Komið til móts við atvinnubílstjóra
Samgönguráðherra hefur staðfest breytingu á reglugerð um sektir og viðurlög vegna brota á reglum um akstur og hvíld ökumanna. Með breytingunni er aukið svigrúm vegna frávika frá reglunum. Þannig er nú ekki sektað fyrr en akstur er orðinn 10% yfir aksturstíma en var áður 5-10%.
Breytingin er á viðauka við reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Að tillögu ríkissaksóknara er reglugerðinni breytt á þann veg að felld er brott sekt vegna brota á aksturs- og hvíldartímareglum í þeim tilvikum sem aksturinn er 5-10% af leyfðum heildaraksturstíma en í stað þess sektað þegar brotið er orðið 10% eða meira af heildaraksturstíma. Til þessa hefur verið sektað um 10 þúsund krónur þegar ekið var í 30 mínútur umfram leyfðan 10 tíma akstur en eftir breytinguna verður fyrst sektað ef akstur fer yfir eina klukkustund umfram leyfðan 9 eða 10 tíma akstur. Einnig hefur breytingin í för með sér að ökumaður getur ekið allt að 30 mínútum fram yfir 4,5 klukkustunda leyfðan akstur áður en reynir á sektarákvæði.
Þá hefur samgönguráðherra einnig skrifað undir breytingar á reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Ákveðin brot, til dæmis akstur gegn rauðu ljósi, hafa varðað 4 punktum í ökuferilsskrá. Hefur það þýtt að handhafar bráðabirgðaökuskírteina hafa þurft að sæta akstursbanni fyrir eitt brot. Einnig hafa atvinnubílstjórar sætt því að fá 4 punkta við brot á reglum um aksturs- og hvíldartíma jafnframt því að greiða sektir.
Framvegis varðar brot við akstri gegn rauðu ljósi tveimur punktum í stað fjögurra áður, hámarksfjöldi punkta vegna hraðaksturs verða einnig þrír í stað fjögurra og fellt er niður að brot á aksturs- og hvíldartímareglum varði punktum í ökuferilsskrá.
Breytingar á reglugerðunum eiga að taka gildi 1. febrúar.