Fjárlög 2024 samþykkt: Aukið aðhald og skörp forgangsröðun
Bætt forgangsröðun í ríkisrekstri, aukið aðhald ríkisfjármála og stuðningur við hjaðnandi verðbólgu endurspeglast í fjárlögum fyrir árið 2024 sem hafa verið samþykkt á Alþingi. Með fjárlögunum er lögð áhersla á ábyrgan ríkisrekstur á meðan forgangsraðað er í þágu grunnþjónustu og velferðarkerfisins.
Fjórða árið í röð batnar afkoma ríkissjóðs milli ára á sama tíma og áfram er forgangsraðað í þágu bættrar þjónustu við almenning og í innviði samfélagsins. Lækkun skuldahlutfalls styrkir stöðu ríkissjóðs enn frekar og gerir samfélagið betur í stakk búið að mæta áföllum.
Afkoma batnar og skuldir lækka
Heildarafkoma ríkissjóðs er áætluð í halla um 51 ma.kr. eða 1,1% af VLF á næsta ári og batnar afkoman milli ára samanborið við horfur um 1,3% af VLF halla á þessu ári. Afkoman í ár er umtalsvert betri en áætlun fjárlaga ársins 2023 sem gerðu ráð fyrir halla um 3% af VLF. Með samþykktum fjárlögum árið 2024 hefur tekist að festa í sessi þann afkomubata sem fram kom á þessu ári og fylgja þeirri stefnumörkun um að bæta afkomu ríkissjóðs ár frá ári sem gert er ráð fyrir í gildandi fjármálaáætlun. Gangi áætlunin eftir verður það annað árið í röð sem ríkissjóður er rekinn með betri heildarafkomu en árið 2019, þ.e. fyrir áhrif heimsfaraldursins.
Frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. afkoma án vaxtatekna og vaxtagjalda, er áætlaður jákvæður um 25 ma.kr. eða 0,6% af VLF en vaxtajöfnuður er áætlaður neikvæður um 76 ma.kr. eða 1,7% af VLF. Vaxtajöfnuður batnar talsvert milli ára eða um 0,4% af VLF, en horfur um lægri verðbólgu á næsta ári draga úr vaxtakostnaði verðtryggðra lána.
Áætlað er að skuldir ríkissjóðs lækki milli ára og verði um 32% af VLF í lok næsta árs. Skuldir ríkissjóðs á þennan mælikvarða náðu hámarki við rúmlega 33% af VLF árin 2021–2022 í kjölfar heimsfaraldursins og voru 22% af VLF árið 2019.
Ráðstafanir til að bæta afkomu ríkissjóðs
Samhliða ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti ráðuneyta er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna. Má þar nefna að fyrsta skrefið verður stigið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum sem hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Þá verður gistináttaskattur lagður á á ný, eins og boðað hafði verið, og mun hann nú einnig ná til skemmtiferðaskipa sem er breyting frá eldra fyrirkomulagi.
Stuðningur við íbúa Grindavíkur
Við þriðju umræðu fjárlaga voru fjármagnaðar stuðningsaðgerðir til íbúa Grindavíkur í kjölfar jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Má þar nefna 2,4 ma.kr. vegna laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavík og 500 m.kr. tímabundin hækkun vegna húsnæðisstuðnings. Þessar aðgerðir ná til febrúarloka á næsta ári og koma til viðbótar kaupum á allt að 80 íbúðum í gegnum leigufélagið Bríeti, sem fékk aukið eiginfjárframlag í fjáraukalögum yfirstandandi árs. Óvissa um framvindu mála er þess eðlis að staðan verður endurmetin reglulega og gripið verður til frekari ráðstafana á næsta ári reynist þess þörf.
Önnur helstu áherslumál í fjárlögum 2024
Fjárlögin gera ráð fyrir að fjárfest verði í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.
- Framlög til heilbrigðismála eru eftir sem áður stærsti útgjaldaliður fjárlaga og nema um 379,4 ma.kr. á næsta ári. Það er hækkun um 13,3 ma.kr. á milli ára á föstu verðlagi.
- Fjárveitingar til byggingar nýs Landspítala á næsta ári nema 19,3 ma.kr., en um er að ræða stærsta einstaka fjárfestingaverkefni hins opinbera frá upphafi.
- Stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða eru aukin verulega, eða um 5,6 ma.kr.
- Framlög til menntamála eru aukin, m.a. til að styrkja verknám og starfsbrautir á framhaldsskólastigi og efla háskólastigið.
- Útgjöld vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði fyrirtækja eru áætluð 16,6 ma.kr. sem er hlutfallslega hátt í alþjóðlegum og norrænum samanburði. Fyrir fáeinum árum voru þessi útgjöld aftur á móti lægri á Íslandi en meðaltal OECD ríkja og með því lægsta á Norðurlöndunum.
- Samkomulag hefur náðst við sveitarfélög um fjármögnun málefna fatlaðs fólks með hækkun útsvars og samsvarandi lækkun tekjuskatts einstaklinga. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024. Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna.
- Gert er ráð fyrir sölu á eignarhlut í Íslandsbanka á næsta ári. Sú ráðstöfun hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs en er mikilvæg til fjármögnunar hans.