Mál nr. 2/2022 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Matvælastofnun
Kyn. Launamismunun. Sönnunarregla. Ekki fallist á brot.
A kærði mismun á launum hans og samstarfskonu hans hjá M. Ekki var fallist á að A hefði leitt líkur að því að laun hans hefðu verið ákvörðuð lægri fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, sbr. 2. mgr. 18. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 150/2020.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 5. apríl 2023 er tekið fyrir mál nr. 2/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Hinn 23. febrúar 2022 kærði A mismun á launum hans og samstarfskonu hans hjá Matvælastofnun með kæru, dags. 6. október 2021. Telur kærandi að launasetning hans hjá kærða brjóti gegn 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og krefst þess að brot kærða verði staðfest. Þá gerir hann kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi kærða.
- Fylgigögn með kærunni bárust 22. apríl 2022 og umboð lögmanns kæranda barst 20. júní 2022. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 23. júní 2022. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 27. júní 2022, og var hún send kæranda degi síðar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
MÁLAVEXTIR
- Kærandi hefur starfað sem sérfræðingur hjá kærða við eftirlit með fiskvinnslum frá árinu 2008 þegar starf hans var flutt frá Fiskistofu. Kærandi aflaði upplýsinga um laun samstarfsmanna sinna. Sú athugun leiddi í ljós að samstarfskona hans, sem er félagsmaður í BHM, væri með hærri grunnlaun en hann sem félagsmaður í Sameyki, en yfirvinnan væri nánast sú sama. Með bréfi til kærða, dags. 14. september 2021, krafðist kærandi leiðréttingar á launum sínum. Í kjölfar ábendinga kæranda voru gerðar breytingar hjá kærða og ákveðið að þjálfa allt matvælaeftirlitsfólk upp í fjölbreyttu eftirliti og jafna launakjör þess frá og með 1. apríl 2022.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Kærandi heldur því fram að honum hafi verið mismunað í launum á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og krefst þess að að laun sín verði leiðrétt.
- Kærandi tekur fram að samstarfskona hans sé með hærri grunnlaun en hann en yfirvinna þeirra sé nánast sú sama. Um sama starfið sé að ræða í sömu deild hjá kærða. Séu störfin því jafn verðmæt. Þrátt fyrir það fái hann lægri laun en konan.
- Kærandi tekur fram að honum sé kunnugt um háskólamenntun konunnar og að hún taki laun samkvæmt öðrum kjarasamningi. Hins vegar réttlæti mismunandi menntun ekki mismunandi laun þegar um jafn verðmæt störf sé að ræða. Vísar kærandi þessu til stuðnings til úrskurða kærunefndar jafnréttismála í málum nr. 1/2004 og 5/2000 sem og til dóms Hæstaréttar í máli nr. 255/1996.
- Kærandi mótmælir því að samstarfskona hans sé verðmætari starfsmaður en hann og leggur í því sambandi áherslu á langa starfsreynslu sína, menntun og námskeið sem hann hafi sótt á undanförnum árum. Launamismunur verði því ekki réttlættur með mismunandi menntunarstigi. Tekur hann jafnframt fram að hann hafi reynt að fá kjör sín leiðrétt en án árangurs.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði heldur því fram að hann hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020, enda hafi mismunandi laun starfsmanna kærða ekki ráðist af kynferði heldur af menntunarstigi og starfsreynslu, óháð kynferði.
- Kærði tekur fram að fjórir starfsmenn Fiskistofu, þ. á m. kærandi, hafi flust yfir til kærða árið 2008 þegar verkefni þeirra voru flutt þangað. Kærandi hafi haldið áfram að sinna eftirliti með fiskvinnslum þegar hann hóf störf hjá kærða.
- Árið 2020 hafi kærði auglýst eftir starfsfólki með háskólamenntun til að sinna fjölbreyttu matvælaeftirliti, ekki eingöngu með fiskvinnslum heldur einnig kjötvinnslum og eggjapökkunarstöðvum. Ein af hæfniskröfum hafi verið háskólamenntun sem nýttist í starfi, t.d. matvælafræði, líffræði eða sambærileg menntun. Rökin hafi m.a. verið þau að nýta betur eftirlitsferðir eftirlitsmanna sem oft færu um langan veg að sinna eftirliti. Tveir starfsmenn hafi verið ráðnir, karl og kona, og hafi þau tekið laun samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN). Grunnlaun þeirra hafi verið hærri en starfsfólks sem tæki laun samkvæmt kjarasamningi Sameykis við ríkið og stofnanasamningi við kærða, enda hafi störf þeirra átt að ná yfir breiðara svið en störf fiskeftirlitsmanna. Bæði hafi fengið meistaragráðu metna ofan á B.Sc.-gráðu.
- Kærði bendir á að í stofnanasamningum Sameykis og FÍN við Matvælastofnun sé gert ráð fyrir að meta starfsreynslu til launa, fyrst eitt ár, næst þrjú ár og loks fimm ár, og því séu starfsaldurshækkanir mjög álíka í samningunum tveimur. Báðir starfsmennirnir sem voru ráðnir á árinu 2020 hafi búið yfir mikilli starfsreynslu sem nýttist í starfi þeirra sem matvælaeftirlitsfólks og hafi hún verið að fullu metin. Bendir kærði á að hann hafi áður ráðið starfsmenn með háskólagráðu sem hafi sinnt eftirliti með matvælavinnslum auk annarra sérfræðiverkefna á matvælasviði. Þeir hafi tekið laun samkvæmt kjarasamningi FÍN við ríkið og stofnanasamningi FÍN við kærða.
- Kærði tekur fram að það sé vissulega rétt að hluti starfa þeirra tveggja sem ráðin voru á árinu 2020 sé sá sami og störf fiskeftirlitsfólksins sem kom frá Fiskistofu. Fyrrnefndu starfsmennirnir hafi aftur á móti getað sinnt fjölbreyttari verkefnum í eftirliti og öðrum tengdum sérfræðistörfum.
- Tekur kærði fram að í kjölfar ábendingar kæranda vorið 2022 hafi verið ákveðið að þjálfa allt matvælaeftirlitsfólk upp í fjölbreyttu eftirliti og jafna launakjör þess við matvælaeftirlitsfólk með B.Sc.-háskólagráðu frá og með 1. apríl 2022. Hafi mismunandi laun því ekki fylgt kynferði, heldur hafi þau ráðist af menntunarstigi og starfsreynslu, óháð kynferði.
NIÐURSTAÐA
- Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. 6. gr. sömu laga, með því að greiða kæranda lægri laun en samstarfskonu hans. Krefst kærandi þess að brot kærða verði staðfest og að laun hans verði leiðrétt. Þá gerir hann kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi kærða.
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
- Almennt ákvæði um launajafnrétti er í 6. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt 1. mgr. skulu konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Í 2. mgr. ákvæðisins er tekið fram að með jöfnum launum sé átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skuli þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Eins og kemur fram í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að framangreindum lögum er ákvæðinu ætlað að tryggja að konur og karlar njóti sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf og fyrir ólík störf sem metin eru jafn verðmæt og jafngild.
- Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 2. mgr. 18. gr. kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að hann njóti lakari launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf á grundvelli kyns. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á launakjör í starfinu sem um ræðir.
- Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur starfað hjá kærða til fjölda ára sem sérfræðingur sem sinnir eftirliti með lagarafurðum (fiskvinnslu) en í starfinu fólst eftirlit með fiskvinnslum. Þá verður ráðið af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu að samstarfskona kæranda, sem hann ber sig saman við, hafi sinnt matvælaeftirliti sem sérfræðingur (eftirlit með vinnslu matvæla) sem fólst í eftirliti með fiskvinnslum, kjötvinnslum og eggjapökkunarstöðvum. Samkvæmt því verður ekki betur séð en að starf samstarfskonu kæranda hafi verið umfangsmeira en starf hans og því ekki um að ræða sama starfið.
- Kærði hefur lýst því að samstarfskona kæranda hafi getað sinnt fjölbreyttari verkefnum í eftirliti og öðrum tengdum sérfræðistörfum, en gerð var krafa um frekari menntun í starfi hennar við ráðningu. Hafi hennar starf því náð yfir breiðara svið en starf kæranda. Verður þetta jafnframt ráðið af starfslýsingum þeim sem liggja fyrir í málinu. Að þessu virtu verður að mati nefndarinnar að telja að starf kæranda hafi ekki verið jafn verðmætt, í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 150/2020.
- Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar jafnréttismála að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að honum hafi verið ákvörðuð lægri laun en samstarfskonu hans fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, sbr. 2. mgr. 18. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 150/2020, enda verður að telja miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi ráðið umræddum launamun.
- Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kæranda hafi ekki verið mismunað á grundvelli kyns í launum, sbr. 1. mgr. 18. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 150/2020. Verður því öllum kröfum kæranda hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Matvælastofnun, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ákvörðun launa kæranda.
Kröfu kæranda um málskostnað er jafnframt hafnað.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Ari Karlsson