Hoppa yfir valmynd
16. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 281/2010

Miðvikudaginn 16. mars 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru dags. 12. apríl 2010 kærir B hrl. f.h. A, synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um eftirlifendalífeyri, barnalífeyrir.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi dags. 7. janúar 2010 synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um eftirlifendalífeyri, barnalífeyrir. Í bréfinu kom fram að samkvæmt íslenskum lögum væri ekki heimild til að greiða eftirlifendalífeyri og að það komi í hlut búsetulands barna að greiða barnalífeyri. 

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

„Til mín hefur leitað A og falið mér að kæra úrskurð Tryggingastofnunar ríkisins dags. 7. janúar sl. sem barst henni u.þ.b. viku síðar, þar sem henni var synjað um barnalífeyri með börnum sínum og sagt að búsetuland barnanna, sem er Noregur, eigi að greiða lífeyrinn. Í Noregi hefur umbj. mínum einnig verið synjað um barnalífeyri. Umbj. minn er því í þeirri stöðu að hver vísar á annan og á meðan er enginn barnalífeyrir greiddur með börnunum C og D. Faðir barnanna, E er látinn. Skv. 20. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 skal barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef foreldri er látið enda hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Faðir barna umbj. míns bjó á Íslandi síðustu þrjú árin áður en hann lést. Önnur börn hans eru að njóta barnalífeyris eftir fráfall hans. Umbj. minn telur því að synjun á barnalífeyri henni til handa með börnum hennar og E byggist á misskilningi.“

Með bréfi dags. 16. júní 2010 óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerð barst frá stofnuninni dags. 9. júlí 2010 þar sem segir:

„Málavextir eru þeir að Tryggingastofnun barst umsókn kæranda um eftirlifandalífeyri samkvæmt EES reglugerð nr. 1408/71. Með bréfi dags. 7. janúar 2010 var kæranda synjað um eftirlifandalífeyri og kom fram í bréfinu að búsetuland barnanna ætti að greiða barnalífeyrinn. Í framhaldi af því hringdi kærandi í fulltrúa Tryggingastofnunar og sagðist ekki eiga rétt á eftirlifandalífeyri frá NAV í Noregi og ekki fá nema 400 norskar krónur í barnalífeyri á mánuði með hvoru barni. Tryggingastofnun bað hana um að senda inn staðfestingu á þessu en engar upplýsingar komu frá henni. Þá var ákveðið að óska eftir þessum upplýsingum frá NAV, þ.e. hvort að kærandi ætti rétt á eftirlifandalífeyri og barnalífeyri frá NAV, en engar upplýsingar hafa borist.

Engin heimild er í lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 til að greiða eftirlifandalífeyri.

Kærandi er búsett í Noregi ásamt börnum sínum. Barnsfaðir kæranda, E, bjó í Noregi 24.07.2000 til 14.10.2003. Þær reglur sem gilda í málum sem þessum eru eftirfarandi, samkvæmt EES-reglugerð 1408/71, 8. kafla í III. hluta:

Meginreglan er, að barnalífeyrir með barni látins launþega, sem heyrði aðeins undir löggjöf eins aðildarríkis, er greiddur skv. löggjöf þess ríkis.

Hafi hinn látni launþegi heyrt undir löggjöf tveggja eða fleiri aðildarríkja, skal greitt skv. löggjöf þess ríkis sem barnið er búsett í ef réttur er til greiðslu eftirlifandalífeyris í því landi.

Í undantekningartilvikum ef ekki er réttur til eftirlifandalífeyris í búsetulandi barnsins greiðist barnalífeyrir vegna andláts frá því ríki þar sem hinn látni launþegi lauk lengsta tryggingartímabilinu og hafði áunnið sé rétt til eftirlifandalífeyris í.

Eins og áður komið fram gaf kærandi munnlega þær upplýsingar að hún nyti barnalífeyris frá norska ríkinu. Hún hefur nú sagt að það sé ekki rétt en hún hefur hins vegar ekki fengist til að skila inn staðfestingu á að svo sé, þrátt fyrir að Tryggingastofnun hafi óskað eftir því.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar er umsækjanda skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.

Eins og áður sagði var kæranda gefinn kostur á að senda inn upplýsingar um hvort hún nyti greiðslna eftirlifandalífeyris og barnalífeyris í Noregi en engar upplýsingar hafa borist frá henni. Þrátt fyrir að Tryggingastofnun væri það ekki skylt þá reyndi stofnunin að afla sér þessara upplýsinga sjálf frá NAV í Noregi en engar upplýsingar hafa borist.

Með tilliti til fyrirliggjandi gagna og þess sem að framan er rakið telur Tryggingastofnun sér ekki fært að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun barnalífeyris til kæranda vegna andláts barnsföður hennar.

Ef hins vegar ný gögn berast getur Tryggingastofnun tekið málið fyrir að nýju.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt kæranda með bréfi dags. 14. júlí 2010 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um eftirlifendalífeyri, barnalífeyrir.

Í rökstuðningi fyrir kæru var greint frá því að kærandi sem sé móðir tveggja barna fái hvorki greiddan barnalífeyri á Íslandi né í Noregi. Faðir barnanna sé látinn. Hann hafi búið á Íslandi í þrjú ár áður en hann lést.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að stofnunin hafi óskað eftir upplýsingum frá NAV pensjon í Noregi varðandi það hvort kærandi ætti rétt á eftirlifendalífeyri, barnalífeyri frá stofnuninni. Engar upplýsingar hafi borist. Þá hafi Tryggingastofnun ríkisins ekki fengið staðfestingu frá kæranda um að hún eigi ekki rétt á barnalífeyri í Noregi. Þar sem skortur hafi verið á framangreindum upplýsingum hafi stofnunin synjað umsókn kæranda.

Kærandi sótti um eftirlifendalífeyri samkvæmt ákvæðum EBE reglugerðar nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Í 8. kafla reglugerðarinnar er fjallað um bætur vegna barna sem lífeyrisþegar hafa á framfæri sínu. Í 1. mgr. 77. gr. reglugerðarinnar er fjallað um börn á framfæri lífeyrisþega þar sem fram kemur að hugtakið bætur í greininni taki til fjölskyldugreiðslna til handa fólki sem þegar þiggi bætur vegna aldurs, örorku, vinnuslysa eða atvinnusjúkdóma, svo og viðbætur vegna barna slíkra bótaþega. Í 2. mgr. sömu greinar segir:

„Bætur skulu veittar í samræmi við eftirfarandi reglur, óháð því í hvaða aðildarríki bótaþeginn eða börnin eru búsett:

a) bótaþega sem á einungis rétt til lífeyris samkvæmt löggjöf eins aðildarríkis, og skulu þær greiddar samkvæmt löggjöf þess aðildarríkis sem ber ábyrgð á lífeyrnum.

b) bótaþega sem á rétt til lífeyris samkvæmt löggjöf fleiri en eins aðildarríkis:

i) samkvæmt löggjöf þess ríkis sem hann er búsettur í, að því tilskildu að hann eigi rétt, samkvæmt löggjöf þess ríkis, á einhverjum þeirra bóta sem getið er í 1. mgr., með tilliti til a-liðar 1. mgr. 79. gr. þar sem við á.

ii) í öðrum tilvikum, samkvæmt löggjöf þess aðildarríkis sem hann hefur lokið lengsta tryggingatímabilinu, að því tilskildu að hann eigi rétt til einhverra þeirra bóta sem getið er í 1. mgr., með tilliti til a-liðar 1. mgr. 79. gr. þar sem við á; ef hann hefur ekki áunnið sér bótarétt samkvæmt þeirri löggjöf skal athuga hvort hann uppfylli skilyrði fyrir slíkum bótum samkvæmt löggjöf annarra ríkja sem í hlut eiga, fyrst í því aðildarríki þar sem hann hefur lokið lengsta tryggingatímbilinu samkvæmt löggjöf, síðan næstlengsta o.s.frv.“

Hér á landi er réttur til barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Þar segir í 1. mgr.:

„Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.“

Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um barnalífeyri þar sem búsetuland barna beri að greiða hann. Í kæru greindi kærandi frá því að hún fái ekki greiddan barnalífeyri í Noregi þar sem hún sé búsett með börnin.  

Samkvæmt upplýsingum í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins upplýsti kærandi stofnunina símleiðis um að hún fengi ekki greiddan barnalífeyri í Noregi. Þá var einnig greint frá því í kæru. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir stofnunarinnar til kæranda um að leggja fram skriflega staðfestingu á þessari fullyrðingu hefur kærandi ekki orðið við því. Í 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um skyldu umsækjenda og bótaþega til að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta.

Tryggingastofnun ríkisins sendi fyrirspurn um bótarétt kæranda til NAV pensjon í Noregi en engin svör hafa borist. Í málinu liggur því ekki fyrir staðfesting þess efnis að kærandi eigi ekki rétt á barnalífeyri í Noregi frá viðeigandi opinberri stofnun þar í landi.

Án staðfestingar um bótarétt kæranda í Noregi er að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga óhjákvæmilegt að synja umsókn kæranda að svo stöddu og verður því ekki tekin efnisleg afstaða í málinu. Kærandi verður að bera halla af því að hafa ekki upplýst um staðreyndir málsins.

 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um eftirlifendalífeyri, barnalífeyrir staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um eftirlifendalífeyri, barnalífeyrir er staðfest.

 

 

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta