Hoppa yfir valmynd
26. maí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hefja beint áætlunarflug á milli Akureyrar og London

Menningar- og viðskiptaráðherra skrifar undir samning við við Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú. - myndMVF

Breska flugfélagið EasyJet mun hefja áætlunarflug til Akureyrar í vetur og fljúga þaðan til London tvisvar í viku. EasyJet er eitt stærsta flugfélag Evrópu svo ljóst er að þetta er mjög jákvætt fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Opnað hefur verið fyrir sölu á flugsætum á milli Akureyrar og Gatwick og verður flogið á þriðjudögum og laugardögum.

„Þetta er mikið gleðiefni fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að opna fleiri gáttir inn í landið og nýta þau tækifæri sem því fylgja. Mikill árangur hefur náðst í því að styðja við uppbyggingu alþjóðlegs millilandaflugs á landsbyggðinni og metfjöldi erlendra áfangastaða  í boði á landsbyggðinni í ár. Þetta er ánægjuleg þróun sem skiptir máli fyrir þjóðarbúið allt og staðfesting á því að stefna stjórnvalda sé að virka,“segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Markaðsstofa Norðurlands hefur átt í viðræðum við flugfélagið frá árinu 2014. Vonast er til að þetta bæti við miklum fjölda gistinátta ferðamanna á Norðurlandi.

EasyJet mun einnig í samstarfi við ferðaskrifstofuna EasyJet Holidays bjóða upp á pakkaferðir til Norðurlands. EasyJet tilkynnti Akureyri sem nýjan áfangastað fyrr í dag ásamt þrettán öðrum. Fyrsta flugferðin til Akureyrar er 31. október og verður flogið tvisvar í viku út mars 2024.

Akureyri

Styrkja áfram markaðssetningu á flugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri 

Menningar- og viðskiptaráðuneytið leggur nú lokahönd á samninga við EasyJet. Samningarnir eru í gegnum Flugþróunarsjóð sem hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands, þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði.

Með þessu er stuðlað að dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Framtíðarsýn og Leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030, bættri nýtingu innviða ríkisins, bættum búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og bættum rekstrarskilyrðum atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi.

Fyrr á árinu undirritaði ráðherra samninga í gegnum Flugþróunarsjóð, við Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú um kynningu á Norður og Austurlandi sem áfangastaði fyrir beint millilandaflug.  Verður fjármununum meðal annars varið í þátttöku í samstarfsverkefninu Nature Direct, sem jafnframt er styrkt af Flugþróunarsjóði, framleiðslu á efni fyrir áfangastaðina, þátttöku á ferðasýningum og samskipti við ferðaheildsala og ferðaskrifstofur.

Er þetta í takt við stefnu stjórnvalda um að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um allt land sem og styðja við vöruþróun og uppbyggingu nýrra áfangastaða. Markmið samningsins er að styðja við markaðssetningu á Norðurlandi og Austurlandi sem áfangastað fyrir beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta