Hoppa yfir valmynd
19. september 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2007: Dómur frá 19. september 2007

Ár 2007, miðvikudaginn 19. september, var í Félagsdómi í málinu nr. 5/2007:

                                                           

Alþýðusamband Íslands f.h.

Starfsgreinasambands Íslands vegna

Bárunnar stéttarfélags   

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

Sláturfélags Suðurlands svf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 27. ágúst sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Starfsgreinasambands Íslands, kt. 601000-3340, Sætúni 1, Reykjavík vegna Bárunnar stéttarfélags, kt. 460172-2259, Austurvegi 56, Selfossi.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, vegna Sláturfélags Suðurlands svf., kt. 600269-2089, Fosshálsi 1, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir þær dómkröfur að dæmt verði að stefndi hafi brotið grein 24.5 í kjarasamningi málsaðila, frá 1. mars 2004 með því að greiða ekki starfsmönnum stefnda, Sláturfélags Suðurlands á Selfossi, sem búa lengra en 12 km frá vinnustaðnum fyrir akstur alla vegalengdina milli heimilis og vinnustaðar.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefnda 

  1. Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
  2. Að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Málavextir

Málsatvik eru þau að stefndi, Samtök atvinnulífsins (SA) og Starfsgreina­samband Íslands (SGS) undirrituðu nýjan aðalkjarasamning þann 7. mars 2004. Hluti þess samnings, það er 24. kafli, varðar sérstaklega kjör starfsfólks í sauðfjárslátrun en samningar um kjör þessa starfsfólks hafa verið hluti heildarkjarasamninga aðila frá því árið 1995. Áður hafði verið samið um sérkjör þessa starfsfólks með sérsamningum milli vinnslustöðva og stéttarfélaga víða um land.

Árið 1976 gerðu Vinnuveitendasamband Íslands, forveri stefnda og Verkalýðsfélagið Þór, forveri stefnanda Bárunnar stéttarfélags, með sér kjarasamning er varðaði kaup og kjör starfsmanna í sauðfjárslátrun. Var sá samningur framlenging og breyting eldri samninga sama efnis.  Í ákvæði III þess samnings var samið um flutning á fólki til og frá vinnu.  Ákvæðið er svohljóðandi:

 

“Fólk, sem býr nær vinnustað en 5 km (miðað við skemmstu akstursleið), kemur sér sjálft að og frá vinnustað í eigin tíma.

Sama regla gildir um þá, sem fjær búa, en þó skal greiða þeim 1/5 af ríkisbifreiðartaxta á mann fyrir hvern km. miðað við daglegar milliferðir.”

 

Við gerð nýrra heildarkjarasamninga árið 1995 var gerð sú breyting á ákvæði þessu að viðmiðunarfjárhæð greiðslunnar fór úr 1/5 í 1/4 af akstursgjaldinu.  Árið 2000 stóðu stefndu, Samtök atvinnulífsins, að gerð samningsins við stefnanda um kjör í sauðfjárslátrun.  Í 7. gr. þess samnings var samið um að greiðslur fyrir akstur til og frá vinnu skyldu vera með sama hætti og gilt hefðu á hverjum stað.  Í samræmi við þau eldri ákvæði var að finna taxta yfir greiðslur til þeirra sem áttu lengra að sækja vinnu sína en 5 km í þessum samningi.

Samningar um sauðfjárslátrun voru endurnýjaðir við gerð aðalkjarasamninga árið 2004 en þá var sú eina breyting gerð á því ákvæði sem um er þrætt að viðmið vegalengdar til greiðslu aksturspeninga var hækkað úr 5 km í 12 km.

Umþrætt ákvæði, 24.5, er nú með eftirfarandi hætti:

 

“Starfsfólk Sláturfélags Suðurlands sem býr nær vinnustað en 12 km (miðað við skemmstu akstursleið) kemur sér sjálft að og frá vinnustað í eigin tíma.  Sama regla gildir um þá sem fjær búa en þó skal greiða þeim 1/4 af kílómetragjaldi, sem ákveðið er í skattmati ríkisskattstjóra á hverjum tíma, á mann fyrir hvern km. miðað við daglegar milliferðir.”

 

Haustið 2005 fékk stefnandi fyrirspurn frá starfsmönnum Sláturfélags Suðurlands um það hvernig bæri að skilja þetta ákvæði og var því svarað til af hálfu stefnanda að greiða bæri fyrir akstur miðað við heildarfjarlægð frá heimili starfsmanns ef skilyrði væru til greiðslu á annað borð.  Engar frekari spurnir hafði stefnandi þá af greiðslum samkvæmt þessu ákvæði og taldi því engar breytingar hafa orðið á.

Stefnandi segir að í sláturtíðinni 2006 hafi nokkrir starfsmenn Sláturfélags Suðurlands haft samband við starfsmenn stefnanda og óskað upplýsinga um það með hvaða hætti ætti að greiða fyrir akstur til og frá vinnustað og hvort framkvæmd ákvæðisins hefði verið breytt.  Af þessu tilefni var haft samband við starfsmannastjóra Sláturfélagsins, Bjarna Stefánsson.  Kom þá á daginn að stefndi hafði tekið upp nýja túlkun ákvæðisins þannig að nú var aðeins greitt fyrir akstur til og frá vinnu að frádregnum fyrstu 12 km hverrar ferðar.  Þessu var stefnandi ósammála og taldi ekki tilefni eða forsendur til slíkrar breytingar. Var sá skilningur stefnanda áréttaður með tölvupósti til stefnda, þann 22. september 2006. Eftir að stefnandi hafði fengið staðfestingu þess frá starfsmönnum að stefndi drægi ævinlega fyrstu 12 km frá umsaminni akstursgreiðslu, var skorað á stefnda að leiðrétta greiðslur til starfsmanna hvað þetta varðaði, með bréfi dags. 12. október 2006.

Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 30. nóvember 2006, var því hafnað að stefnda bæri að greiða í samræmi við skilning stefnanda á ákvæðinu.  Hefur stefnandi því lagt mál þetta fyrir Félagsdóm til úrlausnar.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök 

Stefnandi kveður mál þetta lúta að ágreiningi um túlkun og eða efndir kjarasamnings og eigi því undir dómsvald Félagsdóms, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á reglum samningaréttar og vinnuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndaskyldu stefnda. Fyrir liggi samningsákvæði um akstur til vinnu í sláturtíð sem standi á gömlum merg og það ákvæði beri stefnda að virða og efna réttilega. Ákvæðið hafi strax verið skilið og því beitt þannig að starfsmenn ættu sjálfir að koma sér til og frá vinnu, þ.e. þeim var ekki séð fyrir akstri.  Hins vegar var þeim, sem lengra áttu að sækja vinnu en tilgreint var í ákvæðinu, greitt fyrir akstur miðað við heildarvegalengd frá heimili viðkomandi starfsmanns að vinnustað og til baka. Samkomulagið frá 1976 og framkvæmd þess var  óbreytt árum saman.

Inntaki þessa samningsákvæðis, túlkun þess og beitingu verði ekki breytt einhliða og fyrirvaralaust.  Um kjarasamningsbundið ákvæði sé að ræða sem haldi fullu gildi sínu meðan kjarasamningurinn sé í gildi og stefnda sé ekki tækt að brjóta gegn því eða framkvæmd þess á tímabili friðarskyldu.  Vilji stefndi gera breytingar á ákvæðinu beri honum að taka slíkt upp í kjarasamningsviðræðum.  Það hafi hann ekki gert, fyrr eða síðar.

Engin efnisleg breyting hafi verið gerð á umþrættu ákvæði um langt árabil og ekkert tilefni hafi gefist til þess nýja og breytta skilnings sem stefndi hafi tekið upp.  Stefndi sé því sem fyrr segir bundinn af samningum sínum og geti ekki einhliða og án nokkurra tilkynninga breytt út af þeim skilningi sem verið hafi í þessu efni.

Þá byggir stefnandi á því að orðalag umþrætts ákvæðis sem sett hafi verið um aksturinn í síðustu samningum sé fullkomlega sambærilegt því sem áður var og aðilar lögðu til grundvallar þeim skilningi sem ríkt hafi.  Því séu ekki efni til þess að líta svo á að orðalag ákvæðisins nú gefi tilefni til nýrrar og þrengri túlkunar á ákvæðinu en áður hafi gilt.

Af hálfu stefnanda sé áréttað að ákvæði um kjör starfsmanna í sláturtíð hafi orðið hluti af aðalkjarasamningi Vinnuveitendasambands Íslands og viðsemjenda þeirra, félaga stefnanda Alþýðusambands Íslands árið 1995. Sama eigi við um samninga Samtaka atvinnulífsins og viðsemjenda þeirra árið 2000. Nú séu samningsaðilar þeir sömu að breyttu breytanda. Vegna samninga stefnanda tók hann yfir réttindi og skyldur Vlf. Þórs og stefndi hafi tekið yfir réttindi Vinnuveitendasambands Íslands.  Auk þess að um sömu aðila sé að ræða séu störfin þau sömu og starfsemin sú sama, vinnsla á vegum stefnda, Sláturfélags Suðurlands. Eina breytingin felist í fjölgun kílómetra þannig að viðmiðið sé nú 12 í stað 5 km áður.  Sú breyting sé enda eðlileg í ljósi bættra samgangna. Eina breytingin sem átt hafi sér stað, varðandi samningsaðildina, sé að nýir einstaklingar komi nú að málum en vanþekkingu stjórnenda fyrirtækja og eða þeirra sem séu í forsvari fyrir efndum kjarasamninga á tilurð og inntaki samningsákvæða breyti að sjálfsögðu ekki efni þeirra.  Ekki breytist heldur framkvæmd á grundvelli breytinga sem kunni að verða annars staðar á landinu.  Á meðan ákvæðið sé óbreytt og samningsaðilar þeir sömu gildi ákvæðið og stefnda beri að efna það.

Málsókn sína styður stefnandi við lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sem og meginreglur vinnuréttar og samningaréttar um skuldbindingagildi samninga.  Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafa um álag er nemi virðisaukaskatti á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að gr. 24.5. hafi verið túlkuð í samræmi við orðalag ákvæðisins og efni af stefnda.  Stefndi, SS, hafi því uppfyllt allar samningsskyldur sínar gagnvart starfsmönnum sem störfuðu við sauðfjár­slátrun í sláturhúsi fyrirtækisins á Selfossi haustin 2004, 2005 og 2006. Engin kjarasamningsbrot hafi átt sér stað gagnvart starfsmönnum, eins og haldið sé fram í stefnu.

Grein 24.5. fjalli um greiðslur fyrir akstur til og frá vinnustað samkvæmt ákveðnum reglum sem fram koma í ákvæðinu. Samkvæmt skýru orðalagi greinarinnar skuli ekki greiða starfsmanni fyrir akstur búi hann nær vinnustað en 12 km.   Skýrt komi síðan fram í texta 2. málsliðs greinarinnar að: Sama regla gildi um þá sem fjær búa..” Þessir starfsmenn eigi því líka að sæta frádrætti vegna fyrstu 12 km aksturleiðar til vinnustaðar.

Stefnandi haldi því hins vegar fram að búi starfsmaður SS t.d. 13 km frá sauðfjársláturhúsi eigi hann að fá greitt fyrir alla vegalengdina til og frá  vinnustaðnum, á sama tíma og starfsmaður sem búi 12 km fái enga akstursgreiðslu. Slík mismunun milli starfsfólks eftir búsetu eða fjarlægð frá vinnustað fái ekki staðist enda hafi ákvæðið ekki verið túlkað þannig eða framkvæmt af hálfu stefnda. Samningsákvæðið byggi á þeirri eðlilegu forsendu að vinnuveitandi beri engan kostnað af flutningi starfsmanna sinna fyrstu 12 km og að í hverjum bíl séu a.m.k. fjórir starfsmenn. Vilji starfsmaður þannig nota eigin bíl en ekki sammælast um flutning með öðrum starfsmanni í bíl þá fái hann ¼ af kílómetragjaldinu greiddan.

Málatilbúnaðar stefnanda felist í því að leggja fram nokkra eldri sérkjara­samninga um vinnu við sauðfjársláturhúsum, sem enga þýðingu hafi lengur enda séu þessir kjarasamningar fallnir úr gildi. Það sé ósannað að eldri kjarasamningar aðila hafi verið túlkaðir með þeim hætti að greiða ætti fyrir alla akstursleiðina, ef starfsmaður bjó fjær vinnustað en 5 km. Þetta hafi ekki verið viðurkenndur skilningur Vinnuveitendasambands Íslands (nú SA) eða SS á aksturgreiðslu ákvæðinu, eins og stefnandi haldi fram. 

Með undirritun nýs aðalkjarasamnings milli SGS og SA þann 7. mars 2004 hafi verið tekinn upp í aðalkjarasamningi aðila nýr kafli um sauðfjár­slátrun, sbr. kafli 24 um sauðfjárslátrun í prentaðri heildarútgáfu aðalkjara­samnings aðila. Skýrt komi fram í gr. 24.1. um gildissvið kaflans að samningsákvæðin komi „í stað eldri kjarasamninga og eru þeir úr gildi fallnir án sérstakrar uppsagnar”. Tilvísanir stéttarfélagsins Bárunnar til eldri kjarasamninga Vinnuveitendasambands Íslands frá 1976 og 1995 og meinta framkvæmd þeirra hafi því enga þýðingu eða gildi.  Þetta verði enn frekar ljóst við lestur sérstakrar bókunar um akstursgreiðslur sem gerð hafi verið við undirritun kaflans.

Núgildandi samningsákvæði um greiðslur vegna ferða til og frá vinnustað við sauðfjárslátrun tók gildi í mars 2004.  Nýja samningsákvæðinu, gr. 24.5. um akstursgreiðslur, var beitt í fyrsta sinn við sauðfjárslátrun hjá SS haustið 2004. Í samræmi við texta samningsákvæðisins var þeim starfs­mönnum sem bjuggu fjær vinnustað en 12 km, greitt fyrir hvern ekinn km umfram 12 km.

Samningsákvæðið hafi einnig verið framkvæmt með þessum hætti af SS við sauðfjárslátrun haustið 2005 án þess að nokkrar kvartanir kæmu þá til fyrirtækisins þó öðru sé nú haldið fram af stefnanda. Það hafi fyrst verið með bréfi, dags. 12. október 2006, að stéttarfélagið Báran mótmælir „breyttri framkvæmd ákvæðis 24.5.”, eins og það sé orðað.

Þessar fullyrðingar um breytta framkvæmd samningsákvæðisins árið 2006 fái ekki staðist. Sömuleiðis séu staðhæfingar í stefnunni um að meint breytt framkvæmd kunni að orsakast af því að „nýir einstaklingar” komi nú að stjórnun SS vegna „vanþekkingar” þeirra á tilurð og inntaki samnings­ákvæða” með öllu tilhæfulausar og í rauninni móðgandi.

Forstjóri SS starfaði hjá fyrirtækinu frá árinu 1984 til ársins 1988 sem framleiðslustjóri og bar m.a. ábyrgð á rekstri sauðfjársláturhúsa.  Hann hafi  stjórnað fyrirtækinu sem forstjóri frá árinu 1988. Hann hafi komið að kjara­samningum fyrirtækisins um sauðfjárslátrum frá þessum tíma, eins og fram kemur í framlögðu bréfi hans. Forstjóri SS hafi, ásamt starfsmannastjóra SS, tekið þátt í samningaviðræðum í karphúsinu í mars 2004 þegar nýr kafli um sauðfjárslátrun var saminn og tekinn upp í aðalkjarasamningi SGS og SA. Hann muni því vel umræðuna um þetta nýja samningsákvæði og á hvaða forsendum ákvæðið var byggt, eins fram komi í bréfinu.

Nýja 12 km viðmiðunin sem sett hafi verið inn í akstursgreiðsluákvæðið, í stað 5 km áður, hafi tekið mið af starfskjörum launafólks sem búi á höfuðborgarsvæðinu og þurfi margt að aka 12 km eða jafnvel lengra til vinnu án þess að fá neina akstursgreiðslu frá vinnuveitanda. Sérstaklega hafi verið rætt um það á samninga­fundum að ekki yrði greitt nema ekið væri umfram 12 km. Það segði sig sjálft ef einn starfsmaður byggi 12 km frá vinnustað en annar 12,1 km frá vinnustað væri algjörlega út í hött að sá fyrri kæmi sér á eigin kostnað til vinnu en hinn fengi alla vegalengdina greidda af Sláturfélaginu. Þess vegna segir í 2. málslið gr. 24.5. að sama regla skyldi gilda um starfsmenn sem fjær byggju. Draga ætti frá það sem kalla megi eðlilega vegalengd áður en til neinnar akstursgreiðslu kæmi frá fyrirtækinu. Ella væri um óeðlilega mismunun milli starfsfólks að ræða. 

Fullyrðingar stefnanda um að framkvæmd gr. 24.5. hafi verið breytt í sláturtíð 2006 fái ekki staðist. Það hafi einfaldlega ekki verið samið um það árið 2004 að starfsmaður sem byggi meira en 12 km frá vinnustað fengi alla vegalengdina milli vinnustaðar og heimilis greidda eins og felist í málatilbúnaði stefnanda. Í viðræðum samningsaðila í mars 2004 hafi sérstaklega verið rætt um vegalengdir og flutningskostnað verkafólks innan höfuðborgarsvæðisins til samanburðar. Verkafólk í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði beri sjálft allan kostnað af ferðum sínum til og frá fastri starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu.

Það launafólk sem hafi á hinn bóginn breytilega vinnustaði vegna eðlis starfa sinna fái á hinn bóginn akstursgreiðslur, ef það þurfi að sækja vinnustað sem sé lengra en 10-12 km frá heimili þeirra. Sjá í þessu sambandi gr. 16.7.1. í aðalkjarasamningi SA og SGS um flutningskostnað tækja­stjórnenda og bifreiðastjóra og gr. 3.6.2 í kjarasamningi Samiðnar sem fjalli um flutning byggingarmanna, sem búsettir séu utan höfuðborgarsvæðisins. Úr þessu síðarnefnda ákvæði Samiðnar sé 12 km viðmiðun í gr. 24.5. beinlínis tekin upp.  Viðmiðun gr. 24.5. sé sú sama  og í samningsákvæði byggingarmanna um flutningslínur utan Reykjavíkur. Þannig hafi verið samið um það að ekki skyldi greitt neitt fyrir akstur innan 12 km frá sláturhúsi SS á Selfossi. 

Með gr. 24.5. hafi verið tekin upp ný viðmiðun um flutningslínu, þ.e. 12 km komu í stað 5 km radíusar í eldri kjarasamningum. Þessi viðmiðun hafi haft beina samsvörun til venjulegra akstursvegalengda verkafólks á höfuðborgarsvæðinu og til gr. 3.6.3. í kjarasamningi Samiðnar vegna byggingarmanna. Í nýja ákvæðinu hafi falist umtalsverð útvíkkun flutningslínu, sem hafi gefið stefnanda sérstakt tilefni til að fylgjast með framkvæmd stefnda á nýja ákvæðinu um aksturs­greiðslur haustið 2004. Stefnanda hafi borið að koma án tafar með athugasemdir við framkvæmd stefnda í sláturtíð 2004 og 2005. Engar athugasemdir hafi komið frá starfsmönnum  til stefnda. Skýringar stefnanda á þessu aðgerðaleysi sínu séu ótrúverðugar og í rauninni óafsakanlegar, hafi raunverulegur grunur um meint kjarasamningsbrot verið fyrir hendi árið 2005, eins og haldið sé fram af stefnanda. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki frekar kannað aksturgreiðslur árið 2005.

Krafa um málskostnað styðjist við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

       

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.  Ágreiningur aðila er um túlkun á grein 24.5 í kjarasamningi málsaðila frá 1. mars 2004. Ákvæði þetta hljóðar svo:

„Starfsfólk Sláturfélags Suðurlands sem býr nær vinnustað en 12 km (miðað við skemmstu akstursleið) kemur sér sjálft að og frá vinnustað í eigin tíma.  Sama regla gildir um þá sem fjær búa en þó skal greiða þeim 1/4 af kílómetragjaldi, sem ákveðið er í skattmati ríkisskattstjóra á hverjum tíma, á mann fyrir hvern km. miðað við daglegar milliferðir.”

Stefndi hefur túlkað og framkvæmt samningsákvæði þetta með þeim hætti frá gerð kjarasamnings 2004 að fyrstu 12 km hafa verið dregnir af starfsmönnum er fjær búa vinnustað en 12 km áður en til sérstakrar greiðslu kom fyrir aksturinn. Kemur þetta skýrt fram í bréfi forstjóra Sláturfélags Suðurlands til Samtaka atvinnulífsins, dags. 2. júlí 2007. Á þennan skilning hefur stefnandi ekki fallist sem telur hann vera í andstöðu við fyrri framkvæmd þessa ákvæðis.

Fyrir liggur að ákvæði þetta á sér langa forsögu og er m.a að finna í samkomulagi Sláturfélags Suðurlands og verkalýðsfélaganna á Suðurlandi frá 3. september 1976.  Þær einu breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðinu eru þær að við gerð nýrra heildarkjarasamninga árið 1995 var viðmiðunarfjárhæð greiðslu breytt úr 1/5 í 1/4 af akstursgjaldinu og viðmið vegalengdar til greiðslu aksturspeninga var ákveðið 12 km í stað 5 km áður við gerð aðalkjarasamninga árið 2004. Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins ber að greiða 1/4 af kílómetragjaldi fyrir hvern km miðað við daglegar milliferðir, ef starfsmaður býr fjær vinnustað en 12 km. Liggur og ekkert annað fyrir en greiðsla akstursgjalds, þegar skilyrði um viðmið vegalendar var uppfyllt, hafi að fullu miðast við fjarlægð milli heimilis og vinnustaðar, allt til ársins 2004, enda hefur stefndi ekki sýnt fram á að framkvæmdin hafi verið með öðrum hætti fram til þess tíma. Verður því fallist á sjónarmið stefnanda um skilning og túlkun ákvæðis þessa.

Þegar litið er til þess að samningsákvæði þetta er bundið við sláturtíð en ekki viðvarandi starfsemi verður ekki talið að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum með því að gera ekki athugasemdir við framkvæmd stefnda á ákvæði þessu í sláturtíð haustið 2004 og 2005.

Samkvæmt framansögðu er fallist á að stefndi hafi brotið grein 24.5 í kjarasamningi málsaðila frá 1. mars 2004, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda 250.000 kr. í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sláturfélag Suðurlands svf., braut gegn grein 24.5 í kjarasamningi málsaðila frá 1. mars 2004, með því að greiða ekki starfsmönnum sínum, sem búa lengra en 12 km frá vinnustaðnum fyrir akstur alla vegalengdina milli heimilis og vinnustaðar.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins vegna Sláturfélags Suðurlands svf., greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Bárunnar stéttarfélags, 250.000 kr. í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Erla Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta