Hoppa yfir valmynd
3. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 32/2012 - Úrskurður

Miðvikudaginn 3. október 2012

 

 

32/2012

 

 

 

 

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

Mál þetta úrskurða Guðmundur Sigurðsson læknir, Þuríður Árnadóttir lögfræðingur og Kristín Benediktsdóttir hdl.

 

Með kæru, dags. xx  2012, kærir A,  til úrskurðarnefndar almannatrygginga fjárhæð örorkulífeyrisgreiðslna.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur notið örorkulífeyrisgreiðslna frá xx 2003. Þann 7. janúar 2012 sendi Tryggingastofnun ríkisins kæranda greiðsluáætlun fyrir árið 2012. Kærandi er ósátt við fjárhæð bótagreiðslnanna og telur sig eiga rétt á hærri greiðslum.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 

„Ég hef upplifað það núna ár eftir ár að bæturnar mínar lækka í krónum. Það er ekki nóg með þá rýrnun sem verður út af gengi krónunnar. Ég er þess vegna orðin fullkomlega örvænmtingarfull og bið ykkur um að far inn í þetta mál og skoða það nánar.

 

Ég sendi hérna með þá greiðslu áætlun sem ég fékk sent frá Tryggingastofnun fyrir árið 2012. Og það sem ég skrifaði út frá síðum tryggingarstofnunar, en þar gat ég reiknað út lífeyririnn minn út frá hvenær ég varð öryrki. Þar sést mikill munur á þeim tölum sem þar koma fram og því sem ég fæ greitt.

 

Ég sé þar að ég fæ ekki heimilisuppbót eða framfærslu uppbót, svona fyrir utan að allar aðrar tölur eru mun lægri en þær eiga að vera.

 

Ég vil annars mótmæla því að ég eigi ekki að fá heimilisuppbót eða framfærsluuppbót vegna búsetu erlendis. Þessar bætur eiga ekki að vera undir félagslega aðstoð sveitafélaganna þar sem örorkubætur eru réttindi sem maður hefur – ef illa fer, (Trygging) Þar af Tryggingarbætur.

 

Ég er alvarlega veik og á mikið meira en nóg með það helvíti þó svo ekki bætist eilíf slagsmål við Tryggingarstofnun ofan á það.

 

Ég bið ykkur þess vegna að fara inn í þetta mál, og rétta þær vitleysur sem hafa verið gerðar. Ég óska eining eftir endurgreyðslum afturábak í tímann.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. xx 2012. Greinargerð, dags. xx 2012, barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 

„Kærð er fjárhæð örorkulífeyrisgreiðslna.

 

Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá xx 2003 hafði búið á Íslandi frá xx  (reiknað er frá 16 ára aldri, þ.e. xx 19xx) og frá xx til xx.  Eftir það hafði hún verið búsett í B og er nú búsett í D. 

 

Skv. 2. ml. 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr 100/2007, 1. mgr. 17. gr. sömu laga og 46. gr. reglugerðar 1408/71/EB skerðast örorkulífeyrisgreiðslur hennar vegna hlutfallslega búsetu erlendis og

 

Hún hafði verið búsett á Íslandi í 18 ár og 5 mánuði af 31 ári og 9. mánuðum sem liðin voru frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkulífeyrisgreiðslna eða 58,01%.  Af þeim 19 árum og 3 mánuðum sem eftir voru þá til 67 ára aldurs kæranda gera 58,01% 11 ár og 2 mánuði.  Búsetu hér á landi fyrir upphaf örorkulífeyrisgreiðslna og fram að 67 ára aldri telst því vera samtals 29 ár og 7 mánuðir eða 29,58 ár. 

 

Útreikningur á örorkulífeyri hennar miðast því við að hún hafi verið búsett hér á landi í 29.58 ár af 40 árum sem þarf til að fá fá fullar greiðslur og því er um að ræða rétt á 74% greiðslum.

 

Kærandi fær örorkugreiðslur í B sem skiptast í grunnpensjon og tilleggspensjon.  Samkvæmt upplýsingum á skatttframtali vegna ársins 2010 voru örorkugreiðslur í B samtals xx.  Samkvæmt útborgunarseðli fyrir xx 2011 skiptust greiðslur að fjárhæð xx í grunnpensjon xx (22,93%) og tilleggspensjon xx (77,07%). 

 

Til þess að fá greitt tilleggspensjon í B þarf lífeyrisþegi að hafa verið á vinnumarkaði og greiðslurnar reiknast út frá áunnum lífeyrisstigum sem reiknast út frá launatekjum.  Þessar greiðslur eru sambærilegar við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi og örorkulífeyrisgreiðslur skerðast því vegna þeirra á sama hátt.

 

Kærandi var á árinu 2010 (þ.e. síðast þegar endurreikningur og uppgjör fór fram og tekjur annarrra ára hafa verið í samræmi við það) með örorkugreiðslur í B að fjárhæð xx og 77,07% af þeirri fjárhæð reiknast sem lífeyrisgreiðslur við útreikning örorkulífeyrisgreiðslna hennar eða xx.  Við endurreikning og uppgjör greiðslna reiknaðist xx sem xx íslenskar krónur.  Kærandi er því örorkugreiðslur í B sem á árinu 2010 námu xx ÍSK eða eða ca. xx ÍSK á mánuði.  Hluti af þeim tekjum eru lífeyrissjóðsgreiðslur sem hafa áhrif á og skerða örorkulífeyrisgreiðslur hennar hér á landi.

 

Varðandi það að kærandi fái ekki heimilisuppbót og framfærsluuppbót þá er þar um að ræða greiðslur sem greiðst á grundvelli laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007.  Í 2 mgr. 1. gr. þeirra laga er skýrt kveðið á um það að bætur félagslegrar aðstoðar greiðist eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim.

 

Kærandi býr í D og á því ekki rétt á að fá heimilisuppbót og framfærsluuppbót (þ.e. sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu).

 

Varðandi þær fjárhæðir sem kærandi reiknar sér á reiknisforriti sem er á heimasíðu Tryggingastofnunar þá skal á það bent að í sá útreikningur er eins og kemur skýrt fram þar ekki bindandi.  Þá er þar ekki heldur reiknað með því að greiðsluþegi sé búsettur erlendis, fái búsetuskertar greiðslur eða hafa aðrar tekjur.  Sá útreikningur er því ekki í neinu samræmi við aðstæður kæranda.

 

Samanlagðar örorkulífeyrisgreiðslur kæranda hér á landi og í B á árinu 2010 voru ca. xx ÍSK (þ.e. xx í B og xx hér á land) sem er aðeins hærra en þær xx kr. sem hún hefði átt rétt á miðað við fullar greiðslur hér á landi. 

 

Lífeyrisgreiðslur kæranda eru í fullu samræmi við þær reglur sem gilda um útreikning örorkulífeyrisþega hjá þeim sem búsettir eru í öðru EES-ríki og fá greiðslur hér á landi á grundvelli EES-samningsins.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda með bréfi, dags. xx 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Kærandi sendi úrskurðarnefnd svofelldar athugasemdir með bréfi, dags. xx 2012:

 

„Þá vil ég benda á í þessu máli að örorkubætur er ekki félagsleg aðstoð, hvori á það á vera túlkað þannig af Íslenskum yfirvöldum né öðrum yfirvöldum annarra Norður landa ef maður les í hinum sam Norrænu reglum fyrir Norðurlöndin. Þetta er gert til að íbúar Norðurlandanna geti valið fritt hvar þeir búi.

 

Að Íslensk stjórnvöld /Tryggingarstofnun Íslands velji að túlka sínar reglur þannig er því greinilega brot á alþjóðar samningi Norðurlandanna.

 

Ég á að fá 75% Öryrkjagreiðslur frá íslandi að fullu greiddar. Það er í lögum.

 

Ísland hefur engang rétt til að draga af þeirri greiðslu sem mér á að berast frá Íslandi, hvori með að „túlka“ reglur eða að búa til reglur sem ekki eru til. Lögin eru sett til að vernda borgarana á móti hinum fjárgráðugu og spilltu aðilum sem geta fundist í stjórngeiranum og sem vilja hafa allt fyrir bara sig. Þessi lög ber að virða.

 

Einnig hefur Tryggingarstofnun Íslands engann rétt til að skerða þær greiðslur sem ég fæ frá Ísandi upp á móti þeim grunn sem ég fæ frá B. Ég vil upplýsa ykkur um að venjulegir öryrkjar frá bæði B og D er ekki ætlað að lifa af kr xx á mánuði, þar er lágmarkið xx. Flestir fá yfi xx á mánuði. Það sem ég fæ frá Íslandi í dag samsvarar kr xx. Og hver maður sem hefur lifað í samférlaginu og borgað rafmagn, hita og húsaleigu + mat veit að það dæmi sem þið ætlið mér að lifa af – getur ekki gengið upp.

 

Ég fer því fram á að þið virðið þaug lög sem eru í gyldi og hættið að lita á öryrkjabætur sem félagslega aðstoð.

 

Svokölluð heimilisuppbót á að vera inni í greiðslunum til allra öryrkja ekki bara sumra. Greiðið mér það út sem ég á að fá samkvæmt aðþjóðlegum lögum. Ég er ekki að biðja um miljónir, einungis réttlæti.“

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Sjúkratryggingum Íslands með bréfi, dags. xx 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar fjárhæð örorkulífeyrisgreiðslna til kæranda.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru greinir kærandi frá því að bætur hennar hafi lækkað undanfarin ár en kærandi er búsett í D. Hún hafi reiknað lífeyri sinn á síðu Tryggingastofnunar og mikill munur sé á þeim tölum og því sem hún fái greitt. Hún fái ekki heimilisuppbót eða framfærsluuppbót og allar aðrar tölur séu mun lægri en þær eigi að vera. Þá mótmælir kærandi því að hún fái ekki heimilisuppbót eða framfærsluuppbót vegna búsetu erlendis.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því að kærandi hafi fengið greiddan örorkulífeyri frá xx 2003. Hún hafi búið á Íslandi í 18 ár og 5 mánuði en eftir það verið búsett í B og sé nú búsett í D. Kærandi eigi því rétt á 74% greiðslum örorkulífeyris. Fram kemur að kærandi fái örorkugreiðslur í B sem skiptist í grunnpensjon og tilleggspensjon. Tilleggspensjon séu sambærilegar við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi og skerðist því örorkulífeyrisgreiðslur vegna þeirra á sama hátt. Örorkugreiðslur kæranda í B á árinu 2010 hafi numið xx ÍSK og sé hluti þeirra lífeyrissjóðsgreiðslur sem hafi áhrif á og skerði örorkulífeyrisgreiðslur kæranda hér á landi. Þá er tekið fram að heimilisuppbót og framfærsluuppbót séu greiðslur sem greiðist á grundvelli laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Þær greiðist eingöngu þeim sem lögheimili eigi hér á landi og þar sem kærandi búi í D eigi hún ekki rétt á því. Bent er á að útreikningur á heimasíðu Tryggingastofnunar sé ekki bindandi og ekki reiknað með að greiðsluþegi sé búsettur erlendis, fái búsetuskertar greiðslur eða hafi aðrar tekjur.

 

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í 1. mgr. 18. gr. segir að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi og eru á aldrinum 18-67 ára og hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu. Í 4. mgr. nefndrar 18. gr. segir að örorkulífeyrir skuli greiðast eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Við ákvörðun á búsetutíma skuli reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

 

Um greiðslu ellilífeyris er fjallað í 17. gr. laga um almannatryggingar. Í 1. mgr. 17. gr. segir m.a. svo:

 

„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera [... ] kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann.“

 

Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar því aðeins til álita hafi verið um búsetu í a.m.k. 40 almanaksár að ræða frá 16 til 67 ára aldurs framreiknað í samræmi við 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu uppfyllir kærandi búsetuskilyrðin ekki að fullu vegna búsetu erlendis á þessu tímabili. Nýtur kærandi því skertra lífeyrisréttinda. Kærandi hóf töku lífeyris xx 2003. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi búsett erlendis frá xx til xx. Þá hefur hún búið erlendis frá xx. Samanlagður búsetutími kæranda hér á landi frá 16 ára aldri til xx 2003 þegar hún hóf töku örorkulífeyris eru 18 ár og 5 mánuðir. Samanlagður búsetutími kæranda erlendis eftir 16 ára aldur fram að töku lífeyris eru 13 ár, 3 mánuðir og 23 dagar. Framreiknaður búsetutími kæranda hérlendis frá 16 ára aldri til 67 ára aldurs eru 29,58 ár. Samkvæmt framangreindu ákvæði 4. mgr. 18. gr. laga um almannatrygginga vinnur kærandi sér inn full réttindi á 40 árum og á hún því rétt á 74% greiðsluhlutfalli örorkulífeyris.

 

Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins nýtur kærandi örorkugreiðslna frá B, annars vegar grunnpensjon og hins vegar tilleggspensjon. Kærandi er ósátt við að greiðslur sem hún þiggur frá B hafi áhrif á bótaútreikning Tryggingastofnunar.

 

Norðurlandasamningur um almannatryggingar var samþykktur þann 18. ágúst 2003 og lögfestur hér á landi með lögum nr. 66/2004. Í honum er að finna skilgreiningar á annars vegar grunnlífeyri og hins vegar starfstengdum lífeyri, sbr. eftirfarandi sem kemur fram í 4. og 5. tl. 1. mgr. 1. gr. samningsins:  

 

  „“grunnlífeyrir merkir”

almennan lífeyri sem ekki miðast við starfstíma sem lokið er, fyrri atvinnutekjur eða iðgjaldagreiðslur, þar á meðal þann almenna lífeyri eða viðbótarlífeyri sem greiddur er þeim sem fær lítinn eða engan starfstengdan lífeyri,

 

“starfstengdur lífeyrir merkir”

almennan lífeyri sem fer einungis til þeirra sem hafa verið á vinnumarkaði samkvæmt innlendri löggjöf.“

 

Reglugerð nr. 96/2006 varðar framkvæmdasamning við Norðurlandasamning um almannatryggingar frá 18. ágúst 2003. Í viðauka I við framkvæmdasamninginn er að finna skrá yfir grunnlífeyri og starfstengdan lífeyri ásamt ýmsum tengdum bótum þar að lútandi sem falla undir samninginn. Þar kemur fram að örorkulífeyrir í B samanstandi af grunnlífeyri og viðbótarlífeyri (starfstengdum lífeyri) eða sérstakri uppbót og sé háður því hversu lengi viðkomandi hefur áunnið sér réttindi. Greiðslur tilleggspensjon eru því sambærilegar við lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi.

 

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja lífeyri, sbr. A-lið 7. gr. laganna.

 

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að sá hluti örorkugreiðslna frá B sem kærandi nýtur á grundvelli atvinnutengdra iðgjalda, þ.e. tilleggspensjon, skerði bótarétt hennar hér á landi lögum samkvæmt.

 

Þá gerir kærandi athugasemd við að fá ekki greidda heimilisuppbót eða framfærsluuppbót. Kveðið er á um heimilisuppbót og uppbót á lífeyri vegna framfærslu í lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, sbr. 8. og 9. gr. laganna. Til þess að öðlast rétt samkvæmt framangreindum ákvæðum er gerð krafa um að öll tilgreind skilyrði séu uppfyllt, m.a. skilyrði um búsetu hér á landi, sbr. 2. mgr. 1. gr., sem er svohljóðandi:

 

„Bætur félagslegrar aðstoðar greiðast eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim. Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur aðrar en húsaleigubætur, eftir því sem við á.“

 

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi búsett í D. Skilyrði 2. mgr. 1. gr. laganna um að bótaþegi eigi lögheimili hér á landi er því ekki uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu getur kærandi ekki öðlast rétt til greiðslu heimilisuppbótar eða framfærsluuppbótar samkvæmt lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

 

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að örorkulífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda séu í samræmi við gildandi lög og reglur.

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Fjárhæð örorkulífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins til A, er staðfest.

 

 

 

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Þuríður Árnadóttir lögfræðingur

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta