Yfir hálfur milljarður barna býr í löndum þar sem skortir algerlega tölfræðigögn
Að mati Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) blasir við gífurlegur skortur á tölfræðigögnum til þess að unnt sé að meta framfarir í ljósi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF er tilfinnanlegur skortur á gögnum í 64 löndum. Í 37 löndum þar sem unnt er að meta árangur með tölfræðigögnum að einhverju leyti er niðurstaðan sú að Heimsmarkmiðin eiga langt í land.
„Rúmlega helmingur barna í heiminum býr í löndum þar sem við getum alls ekki metið framfarir með tilliti til Heimsmarkmiðanna og þar sem við getum lagt mælistiku á árangur erum við langt frá því að ná settu marki,“ segir Laurence Chandy yfirmaður rannsókna og tölfræði hjá UNICEF.
Skýrslan – Progress for Children in the SDG Era – er fyrsta þemaskýrslan þar sem freistað er að leggja mat á árangur Heimsmarkmiðanna með tilliti til barna og ungmenna. Í skýrslunni segir að 520 milljónir barna búi í löndum þar sem algerlega skortir tölfræðigögn í að minnsta kosti tveimur af hverjum þremur atriðum sem á að mæla og ástæða sé til að óttast að börn komi til með að búa við lakari aðstæður eftir 2030 en núna.
Matsatriðin fimm sem lögð voru til grundvallar skýrslugerðinni varðandi réttindi barna voru þessi: heilsa, nám, vernd gegn ofbeldi og misnotkun, öruggt umhverfi og jöfn tækifæri.
„Fyrir tveimur árum samþykktu þjóðir heims metnaðarfull markmið til að veita hverju og einu barni bestu tækifæri í lífinu með háþróaðri gagnagreiningu til að varða leiðina að settu marki. Og nú sýnir ítarleg skýrsla okkar um framfarir í tengslum við Heimsmarkmiðin gífurlegan skort á gögnum. Flestar þjóðir skortir meira að segja upplýsingar um það hvort um framfarir sé að ræða eða afturför. Börn í heiminum reiða sig á okkur – og við vitum ekki einu sinni hver þau eru,“ segir Chandy.
Nánar á vef UNICEF