Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra vill að forsendur nýs Álftanesvegar verði kannaðar á ný

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur ritað vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabæjar og farið þess á leit við þá að þeir fari sameiginlega að nýju yfir forsendur fyrir lagningu nýs kafla Álftanesvegar. Fer hann fram á að verksamningur verði ekki undirritaður meðan á þeirri athugun stendur.

Alþingi samþykkti lagningu nýs Álftanesvegar með samgönguáætlun og var ráðgert að framkvæmdir stæðu yfir árin 2012 til 2014. Nýtt vegarstæði hefur samkvæmt lögum verið ákveðið í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins Garðabæjar. Verkið var boðið út í samræmi við það en af ýmsum ástæðum hefur dregist að hefja framkvæmdir.

Að undanförnu hafa borist harðorð mótmæli við lagningu þessa vegarkafla og því haldið fram að nægilegt sé að endurbyggja veginn í núverandi vegstæði og vernda þannig verðmætt hraun. Jafnframt hefur því verið haldið fram að kanna þurfi gildi umhverfismats og framkvæmdaleyfis.

Í ljósi þessa hefur innanríkisráðherra óskað eftir því að Vegagerðin og Garðabær fari sameiginlega að nýju yfir forsendur þessarar framkvæmdar, skýri forsögu og val á lausnum og kanni hvort unnt er að framkvæma samgöngubætur á Álftanesi í meiri sátt við málsvara náttúruverndar. Einnig óskar ráðherra eftir því að samningur um framkvæmdir verði ekki undirritaður meðan á þessari úttekt og yfirferð stendur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta