Teymi eitt: 3. fundur um fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána
- Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 3. fundur teymis 1. Fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána.
- Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 18. nóvember kl. 10:00-12:00.
- Málsnúmer: VEL13060104.
- Mætt: Benedikt Sigurðarson frá Búseta á Norðurlandi, Esther Finnbogadóttir frá efnahags- og fjármálaráðuneyti, fundarstjóri, Guðmundur Pálsson frá efnahags- og fjármálaráðuneyti, Gylfi Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hrafnkell Hjörleifsson frá velferðarráðuneyti, Ingólfur Arnarson frá Sambandi sveitarfélaga, Kristjana Sigurðardóttir frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Margrét Rósa Sigurðardóttir frá þingflokki Pírata.
- Fundarritarar: Hrafnkell Hjörleifsson og Guðmundur Pálsson.
Fundargerðum er ætlað að gera umræðum sem eiga sér stað á fundum skil og þau atriði sem fram koma þurfa ekki að endurspegla skoðanir teymisins í heild.
Frásögn af fundi
Samantekt úr skýrslu neytendasamtakanna „Húsnæðislánamarkaður á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum“ var dreift meðal fundarmanna. Skýrslan byggir á könnun Neytendasamtakanna frá 2005 og var bent á að uppgefið vaxtastig þeirra landa sem hún nær til sé það sem helst sé orðið úrelt. Bent var á ársfjórðungsleg gögn European Mortgage Federation varðandi vaxtastig og margt annað sem reynst getur gagnlegt.
Rætt var um hugmyndir ASÍ að húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd. Meðal þess sem fram kom var:
- Við innleiðingu húsbréfakerfisins voru gerð mistök. Of miklar sveiflur á vöxtum gerðu það að verkum að afföll af lánum gátu orðið mjög mikil.
- Mikilvægi þess að gefa út stóra flokka til að auka flæði og áhuga á þeim á markaði og þannig ná ávöxtunarkröfu niður.
- Búum í fákeppnisumhverfi sem enginn á aðgang að vegna hafta. Ef tekið yrði upp húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd hérlendis mætti binda vonir við innkomu erlendra húsnæðislánastofnana þegar höftin fara. Breyta þarf löggjöf um húsnæðiskerfið til að gefa erlendum aðilum tækifæri að koma inná markaðinn.
- Í Danmörku fer fjármögnun allra íbúðaforma (eignaríbúðir, leigumarkaður og félagslegur markaður) í gegnum sama kerfið sem væri vænlegur kostur hérlendis einnig. Þurfum að nota sama kerfið sem hentar allt að 80% fjármögnun. Samkeppnin er í álaginu sem þessar sértæku lánastofnanir leggja ofan á lán. Eini tilgangur þessara félaga er að veita húsnæðislán.
- Dönsku húsnæðislánastofnanirnar er sérhæfðar lánastofnanir sem skapa ákveðinn stöðugleika á húsnæðislánamarkaði. Mega ekki taka áhættu en íbúðalán geta gert bönkum kleift að stunda áhættusækni í núverandi kerfi hérlendis.
- Allir fá sömu vexti í danska kerfinu en aukin greiðslugeta gefur kost á hærra láni og stærri íbúð – tekjujöfnun í kerfinu.
- Engin ríkisábyrgð í danska kerfinu. Þessi íbúðalán veita traustan grunn í reikningi bankanna (þeir sem eiga þessar sértæki lánastofnanir).
- Ekki áhugi á að fella húsnæðislöggjöfina í Danmörku undir neytendalán þar sem slíkt yrði til þess að þrengja rammann og þ.a.l. hækka vexti.
- Lög um greiðsluaðlögun í Danmörku ná ekki yfir húsnæðislán – ekkert húsnæðisskuldabréf verður afskrifað – afskriftir hækka vexti.
- Unnt að draga vaxtakostnað frá fjármagnstekjuskatti í Danmörku.
- Til að lágmarka vaxtakostnað almennings hérlendis (og alls staðar) þarf að skapa öruggt umhverfi fyrir fjárfesta – flokkar sem sérstakar húsnæðislánastofnanir gefa út gætu mögulega skapað slíkt öryggi.
- Algengt að stofnanir sameinist um útgáfu flokka í Danmörku og þær keppi frekar innbyrðist í álagningu – líklegt að svo yrði einnig hérlendis. Það er vegna að þess að til að flokkar geta talist markaðshæfir þurfa þeir að ná ákveðinni stærð, það er möguleiki með því að sameina flokka saman.
- ÍLS gæti boðið mun lægri vexti ef ekki væri fyrir fortíðarvanda stofnunarinnar sem nýir lántakendur þurfa að borga fyrir.
- Í dag eru lántakar að borga of háa vexti. Neytendur eiga fá að þess lága vaxtastigs sem hefur verið við lýði á síðustu misserum.
- Mikilvægt að hafa eins fáa milliliði að hafa vexti sem lægsta.
- Það vantar tölur um hversu margir eru á almennum leigumarkaði og hverjir eru á félagslegum leigumarkaði.
- Reglugerð um byggingar gerir það að verkum að það of dýrt að byggja húsnæði.
- Mikilvægt er að setja viðmið varðandi hversu stórt hlutfall af launum eigi að greiða í lán. rætt var um að það viðmið ætti að vera um 20% af launum og skuldsetning ætti að miða við 3 föld árslaun.
- Er danska kerfið ekki það sama og gamla húsbréfakerfið? Á fundinum kom fram að veigamiklum þætti hefði verið sleppt. Í danska kerfinu er möguleiki að endurfjármagna lán hvenær sem er hjá lánastofnunni en einnig er hægt að kaupa bréf á markaði og borga með nýju láni frá stofnuninni. Þetta kerfi er gert til að lækka vextina og hjálpar við að halda peningastefnu Seðlabankans.
- Miða við íslenskt umhverfi eins og það hefur verið getur verið erfitt að fjármagna löng óverðtryggð húsnæðislán.
Líkindi danska kerfisins við húsbréfakerfið sem lagt var af 2004 á Íslandi rædd. Húsbréfakerfið byggði á danskri fyrirmynd en að mati ASÍ var veigamiklum þáttum þess sleppt í þeirri yfirfærslu og þessir þættir snéru að hagsmunum almennings, þ.e. ef vextir lækkuðu þurfti lántakandi að borga yfirverðið en fékkst ekki notið affallanna ef vextir hækkuðu. Tækifæri til að endurfjármagna bréfið sitt í kreppu þegar vextir hækka og gengi bréfsins lækkar í verði. Hvati til endurfjármögnunar leiðir aftur til meiri veltu á markaði og eykur stöðugleika að mati ASÍ.
Auk þess var m.a. komið inn á að skilgreiningu á hvað væri lánsveð skorti, fólk skorti þekkingu á fjármálum, íþyngjandi byggingarreglugerð, óskynsamlega skipulagsstefnu sveitarfélaga fyrir hrun, að fólk geti gefið upp leigutekjur án þess að vera refsað fyrir það, leigutakmarkanir leiði til þess að ástand húsnæðis versnar, leiguhúsnæði er ekki ódýrara en séreign.
Lagt var til að nefndarmenn kynna sér danska kerfið nánar fyrir næsta fund nefndarinnar sem settur var föstudaginn 22. nóvember kl. 13:00.
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 12:00.