Hoppa yfir valmynd
22. október 2009 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld skila svörum við spurningalista framkvæmdastjórnar ESB

Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Michael Leigh, yfirmaður stækkunarskrifstofu ESB.
Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Michael Leigh, yfirmaður stækkunarskrifstofu ESB.

Íslensk stjórnvöld skiluðu í dag inn svörum við spurningalista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem er hluti af samræmdu umsóknarferli að ESB. Öll ráðuneyti stjórnarráðsins og fjöldi undirstofnana vann að svörunum sem telja rúmlega 2600 blaðsíður, auk fylgiskjala, samtals 8870 síður. Á grundvelli svara íslenskra stjórnvalda mun framkvæmdastjórnin gefa leiðtogaráði ESB álit sitt á hvort Ísland uppfylli viðmið til að verða formlegt umsóknarríki að Evrópusambandinu.

Spurningar framkvæmdastjórnarinnar eru rúmlega 2500 talsins og eru viðamikil kortlagning á gildandi löggjöf og framkvæmd hennar, stjórnsýslu málaflokka og stefnumörkun á fjölda sviða. Svörin eru staðreyndalýsingar en lúta ekki að samningsmarkmiðum Íslands.

Spurningar og svör skiptast í almennan hluta sem er í tveimur köflum, annars vegar um hagkerfið og efnahagsmál og hins vegar um stjórnkerfið almennt, lýðræði og mannréttindi. Að öðru leyti skiptist spurningalistinn í 33 kafla í samræmi við kaflaskiptingu löggjafar ESB. Þannig fjallar fyrsti kafli spurningalistans um frjálst vöruflæði, næsti kafli um frjálsa för vinnuafls og svo koll af kolli.

Vinna við svörin hefur gengið hratt og vel en um sex vikur eru liðnar síðan Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, afhenti íslenskum stjórnvöldum spurningalistann hinn 8. september sl. Í mörgum tilvikum reyndist unnt að nýta svör sem íslensk stjórnvöld höfðu þegar unnið s.s. í tengslum við rekstur EES-samningsins og í skýrslum til Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD), Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og Sameinuðu þjóðanna.

Sérfræðingar bæði innan og utan stjórnsýslunnar unnu að svörunum. Náið samráð var haft við starfshóp utanríkismálanefndar um Evrópumál. Einnig var samráð haft við félagasamtök og hagsmunaaðila, t.d. Bændasamtökin, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samband íslenskra sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, Neytendasamtökin, talsmann neytenda og sérfræðinga úr háskólasamfélaginu, sem fóru yfir svörin.

Framkvæmdastjórn ESB hefur hafið vinnu við yfirferð svaranna og verður áframhaldandi samráð og samskipti við fulltrúa hennar eins og þarf á meðan á vinnslu álits framkvæmdastjórnarinnar stendur.

Svörin er að finna á Evrópuvef utanríkisráðuneytisins

Bréf Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til Olla Rehn, stækkunarstjórna ESB, með svörum íslenskra stjórnvalda (pdf skjal)

Mynd með fréttatilkynningu: Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Michael Leigh, yfirmaður stækkunarskrifstofu ESB.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta