Yfirlýsing þriggja ráðherra um heilbrigðiskerfið og mönnun þess
Ráðist verður í átak við gerð mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið og mótuð stefna og aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir til að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra sem ráðherrarnir undirrituðu í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna 12. febrúar síðastliðinn.
Yfirlýsingin er eftifarandi:
Fyrirsjáanlegar breytingar á vinnumarkaði vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar munu hafa veruleg áhrif á heilbrigðiskerfið. Einkum mun samkeppni um menntað vinnuafl aukast. Hár meðalaldur margra heilbrigðisstétta er áhyggjuefni í þessu sambandi og því nauðsynlegt að efla nýliðun og þá sérstaklega þegar horft er til vaxandi fjölda starfa sem krefjast háskólamenntunar. Í því augnamiði verður ráðist í sérstakt átak við gerð mannaflaspár fyrir heilbrigðiskerfið til næstu 5 – 10 ára og stefnt að því að ljúka því sem fyrst.
Mikilvægur þáttur í því að fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir landið er að skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að mótuð verða markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Lögð verður fram aðgerðaáætlun til fjögurra ára, byggð á mannaflaspá og markmiðum stjórnvalda eins og þau koma fram í fjármálaáætlun.
Í ljósi þessa verður farið, í samráði við aðildarfélög BHM, í umbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsmanna ríkisins með það að markmiði að heilbrigðisstarfsmenn búi við samkeppnishæf kjör. Störf háskólamenntaðra starfsmanna verði skoðuð sérstaklega með tilliti til samspils kjara og þeirrar menntunar sem starfið krefst.