Vináttuverkefni Barnaheilla hlaut hvatningarverðlaun Dags gegn einelti 2017
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti verkefninu Vináttu á vegum Barnaheilla hvatningarverðlaun Dags gegn einelti 2017. Kolbrún Baldursdóttir formaður og Erna Reynisdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla tóku við verðlaununum við athöfn sem Menntamálastofnun stóð fyrir í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Vináttuverkefni Barnaheilla er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla og fyrstu bekki grunnskóla. Verkefnið Vinátta er danskt að uppruna og nefnist Fri for mobberi á frummálinu. Um er að ræða námsefni sem gefið hefur verið út og ætlað er leikskólum og 1. – 3. bekk grunnskóla. Frá árinu 2016 hefur verkefnið staðið öllum leikskólum á Íslandi til boða. Í dag eru um 100 leikskólar þátttakendur í verkefninu. Nú hafa Barnaheill einnig gefið út efni sem ætlað er 1. – 3. bekk grunnskóla og verður unnið með það í tilraunaskyni í 14 grunnskólum í sex sveitarfélögum á yfirstandandi skólaári.
Dagurinn 8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Í ár er dagurinn haldinn hátíðlegur í sjöunda sinn og er sjónum nú beint sérstaklega að forvörnum gegn einelti í skólum. Með honum er hvatt til þess að allir leggi sitt framlag á vogarskálarnar til að stuðla að jákvæðum skólabrag þar sem áhersla er lögð á gagnkvæma virðingu, samkennd og góð samskipti.
Frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðu Menntamálastofnunar.