Nr. 426/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 9. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 426/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21060024
Beiðni [...] um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 8. apríl 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. janúar 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands.
Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. apríl 2021 og 19. apríl 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þeirri beiðni var hafnað með úrskurði kærunefndar þann 30. apríl 2021. Þann 11. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem kærandi fer fram á að réttaráhrifum verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá kærunefnd með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.
II. Málsástæður og rök kæranda
Í beiðni kæranda kemur fram að hann sé enn staddur hér á landi og að eiginkona hans og sonur hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. júní 2021. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda, sem kærunefnd staðfesti með úrskurði nr. 148/2021, komi fram sú afstaða að stofnunin hafi ekki forsendur til annars en að leysa úr umsókninni á þeim grundvelli að kærandi sé einstaklingur sem hafi alþjóðlega vernd í Grikklandi. Með vísan til framlagðra gagna telji kærandi augljóst að þær forsendur hafi nú breyst. Kærandi fjallar í beiðni sinni um stefnubreytingu sem hafi nýlega átt sér stað í stjórnsýsluframkvæmd Útlendingastofnunar er varðar endursendingar fjölskyldna sem hafi hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi og sótt um alþjóðlega vernd hér á landi til Grikklands. Kærunefnd útlendingamála hafi enn ekki fellt úrskurð í slíkum málum eftir umrædda stefnubreytingu. Að mati kæranda sé stefnubreyting Útlendingastofnunar óforsvaranleg enda megi telja ljóst að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 eigi við um aðstæður flóttafólks í Grikklandi og þá sér í lagi fjölskyldna með börn. Þá sé réttarstaða kæranda önnur en hún var þegar Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála voru með mál hans til meðferðar enda byggði niðurstaða í máli kæranda á því að hann væri einstaklingur.
Í beiðni kæranda fjallar hann jafnframt um meginregluna um einingu fjölskyldunnar sem sé grundvallarregla í flóttamannarétti. Að mati kæranda liggi í augum uppi að hann muni eiga rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga verði eiginkonu hans og barni veitt alþjóðleg vernd hér á landi. Þá liggi í augum uppi að eðlileg ráðstöfun í máli kæranda og fjölskyldu hans sé að afstaða sé tekin til umsókna þeirra samtímis. Sú staða að fjölskylda kæranda sé komin til landsins og hafi sótt um alþjóðlega vernd feli í sér nægilega breytt atvik í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt framangreindu sé endurupptaka málsins minna íþyngjandi möguleiki sem stjórnvöldum beri að beita samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Þá megi við það bæta að sú ráðstöfun að vísa kæranda héðan úr landi myndi fela í sér brot gegn 8. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 enda yrði fjölskyldan þá aðskilin.
Að auki sé það í samræmi við hagsmuni sonar kæranda að mál föður hans verði endurupptekið og vísar kærandi í því samhengi til 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Með hliðsjón af öllu framangreindu sé uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Í beiðni kæranda byggir kærandi jafnframt á því að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og vísar til röksemda sem komu fram í fyrri greinargerðum kæranda í málinu. Þar sem beiðni kæranda um endurupptöku byggist m.a. á því að önnur sjónarmið eigi við um fjölskyldur með börn og ekki hafi sérstaklega verið vikið að réttindum barna í áðurnefndum greinargerðum þá fjallar kærandi að auki um aðstæður og réttindi flóttabarna í Grikklandi. Kærandi fjallar um heilsufar sonar síns og að stjórnvöldum sé skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess og vísar til ákvæða laga um útlendinga, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, almennra athugasemda Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 14 og úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU18010026 frá 20. mars 2018 máli sínu til stuðnings. Þá fjalli kærandi um að börn á flótta hafi ekki aðgang að þeirri menntun sem grísk lög kveði á um og vísar kærandi til nýlegrar skýrslu samtakanna Passerell og úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU19110022 frá 25. mars 2021.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 8. apríl 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að niðurstaða í máli hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun í máli hans hafi verið tekin. Vísar kærandi einkum til þess að eiginkona hans og barn hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar, sbr. jafnframt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, auk þess sem kærandi hafi lagt fram tiltekin gögn til stuðnings tengslum þeirra. Vegna endurupptökubeiðni kæranda sendi kærunefnd tölvubréf til Útlendingastofnunar þann 24. ágúst 2021 þar sem spurt var út í stöðu umsókna eiginkonu kæranda og barns hans hér á landi. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 25. ágúst 2021, kom fram að eiginkona kæranda og sonur hans hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. júní 2021 og að umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd hafi verið synjað um efnismeðferð með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 18. ágúst 2021, og að ákvarðanirnar hafi verið birtar þann 24. ágúst 2021. Af fyrirliggjandi gögnum er því ljóst að Útlendingastofnun hefur tekið afstöðu til umsóknar eiginkonu kæranda og barns og synjað umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi. Að mati kærunefndar hafa umræddar umsóknir því ekki áhrif á stöðu kæranda hér á landi. Vegna tilvísunar kæranda til 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga áréttar kærunefnd að þar er fjallað um tengsl maka, barns eða foreldra við einstakling sem hlotið hefur alþjóðlega vernd hér á landi. Í ljósi þess að hvorki kærandi né eiginkona hans eða barn hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi telur kærunefnd að umrædd lagaákvæði hafi ekki þýðingu fyrir mál kæranda.
Þá byggir kærandi á því að kærunefnd útlendingamála hafi ekki tekið afstöðu til nýlegrar stefnubreytingar í stjórnsýsluframkvæmd Útlendingastofnunar er varðar endursendingar fjölskyldna sem séu handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi og hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærunefnd tekur fram að nýlega hafi nefndin tekið afstöðu til mála þar sem fjölskyldum sem séu handhafar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi hafi verið synjað um efnismeðferð hér á landi og staðfest ákvarðanir Útlendingastofnunar þar að lútandi, sbr. t.d. úrskurður kærunefndar í máli nr. KNU21030053.
Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 8. apríl 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.
Með hliðsjón af framangreindu er ekki talin ástæða til þess að fjalla frekar um beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.
Athygli kæranda er vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda er hafnað.
The appellant‘s request is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares