Nýr sáttmáli til verndar réttindum fatlaðra einstaklinga
Þann 25. ágúst sl. náðist samkomulag um sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem falið er það hlutverk að vernda og efla réttindi og virðingu einstaklinga með fötlun (Convention on the Protection and Promotion of the Rights and Dignity of Persons with Disabilities) . Samkomulag var gert af yfir 100 þátttökulöndum um að leggja samningsdrögin fyrir allsherjarþingið til samþykktar. Ráðstefnan var haldin í höfuðstöðum Sameinuðu þjóðanna í New York og hafði þá staðið yfir í 10 virka daga. Um var að ræða áttundu samkomuna til að setja saman og samþykkja drög að slíkum réttindasáttmála, en vinna við gerð hans hófst í desember 2001. Þátttaka hagsmunasamtaka fatlaðra um allan heim hefur verið mjög virk frá upphafi starfsins.
Íslensk sendinefnd tók þátt í ráðstefnu þessari og voru þar fulltrúar á vegum félagsmálaráðuneytisins og fastanefndar utanríkisráðuneytisins. Samkomulag náðist á síðustu stundu ráðstefnunnar þar sem fjölmörg ríki virtust veita nauðsynlegan sveigjanleika og samningsvilja til að samkomulag gæti náðst.
Þessi alþjóðlegi samningur mun auka rétt og frelsi einstaklinga með fötlun allt kringum jörðina á sambærilegan hátt og mannréttindasáttmáli og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Það er von þátttökuríkjanna að samningurinn muni þýða verulega jákvæða breytingu á meðferð og aðbúnaði fatlaðra einstaklinga í heiminum en fjöldi fatlaðra hefur verið áætlaður um 650 milljónir manna. En reynt er að gæta þess að skilgreina orðið fatlaður rúmt til að tryggja það að verndin taki til allra þeirra sem þarfnast hennar. Í meirihluta ríkjanna er ekki sérstök löggjöf um málefni fatlaðra. Hugmyndin er að ný réttindi og frelsi einstaklinga með fötlun komi í stað líknaraðstoðar. Ljóst er að sáttmálinn mun stuðla að breyttum hugsanagangi varðandi málefni fatlaðra.
Samningurinn samanstendur af formála og 33 efnisgreinum.
Meginatriði samningsins eru:
- Tryggja skal jafnrétti fatlaðra gagnvart öðrum þjóðfélagshópum.
- Skylda ríkja til að breyta lögum og koma í veg fyrir hvers kyns venju eða framkvæmd er orsaka mismunun fatlaðra gagnvart öðrum hópum.
- Skylda ríkja til að skapa það umhverfi sem þörf er á til að tryggja og efla réttindi fatlaðra.
- Ríki skulu fjarlægja hindranir að aðgengi að umhverfi og samgöngutækjum.
- Fatlað fólk hefur jafnan rétt til að lifa.
- Ítrekuð er réttur og vernd gagnvart fötluðum konum og stúlkum.
- Sérstök vernd er fyrir fötluð börn.
- Fatlaðir skulu hafa aðgengi að opinberum þjónustustofnunum, upplýsingum og netinu.
- Fatlað fólk á ekki að þola neins konar ólögmæta frelsissviptingu.
- Læknisfræðilegar eða vísindalegar tilraunir án samþykkis einstaklingsins eru bannaðar.
- Vernd gegn hvers konar misnotkun, ofbeldi og vanrækslu.
- Lögð er áhersla á rétt til sjálfstæðrar búsetu.
- Réttur til persónuverndar.
- Jafn réttur til fræðslu og menntunar.
- Réttur til vinnu og atvinnu. Fjarlægja skal hindranir á vinnumarkaði og stöðva mismun á vinnumarkaði.
- Réttur til heilbrigðisþjónustu og að nauðsynleg aðstoð sé fáanleg.
- Réttur til fullnægjandi lífsgæða og félagslegrar verndar.
- Koma í veg fyrir hvers konar mismunun vegna fjölskyldu eða persónulegra tengsla.
- Tryggja skal fötluðum borgarleg réttindi og aðgang að dómskerfi.
- Réttur til jafnrar þátttöku í samfélaginu, svo sem skoðanaskipta og stjórnmála.
- Réttur til þátttöku í tómstundum, íþróttum og menningarlífi.
Til að tryggja að ríkin fari eftir ákvæðum sáttmálans er í 34.–40. gr. kveðið á um eftirlitskerfi. Skipuð verður sérstök eftirlitsnefnd og er ríkjum sett sú skylda að rita nefndinni skýrslu viðkomandi lands um stöðu fatlaðra. Viðræður nefndar og ríkisins eiga sér stað. Nefndin getur í samráði við heimaríki farið í vettvangsheimsóknir ef þurfa þykir. Nefndinni er ætlað að rita úttekt á ástandi mála í ríkjunum. Auk þess skal halda ráðstefnur þeirra ríkja er hafa tekið á sig þessar skyldur. Enn fremur er lögð áhersla á að einstök ríki geti fengið aðstoð við að framkvæma sáttmálann og veita fötluðum þau réttindi sem tryggð eru með samningnum.
Mikil vinna felst í því að sjá til þess að sáttmálinn sé eins á öllum opinberum tungumálum Sameinuðu þjóðanna, sem er arabíska, kínverska, enska, franska, rússneska og spænska. Tryggja verður að samræmi sé á milli texta og skilgreininga á öllum þessum tungumálum.
Næsta skref er að samningurinn verður lagður nú í vetur fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til samþykktar. Í kjölfarið geta ríkin staðfest sáttmálann með undirritun sinni.
Endanleg útgáfa sáttmálans liggur ekki enn fyrir.
Sjá drög að endanlegum sáttmála um réttindi einstaklinga með fötlun:
http://www.un.org/esa/socdev/enable/rights/ahc8adart.htm