Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 695/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 695/2021

Miðvikudaginn 18. maí 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 27. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. nóvember 2021 um fyrirhugaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. nóvember 2021, var kæranda tilkynnt um áætlaða kröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2021 með tilkomu nýrrar tekjuáætlunar frá kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. desember 2021. Með bréfi, dags. 29. desember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 28. janúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. janúar 2022, og óskað eftir afstöðu hans til kröfu stofnunarinnar um frávísun málsins. Þann 1. febrúar 2022 lagði kærandi fram tölvubréf frá B, dags. 31. janúar 2021, sem nefndin framsendi til Tryggingastofnunar þann 3. febrúar 2021. Í símtali við starfsmann úrskurðarnefndarinnar 1. mars 2022 tilkynnti kærandi að hann vildi ekki afturkalla kæru.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að krafa kæranda varði ofgreiðslu vegna breytinga á tekjuáætlun í október 2021. Samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar beri kæranda að endurgreiða 187.732 kr., sem sé að mati kæranda ekki rétt. Ástæða breytinganna hafi verið sú að B hafi hækkað lífeyrissjóðsgreiðslur um 10% á mánuði frá og með 1. nóvember 2021 og þar að auki hafi kærandi fengið 319.057 kr. eingreiðslu vegna tímabilsins janúar til október 2021.

Þann 1. ágúst 2021 hafi kærandi hafið töku lífeyris frá Tryggingastofnun. Því sé þess krafist að 7/10 þeirrar eingreiðslu, sem hafi fallið honum til tekna á tímabilinu janúar til júlí, komi ekki til skerðingar á greiðslum frá stofnuninni þar sem þær hafi komið til fyrir töku lífeyris. Því beri Tryggingastofnun að endurreikna endurgreiðsluna á þeim grundvelli að 7/10 eingreiðslunnar, þ.e. tímabilið janúar til júlí, falli honum til tekna fyrir töku lífeyrisins í ágústmánuði 2021.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæra varði breytingar á greiðsluáætlun og áætlaða kröfu. Stofnunin hafi farið yfir kæru og meðfylgjandi gögn. Erindi kæranda hafi ekki áður borist stofnuninni og því hafi ekki verið tekin afstaða til þess. Tryggingastofnun hafi því óskað eftir frekari gögnum frá kæranda svo að hægt væri að taka efnislega afstöðu í málinu.

Þar sem stofnunin hafi ekki tekið afstöðu í málinu og málið sé enn í vinnslu hjá stofnuninni, sé farið fram á að málinu verði vísað frá að svo stöddu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fyrirhugaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 15. Nóvember 2021 var kæranda greint frá því að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 187.732 kr. Greiðslan yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bótaársins sem áætlað væri að færi fram vorið 2022. Ljóst er því að um er að ræða bráðabirgðaútreikning sem miðast við þáverandi tekjuforsendur. Lögum samkvæmt endurreiknar stofnunin bótarétt bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda vegna þess árs liggur fyrir, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þannig getur stofnunin ekki tekið endanlega ákvörðun um endurkröfu og innheimtu ofgreiddra bóta í tilviki kæranda fyrr en eftir að álagning skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 hefur farið fram.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar segir að úrskurðarnefnd velferðarmála kveði upp úrskurð í máli, rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta samkvæmt lögunum. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna. Í 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um málsmeðferð fyrir nefndinni. Í 5. mgr. ákvæðisins er vísað til þess að um málsmeðferð hjá nefndinni að öðru leyti fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá  hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.“

Samkvæmt framangreindu eru tilteknar stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála en þær verða þó ekki kærðar fyrr en mál hefur verið til lykta leitt, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilkynning Tryggingastofnunar um áætlaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta vegna ársins 2021 sé ekki endanleg stjórnvaldsákvörðun af hálfu stofnunarinnar

Að framangreindu virtu getur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tekið áætlaða endurkröfu Tryggingastofnunar til endurskoðunar og verður kæru því vísað frá. Úrskurðarnefnd telur hins vegar rétt að benda kæranda á að þegar endanlegur endurreikningur vegna bótagreiðsluársins 2021 liggur fyrir er heimilt að kæra þá niðurstöðu til nefndarinnar, verði kærandi ekki sáttur við þá ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta