Hoppa yfir valmynd
14. september 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2007

Þriðjudaginn, 17. apríl 2007

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. janúar 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 9. janúar 2007.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 19. desember 2006 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég sótti um fæðingarorlof og fékk úthlutað orlofsupphæð í samræmi við tekjur sem ég hafði tekjuárin 2004 og 2005. (sjá meðf. fylgiskjöl). Meginhluti tekna minna er á þessu tímabili þénaði ég í B-landi, þar sem ég bjó þar til í október 2005.

Í útreikningunum fyrir greiðslu í fæðingarorlofi er ekki tekið tillit til tekna minna í B-landi og því fæ ég aðeins lágmarksupphæð.

Aftur á móti voru þessar tekjur að fullu innreiknaðar í heildartekjur mínar fyrir árið 2005, þegar ég sótti um barnabætur í byrjun árs 2006, (sjá meðf. fylgiskjöl) og því tel ég að einnig ætti að taka tillit til þeirra við útreikninga á fæðingarorlofinu.

Ég læt hér fylgja með öll gögn um tekjur mínar árin 2004 og 2005, og bið um endurútreikning á fæðingaorlofinu.“

 

Með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 25. febrúar 2007. Í greinargerðinni segir:

„Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr.

Í 4. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir að þegar starfsmaður uppfylli skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt lögunum er því engin heimild til að taka til greina laun á viðmiðunartímabilinu sem ekki koma fram í skattframtölum, staðgreiðslu- eða tryggingagjaldaskrá skattyfirvalda og á það einnig við um tekjur sem umsækjendur kunna að hafa aflað erlendis og ekki eru gefnar upp til skatts hjá íslenskum skattyfirvöldum.

Barn kæranda er fætt þann 17. desember 2006 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar árin 2004 og 2005.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2004 og 2005 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi hafi verið launalaus á innlendum vinnumarkaði allt árið 2004 og fram til desember 2005. Kærandi var því einungis með laun á innlendum vinnumarkaði í desember 2005. Í samræmi við 4. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof skulu greiðslur til kæranda í fæðingarorlofi vera í samræmi við starfshlutfall hennar á árinu 2006. Kærandi var í 50 – 100% starfshlutfalli á árinu 2006 og voru mánaðarlegar greiðslur þá X krónur.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnt bréf Tryggingastofnunar ríkisins/lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 19. desember 2006, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 16. mars 2007 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Jafnframt segir í 2. mgr. 13. gr. að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna, sbr. og 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með 4. gr. laga nr. 90/2004 varð breyting gerð á 13. gr. ffl. hvað varðar viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna. Hins vegar var óbreytt áfram kveðið á um að miðað skuli að lágmarki við fjóra almanaksmánuði. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2004 segir um það atriði: „Enn fremur er lagt til að áfram verði miðað við að lágmarki fjóra almanaksmánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris. Þá er ætíð gert að skilyrði að foreldri uppfylli skilyrði 1. mgr. um sex mánaða samfellt tímabil á innlendum vinnumarkaði við upphafsdag fæðingarorlofs til að öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum. Hafi foreldri hins vegar ekki starfað á viðmiðunartímabilinu en uppfyllir skilyrði 1. mgr. er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi eigi rétt á lágmarksgreiðslum samkvæmt ákvæðinu í samræmi við starfshlutfall sitt. Sama gildir hafi foreldri haft lægri tekjur á viðmiðunartímabilinu en því nemur.“

Ágreiningslaust er að kærandi átti rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi ól barn 17. desember 2006. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er því samkvæmt framangreindu árin 2004 og 2005. Á því tímabili var kærandi einungis á innlendum vinnumarkaði í desember 2005. Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 13. gr. ffl. að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning meðaltals heildarlauna. Engar undantekningar er að finna í lögunum eða reglugerð nr. 1056/2004 frá þeirri reglu. Þá er óheimilt að líta til annarra tekna á viðmiðunartímabilinu en þeirra sem aflað er á innlendum vinnumarkaði og tryggingagjald hefur verið greitt af. Það er því mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að rétt hafi verið hjá Tryggingastofnun ríkisins að miða greiðslur til kæranda við lágmarksgreiðslur, sbr. 2. og 4. mgr. 13. gr. ffl. Kröfu kæranda um breytingu á útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins er því hafnað.

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um breytingu á útreikningi á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta