Mál nr. 12/2007
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSALEIGUMÁLA
í málinu nr. 12/2007
Endurgreiðsla tryggingar.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 13. júní 2007, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 2. júlí 2007, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 22. júlí 2007, athugasemdir gagnaðila, dags. 13. ágúst 2007, og viðbótarathugasemdir álitsbeiðanda, dags. 22. ágúst 2007, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 12. september 2007.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Með skriflegu samkomulagi, dags. 7. mars 2007, tók álitsbeiðandi á leigu herbergi 301 að X í eigu gagnaðila. Um var að ræða samkomulag sem fól í sér leigu á herberginu að fjárhæð 40.000 krónur.
Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:
Að honum beri að fá endurgreidda tryggingu að fjárhæð 40.000 krónur.
Í álitsbeiðni kemur fram að í skriflega samkomulaginu milli aðila skyldi álitsbeiðandi auk húsaleigu greiða 40.000 króna tryggingu. Síðan hafi álitsbeiðandi greitt leigu fyrir næsta mánuð fyrsta hvers mánaðar. Álitsbeiðandi hafi greitt leigu út maí og fyrir fyrstu viku júnímánaðar, jafnvel þótt hann hafi flutt út 17. maí samkvæmt samkomulagi sem hann hafi gert við gagnaðila sem hafði fundið nýjan leigjanda að herberginu.
Í greinargerð gagnaðila kemur meðal annars fram að álitsbeiðandi hafi verið leigjandi um skamma hríð í herbergi gagnaðila en tekist að brjóta lög á alvarlegan hátt. Álitsbeiðandi hafi stofnað lífi og limum allra að húsnæðinu í hættu með vanrækslu sinni og nánasarhætti. Vísar gagnaðili fjölmargra greina húsaleigulaga því til stuðnings.
Þá kemur meðal annars fram í greinargerð gagnaðila að álitsbeiðandi hafi fyrst stungið upp á að leigan væri til tveggja ára en stytti síðan í eitt ár. Gagnaðili hafi ákveðið að leigja honum til þriggja mánaða reynslutíma, en á þeim tíma hafði gagnaðili úr mörgum langtímaleigjendum að velja. Álitsbeiðandi hafi samþykkt það. Í byrjun maí hafi álitsbeiðandi tilkynnt að hann myndi flytja út sem hann og gerði 17. maí. Gagnaðili hafi gert honum grein fyrir að hann væri bundinn af skilyrðum tímabundins samnings og þyrfti að greiða fyrir húsaleigu út tímabilið. Daginn eftir að álitsbeiðandi flutti út skoðaði gagnaðili herbergið og komst þá að því að það var ekki eins og það átti að vera. Það hafi tekið fjóra daga og nokkra einstaklinga til að aðstoða við að gera við og þrífa herbergið. Um 10–14 dögum síðar hafi álitsbeiðandi haft samband og krafist þess að fá endurgreitt tryggingagjaldið. Viku síðar hafi álitsbeiðandi aftur haft samband en vegna tungumálaörðugleika hafi samskiptin verið óljós.
Gagnaðili vitnar til húsaleigulaga þar sem segi að leigjandi skuli segja til um galla sem síðar komi fram á húsnæðinu og hafi ekki verið sýnilegir við venjulega athugun innan 14 daga frá því að hann varð þeirra var. Álitsbeiðandi hafi aldrei kvartað undan ástandi húsnæðisins en það hafi verið í ágætisstandi þegar hann flutti inn. Hins vegar hafi ástand húsnæðisins verið slæmt þegar hann hafi flutt út, en það hafi þurft að mála það, þrífa hátt og lágt og það sem verra var að innstunga var laus í veggnum sem hafi leitt til neista með reglulegu millibili og skapað þannig mikla eldhættu.
Þá hafi álitsbeiðandi ekki skilið eftir nýtt heimilisfang þannig að gagnaðila var ókleift að hafa uppi á honum.
Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að hann telji sig ekki hafa gert neitt rangt og að eiginkona gagnaðila hafi skoðað herbergið mjög vel þegar hann hafi verið að flytja út. Þá mótmælir álitsbeiðandi því að innstungan hafi verið laus úr veggnum, enda hafi fólk á vegum gagnaðila verið í húsinu þegar hann hafi verið að flytja út. Þá kveður álitsbeiðanda sig hafa tilkynnt eiginkonu gagnaðila um að vandamál væri með innstunguna. Þá mótmælir álitsbeiðandi flestu því sem gagnaðili haldi fram, kveður gagnaðila hafa hótað sér og ítrekar að hann óski eftir að fá trygginguna endurgreidda.
Í frekari athugasemdum aðilanna er aðdróttunum og fullyrðingum hvors aðila um sig mótmælt og fyrri kröfur ítrekaðar.
III. Forsendur
Leigusamningur um húsnæðið var samkvæmt skriflegu samkomulagi frá 7. mars 2007 til 7. júní 2007. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, lýkur tímabundnum leigusamningi á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Leigjanda ber að greiða húsaleigu fyrir þann tíma sem hann hefur húsnæði á leigu og er ágreiningslaust í málinu að álitsbeiðandi hafi fullnægt leigusamningi að því leyti.
Samkvæmt 63. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, skal leigjandi skila húsnæðinu að leigutíma loknum í hendur leigusala í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafar af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi. Samkvæmt 65. gr. laganna skal byggingarfulltrúi meta tjón vegna skemmda á hinu leigða húsnæði komi aðilar sér ekki saman um bótafjárhæð.
Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga skal leigusali að leigutíma loknum segja til svo fljótt sem verða má hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé eða hefur uppi áskilnað um það. Ella skal hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt verðbótum án ástæðulauss dráttar. Leigusala er aldrei heimilt að halda tryggingarfénu í sinni vörslu án þess að gera kröfu í það lengur en í tvo mánuði frá skilum húsnæðis, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna.
Í máli þessu er ágreiningur um staðreyndir málsins. Fyrir liggur að úttekt fór ekki fram á íbúðinni hvorki við upphaf leigutíma né við lok hans, sbr. 69. gr. húsaleigulaga. Ber gagnaðili halla af því og ber honum að skila álitsbeiðanda umræddu tryggingarfé svo sem hann gerir kröfu um.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að skila álitsbeiðanda tryggingargjaldi að fjárhæð 40.000 krónur.
Reykjavík 12. september 2007
Valtýr Sigurðsson
Benedikt Bogason
Þórir Karl Jónasson