Samstaða og stuðningur við Úkraínu efst á baugi NB8-fundar
Málefni Úkraínu og nýtt landslag öryggismála í Evrópu voru í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) í Litáen í dag og í gær.
„Það er mikilvægt að við höldum áfram að styðja við Úkraínu eins vel og við getum eins lengi og þörf er á. Við megum heldur ekki gleyma þeim gildum sem við stöndum vörð um, réttaríkið, lýðræðið og mannréttindi. Þetta eru stundum sögð mjúk málefni en ég held því fram að svo sé ekki. Fjölmiðlafrelsi heldur heimilunum okkar kannski ekki heitum í vetur og réttarríkið seðjar ekki hungrið, en það er engin tilviljun að forseti Úkraínu minnist ítrekað á þessi sameiginlegu gildi okkar. Þau eru siðferðislegt og andlegt eldsneyti fyrir andspyrnu Úkraínumanna,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á sameiginlegum blaðamannafundi ráðherranna að fundi loknum.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir nýja grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundi í Madrid í sumar og aðild Finnlands og Svíþjóðar að bandalaginu. Aukinn stuðningur við Úkraínu var einnig til umræðu, rannsóknir á alþjóðaglæpum sem framdir hafa verið í Úkraínu og útþenslustefna Rússlands. Hækkun matvæla- og orkuverðs vegna takmarkaðs framboðs í tengslum við innrásina kom einnig til tals og þá ræddu ráðherrarnir undirbúning vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður síðar í mánuðinum.
Þórdís Kolbrún leiddi umræðu um mikilvægi samstarfs lýðræðisríkja vegna alvarlegrar stöðu lýðræðis og mannréttinda sem víða eiga undir högg að sækja. Hún sagði innrás Rússlands hafa verið ákveðna vakningu í þeim efnum.
„Samstaðan sem við höfum séð í kjölfar innrásar Rússa gefur okkur hins vegar von um að lýðræðisríki geti og muni taka höndum saman til að verja lýðræðið og berjast fyrir mannréttindum um allan heim,“ segir Þórdís Kolbrún.
Í tengslum við ráðherrafundinn átti Þórdís Kolbrún jafnframt tvíhliða fundi með Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra Noregs og Pekka Haavisto utanríkisráðherra Finnlands.