Nýr samningur um þjónustu Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar
Þjónusta Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar, einkum fyrir ungt fólk með geðraskanir, verður aukin til muna með nýjum þjónustusamingi milli samtakanna og Vinnumálastofnunar sem undirritaður var í dag.
Gerð samningsins er niðurstaða samstarfs sem efnt var til milli velferðarráðuneytisins og Hugarafls í ágúst síðastliðnum með það að markmiði að styðja við starfsemi samtakanna á þann hátt sem best myndi nýtast fólki með geðræn vandamál.
Markmiðið með samningnum er að veita þeim sem Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, heilbrigðisstofnanir eða aðrir viðurkenndir aðilar svo sem félagsþjónusta sveitarfélaga vísa til Hugarafls, aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum og gefa þeim þannig færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða skipta um starfsvettvang til dæmis að undangengnu frekara námi.
Þjónustan stendur einnig til boða þeim sem hafa takmörkuð atvinnutækifæri eða standa höllum fæti á vinnumarkaði vegna skorts á grunnmenntun eða annarri hæfni og koma af sjálfsdáðun.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafréttismálaráðherra, var viðstaddur undirritun samningsins í dag og lýsti ánægju með þá niðurstöðu sem í honum felst. „Með samningnum er traustum stoðum skotið undir hið mikilvæga starf Hugarafls í þágu ungs fólks með geðraskanir. Okkar markmið er að hjálpa sem flestum til aukinnar virkni í samfélaginu og Hugarafl tekur opnum örmum á móti viðkvæmum hópi á erfiðum tímum í lífum þeirra. Þá er sérstaklega gott að sjá hversu hratt og ötullega starfsfólk í ráðuneytinu og undirstofnunum hefur unnið að þessu máli sem nú fær farsælan endi.“ Ráðherra tilkynnti einnig við þetta tækifæri að hann hefði ákveðið að veita eina milljón króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja starfsemi Hugarafls.
Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, tók í sama streng og ráðherra: „Við í Hugarafli erum gríðarlega ánægð með stuðning velferðarráðuneytisins við að tryggja áframhaldandi öflugt starf Hugarafls. Einnig erum við ánægð með að í fyrsta skipti er opnu úrræði veittur stuðningur sem og fyrir þá sem ekki uppfylla skilyrði hjá öðrum endurhæfingarúrræðum. Sérstaklega erum við glöð að sjá áhersluna á ungt fólk í samningnum. Þá er ég afar ánægð með hröð og góð vinnubrögð ráðherra og hans fólks, þegar neyðarástand myndaðist í starfsemi Hugarafls.“
Samningurinn gildir frá september 2017 til ársloka 2019.