur úr öllum grunnskólum landsins taka þátt í PISA könnuninni 2018 á tímabilinu 12. mars til 13. apríl næstkomandi. Áhersla hefur verið lögð á að skapa jákvætt viðhorf gagnvart þátttöku í skólunum og minna almennt á mikilvægi þess fyrir nemendurna sjálfa að standa sig vel í því sem þeir taka sér fyrir hendur og hvað metnaður í námi getur skilað þeim í framtíðinni.

Til að miðla þessari hvatningu og jákvæðni hafa eftirtalin lagt verkefninu lið og tekið upp hvetjandi skilaboð til krakkanna: Alfreð Finnbogason, Hörður Björgvin Magnússon og Jón Daði Böðvarsson landsliðsmenn í knattspyrnu, Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði kvennalandsliðsins í knattspyrnu, Fanndís Friðriksdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir landsliðskonur í knattspyrnu, Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu og aðstoðarmaður hjá karlalandsliðinu í knattspyrnu og þau Jón Jónsson tónlistarmaður og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV.

„Það er skemmtilegt að sjá allt þetta frambærilega fólk leggja þessu verkefni lið og miðla hvetjandi skilaboðum til nemenda. Öll eiga þau sammerkt að hafa náð langt á sínu sviði og hafa sýnt að hugarfarið skiptir máli, hvort sem það er í íþróttum, tónlist eða öðru. Ég hvet nemendur til þess að taka þátt í PISA og gera sitt allra besta,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Myndböndin og frekari upplýsingar má sjá á vefsíðunni www.pisa.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta