Hoppa yfir valmynd
22. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Auka þarf nákvæmni í skjölun og eftirfylgni tollafgreiðslu vegna innfluttra landbúnaðarafurða

Þann 24. september 2020 skipaði fjármála- og efnahagsráðuneytið starfshóp til að skoða hvort misræmi væri að finna milli magns í útflutningstölum úr gagnagrunni Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands vegna ákveðinna tegunda landbúnaðarvara, þ.e. nautakjöts, svínakjöts, kjúklingakjöts og mjólkurafurða. Starfshópurinn hefur nú skilað minnisblaði til ráðherra en þar er meðal annars bent á að auka þurfi nákvæmni í skjölun og eftirfylgni tollafgreiðslu á Íslandi en það myndi minnka til muna mögulegt misræmi í gögnum um innflutning landbúnaðarafurða.

Teknir voru til skoðunar tveir kaflar tollskrárinnar, 2. kafli og 4. kafli, en þeir ná yfir kjöt og mjólkurafurðir. Við athugun kom í ljós að á árunum 2017-2019 var heildarinnflutningur á kjöti tæplega 400 tonnum meiri til Íslands frá ESB skv. tölum Hagstofu en sambærilegar tölur ESB yfir útflutning sambandsins til Íslands. Munar þar 4%. Litið til sama tímabils var heildarinnflutningur á mjólkurafurðum tæplega 1.000 tonnum minni til Íslands en frá ESB. Munar þar 21% og gengur misræmið því í báðar áttir.

Fram kemur í minnisblaðinu að misræmi geti gefið ranga mynd af raunverulegri stöðu utanríkisviðskipta á Íslandi sem hafi t.a.m. afleiðingar fyrir áætlanagerð, greiningarvinnu og tekjuöflun ríkissjóðs. Þess utan skapi misræmið tortryggni og núning í samskiptum hagsmunaaðila og geti haft neikvæð áhrif á utanríkisviðskipti og framkvæmd þeirra fríverslunarsamninga sem gerðir hafa verið.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið að setja á fót nýjan starfshóp sem ætlað er að gera frekari greiningar og koma með tillögur að útbótum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta