Hoppa yfir valmynd
27. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2007

Þriðjudaginn, 27. mars 2007

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. janúar 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 22. janúar 2007.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. október 2006 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Umsókn undirritaðs um fæðingarstyrk, dagsett 17. ágúst 2006, var synjað af B f.h. lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnun ríkisins þann 9. september 2006. Til stuðnings synjunar vísar B í 1. mgr. 19. gr. laga nr. (l.) 95/2000 og 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. (rgl.) 1056 /2004.

Undirritaður sendi bréf 3. október 2006 til lífeyristryggingasviðs Tryggingarstofnun ríkisins. í bréfinu var vísað til síðari málsliðar 2. mgr. 18. gr. rgl 1056/2004 þar sem segir að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist. Til sönnunar ástundar náms fylgdi með vottorð frá D-háskóla, dagsett 3. október 2006, um að undirritaður sé skráður stúdent við D-háskóla háskólaárið 2006-2007.

Í bréfi dagsett þann 6. október 2006 taldi B f.h. lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins ekki ástæðu til að breyta fyrri afgreiðslu lífeyristryggingasviðs á grundvelli ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Tilefni þykir að gera nokkrar athugasemdir við röksemdarfærslur B fyrir synjunum í bréfum sem hún undirritaði f.h. lífeyristryggingasviðs þann 9. september og 6. október 2006.

Í bréfi dagsett 9. september 2006 segir orðrétt: „Samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllir þú ekki skilyrðið um fullt nám og er umsókn þinni um fæðingarstyrk námsmanna því hér með synjað.“ Undirritaður telur að ekki hafi verið nægjanlega rökstutt hvers vegna skilyrðið um fullt nám er ekki uppfyllt. Fyrr í bréfinu er aðeins vísað í 1. mgr. 19. gr. l. 95/2000 og 1. mgr. 18. gr. rgl. 1056/2004. Undirritaður er ósammála synjuninni og telur sig hafa stundað fullt nám við lagadeild D-háskóla a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Ekki er að sjá að í 1. mgr. 19. gr. l. 95/2000 og 1. mgr. 18. gr. rgl. 1056/2004 komi fram skilyrði sem standi því í vegi að undirrituðum sé greiddur fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi.

 

Í bréfi dagsettu 6. október 2006 er hafnað ábendingu undirritaðs, frá 3. október 2006, að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist sbr. síðari málslið. 2. mgr. 18. gr. rgl.. 1056/2004. Í bréfinu, 6. október 2006, segir orðrétt: „Framlögð viðbótargögn breyta því ekki fyrri afgreiðslu lífeyristryggingasviðs.“ Vísað er í til þess að gögnin bera ekki með sér staðfestingu á að undirritaður uppfylli skilyrði sem tiltekin eru í bréfi 9. september 2006. Ekki er rökstutt hvers vegna ekki skuli tekið tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist þó svo að samkvæmt reglugerðarákvæðinu sé það heimilt.

Ekkert er getið um kærufrest í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. október 2006. Kærufrests var þó getið í bréfið hennar þann 9. september 2006 og hann sagður 3 mánuðir.

Undirritaður telur sig með fullnægjandi hætti hafa sýnt fram á að hann eigi rétt á fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi sbr. 19. gr. l. 95/2000 og væntir þess að umsókn hans um fæðingarstyrk frá 17. ágúst 2006 verði afgreidd jákvætt eins fljótt og mögulegt er.

Undirritaður sendi kæru til úrskurðarnefndar í fæðingar- og foreldraorlofsmálum 5. janúar 2007. Kæra þessi er send í tilefni af svarbréfi úrskurðarnefndar í fæðingar- og foreldraorlofsmálum, dagsett 15. janúar 2007. tilv.Úffo07010001.

 

Með bréfi, dagsettu 25. janúar 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 7. febrúar 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 17. ágúst 2006, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 3 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 29. september 2006.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 8. ágúst 2006, námsferilsyfirlit kæranda frá D-háskóla, dags. 23. ágúst 2006 og vottorð um skólavist háskólaárið 2006 – 2007, dags. 3. október 2006. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Tryggingastofnunar/lífeyristryggingasviðs, dags. 9. september 2006, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins. Var kæranda í bréfinu bent á að hann gæti átt rétt á fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar en til þess að unnt væri að afgreiða þann styrk þyrfti að berast staðfestur samningur foreldra um sameiginlega forsjá sem staðfestur væri af sýslumanni, sbr. 5. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Bréf barst frá kæranda, dags. 3. október 2006, þar sem kærandi taldi sig hafa stundað fullt nám við D-háskóla námstímabilið 2005 – 2006 með einni undantekningu og að auki benti hann á síðari málslið 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að heimilt væri að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist. Fór hann fram á Tryggingastofnun staðfesti umsókn hans og greiddi honum fæðingarstyrk námsmanna.

Með bréfi Tryggingastofnunar/lífeyristryggingasviðs, dags. 6. október 2006, var kæranda tilkynnt að framlögð gögn breyttu ekki fyrri afgreiðslu lífeyristryggingasviðs.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 10. október 2006 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 10. október 2005 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferlisyfirliti frá D-háskóla stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2005 og vorönn 2006. Var kærandi skráður í 12 einingar á haustönn 2005, lauk 9 þeirra en sagði sig úr 3 einingum. Á vorönn 2006 var kærandi skráður í 15 einingar, lauk 7,5 þeirra, féll í 5 þeirra en sagði sig úr 2,5 einingum. Á haustönn 2006 var kærandi skráður í 15 einingar en ekki lá fyrir námsframvinda úr þeim einingum þegar barnið fæddist 10. október 2006.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Undanþága 2. málsliðar 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, á að auki ekki við í tilviki kæranda þar sem barn hans er fætt áður en próf eru þreytt og námsframvinda haustannar liggur fyrir, en skv. 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 1. mgr. 18. gr. rgl. nr. 1056/2004 skal miða við fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 9. september 2006. Kærandi hefur ekki lagt fram fullnægjandi gögn til að eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 13. mars 2007, þar segir meðal annars: „Árið 2005, er undirritaður skráði sig í námskeið í almennri lögfræði, hafði hann þá þegar lokið námskeiðinu inngangi að E-fræði. Í ljósi reglna um BA-nám í E-fræði við E-deild D-háskóla var undirrituðum ómögulegt að uppfylla kröfuna um 15 eininga fullt nám á haust önn 2005. Augljóst er því að reglan um að 75-100% fullt nám sé 11-15 einingar á önn, á við ekki undirritaðan.

Lög nr. 95/2000 innihalda ekki berum orðum 15 eininga viðmið sem Fæðingarorlofssjóður vinnur eftir. Viðmið er auk þess ekki að finna í reglugerð, þar sem ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðis 19. gr. laga 95/2000. Athugasemdir við frumvarp það sem varð að lögum nr. 95/2000 varpa engu frekara ljósi á 15 eininga viðmið Fæðingarorlofssjóðs.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 10. október 2006. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá 10. október 2005 fram að fæðingu barns.

Hjá D-háskóla er almennt miðað við að 100% nám sé 15 eininga nám á misseri. Samkvæmt yfirliti um námsferil kæranda við D-háskóla dagsettu 23. ágúst 2006 var hann skráður í 12 einingar á haustmisseri 2005 og lauk 9 einingum og sagði sig úr þremur. Á vormisseri 2006 var hann skráður í 15 einingar, en lauk 7,5 einingum, féll í 5 einingum og sagði sig úr 2,5 einingum. Er þessum námseiningum enn ólokið. Á haustmisseri 2006 var kærandi skráður í 15 einingar.

Við mat á því hvort kærandi hafði stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms hans á haustmisseri 2005 og vor- og haustmisseri 2006. Með hliðsjón af því sem að framan segir um námsferil kæranda verður hvorki talið að kærandi hafi verið í fullu námi á haustmisseri 2005 né á vormisseri 2006.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta