Föstudagspóstur - á laugardegi 4.apríl 2020
Heil og sæl
Nú er liðinn tæpur mánuður frá síðasta pósti enda hefur hröð útbreiðsla COVID-19 heimsfaraldursins gert það að verkum að starfsemi utanríkisráðuneytisins hefur að stærstum hluta snúist um eitt verkefni: að hjálpa fjarstöddum Íslendingum að komast heim. Starfsfólk borgaraþjónustu ráðuneytisins hefur verið vakið og sofið yfir þessu verkefni, sendiherrar Íslands víða um heim og starfsfólk sendiskrifstofanna hefur gegnt stóru hlutverki, svo ekki sé minnst á ómetanlega aðstoð ræðismanna Íslands í fjölmörgum ríkjum.
Nú hafa vel á tólfta þúsund manns skráð sig í gagnagrunn Utanríkisráðuneytisins. Langflest þeirra eru ýmist komin heim, eða eru í góðum málum og ætla að dvelja erlendis. Síðustu tvær vikurnar höfum við afgreitt um 4500 fyrirspurnir og haft beint samband við um 3500 manns.
Yfir 150 manns hafa þurft að nýta sér sérstaka heimflutninga Norðurlanda og annarra Evrópuþjóða sem er eina leiðin heim frá þeim ríkjum sem hafa algjörlega lokað landamærum sínum. Meðal þeirra voru ungir skiptinemar sem komu heim frá Argentínu í vikunni með þýsku flugi. Að baki slíkum heimflutningum stendur mikil og góð samvinna
Við hér í ráðuneytinu glöddumst mjög á föstudaginn, þegar fréttist af áformum Icelandair að senda farþegaþotu til Alicante á Spáni í næstu viku. Við vissum af fjölda fólks sem þar er statt og hefur beðið eftir tækifæri til að komast heim. Borgaraþjónustan vill hvetja alla sem ætla sér til Íslands að nýta þetta tækifæri, enda verða ekki önnur bein flug í boði frá Spáni næstu vikurnar að minnsta kosti. Icelandair ætlar einnig að fljúga til Stokkhólms í næstu viku og þar eru margir Íslendingar sem hyggja á heimför.
Íslendingar eru sammála um mikilvægi norræna samstarfsins og það hefur sjaldan reynst eins mikilvægt og á þessum óvissutímum. Borgaraþjónustur utanríkisráðuneyta Norðurlandanna hafa unnið náið saman að verkefnum á borð við borgaraflug frá fjarlægum stöðum, þaðan sem áætlunarferðum hefur verið hætt. Gott dæmi um þetta kom fram á fjarfundi norrænna utanríkisráðherra á fimmtudaginn, þegar danski ráðherrann, Jeppe Kofod, greindi frá því að borgaraflug væri að leggja af stað frá Líma í Perú með fjölda norrænna ríkisborgara, þar með talið einn Íslending.
Þetta var ekki eini fjarfundurinn sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur tekið þátt í undanfarna daga. Hann sat fund utanríkisráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins á fimmtudag sem var sögulegur í tvennum skilningi, því þetta var fyrsti fjarfundur ráðherra í sögu bandalagsins og sömuleiðis fyrsti fundurinn þar sem Norður-Makedónía sat sem fullgilt aðildarríki. COVID-19 var auðvitað aðalumræðuefni fundarins, en bandalagið hefur meðal annars stutt við samhæfingu og aðstoð vegna neyðarviðbragða við faraldrinum.
Talandi um skjót viðbrögð vegna COVID-19, þá var eftir því tekið hversu fljótt og vel íslenskir diplómatar brugðust við þegar heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir aðstoð við að Ísland gengi inn í samning um sameiginleg innkaup á læknisfræðilegum viðbúnaðarvörum. Nokkrum dögum eftir að þessi beiðni barst, var búið að afgreiða öll nauðsynleg gögn og umboð til að Gunnar Pálsson, sendiherra okkar í Brussel gæti skrifað undir fyrir hönd Íslands. Þetta þýðir að Ísland getur, með öðrum Evrópuríkjum, tekið þátt í innkaupum á lífsnauðsynlegum búnaði og lyfjum og fengið hagstæðari kjör og skjótari afgreiðslu.
Nokkrum dögum áður náðu Ísland og hin EFTA ríkin innan Evrópska efnahagssvæðisins, Noregur og Liechtenstein, að sannfæra framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að útflutningsbann ESB á tilteknum hlífðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk ætti ekki við um þessi ríki.
COVID-19 faraldurinn var einnig umræðuefnið á samráðsfundi norrænna þróunarsamvinnuráðherra í síðustu viku, þar sem Guðlaugur Þór og kollegar hans á Norðurlöndunum ræddu um hvernig norrænu ríkin gætu hjálpað sínum samstarfsríkjum í Afríku að bregðast við þessum illskæða faraldri. Heilbrigðiskerfin í mörgum þessara ríkja eru veikburða og mega illa við áföllum af þessu tagi, og ef ríki eins og okkar – sem hafa borð fyrir báru – bregðast ekki við, þá gæti þetta áfall ekki aðeins haft hörmulegar afleiðingar í viðkomandi ríkjum, heldur einnig ógnað öryggi og stöðugleika annars staðar í heiminum. Því var Ísland var í hópi þeirra ríkja sem studdu ákall Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um allsherjarvopnahlé og í lok vikunnar höfðu ellefu ríki tilkynnt um vopnahlé.
Þá átti Guðlaugur Þór símafundi með kollegum sínum í Singapúr, Austurríki, Færeyjum og Grænlandi, en íslensk stjórnvöld hafa einmitt boðið fram aðstoð sína við að greina lífsýni vegna kórónuveirunnar sem tekin hafa verið á Grænlandi. Nú er búið að greina yfir 22.000 sýni hér á landi og þessi víðtæka skimun hefur vakið verðskuldaða eftirtekt og athygli ýmissa af stærstu fjölmiðlum heim.
Áfangasigur vannst frammi fyrir Evrópudómstólnum í Lúxemborg í vikunni, þegar dómstóllinn kvað upp svokallaðan forúrskurð í máli sem Hæstiréttur Króatíu fer nú með og varðar íslenskan ríkisborgara og framsalsbeiðni rússneskra yfirvalda á hendur honum. Lögfræðingar úr Stjórnarráðinu tóku þátt í málflutningnum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, þau Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir úr utanríkisráðuneytinu og þau Hinrika Sandra Ingimundardóttir og Gunnlaugur Geirsson úr dómsmálaráðuneytinu. Í stuttu máli sagt var forúrskurður dómstólsins í samræmi við sjónarmið Íslands í málinu, um að ekki mætti framselja íslenskan ríkisborgara til þriðja ríkis án þess að sannreyna ýmis skilyrði sem yrði að uppfylla. Nú er beðið eftir niðurstöðu Hæstaréttar Króatíu í þessu máli.
Sendiskrifstofur Íslands hafa allar staðið í ströngu við borgaraþjónustu undanfarna daga en starfsemi þeirra er víðast hvar með breyttu sniði vegna ferðatakmarkana og útgöngubanns. Þannig er því meðal annars farið í Kaupmannahöfn, New York, Washington, Ottawa, Nýju-Delí, Moskvu, París, Vín og London eins og þau hafa deilt með okkur á samfélagsmiðlum og tímabundið hefur verið dregið úr starfsemi skrifstofa sendiráða Íslands í Afríku. Þá tók sendiherra Íslands í Helsinki við lyklum að nýrri skrifstofu steinsnar frá núverandi skrifstofurými. Sendiskrifstofurnar hafa einnig lagt sitt af mörkum til að aðstoða og stytta fólki stundir og birt ýmiss konar afþreyingarefni, list og góð ráð á samfélagsmiðlum, svo sem í Stokkhólmi, Ósló, Þórshöfn, New York, Nuuk og í Berlín þar sem sýningin Hafið stendur nú yfir í vefheimum. Þá greindi sendiráðið í Tókýó frá því að Japanir geti nú gætt sér á íslensku skyri. Samfélagsmiðlar hafa reyndar verið reynst dýrmætir undanfarna daga og vikur við miðlun mikilvægra upplýsinga til Íslendinga erlendis. Hér og hér eru listar yfir okkar fólk á Twitter.
Í næstu viku verður utanríkisþjónustan 80 ára og áður en faraldurinn skall á hafði verið unnið að opnun afmælisvefs með myndasafni, pistlum og hlaðvarpi. Vefurinn verður settur formlega í loftið í næstu viku og getur þá kannski stytt fólki stundirnar í samkomubanninu.
Við bendum að lokum á að allar helstu og nýjustu upplýsingar um COVID-19 faraldurinn hér á landi er að finna á www.covid.is og fyrir þá Íslendinga sem eru á heimleið, bendum við á ferðaráðin, á vef utanríkisráðuneytisins.
Svo mælum við með því að „hlýða Víði“ – að fara eftir reglum um sóttkví, almennar sóttvarnir og samkomubann!
Allra bestu helgarkveðjur frá upplýsingadeild utanríkisráðuneytisins