Áframhaldandi stuðningur við UNRWA til skoðunar
Utanríkisráðherra ákvað á föstudag að fresta greiðslu kjarnaframlags til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), í kjölfar ásakana um að tólf starfsmenn stofnunarinnar hafi átt aðild að hryðjuverkaárás Hamas 7. október síðastliðinn, þar til samráð hefur verið haft við samstarfsríki og frekari skýringa leitað hjá stofnuninni. Í framhaldi hefur utanríkisráðuneytið verið í virkum samskiptum við Norðurlöndin og önnur samstarfsríki um viðbrögð við málinu og sótti fund varaframkvæmdastjóra UNRWA í gær, mánudag. Þá ræddi ráðherra málið í ríkisstjórn í dag og mun enn fremur eiga fund sama efnis með utanríkismálanefnd Alþingis á morgun.
Á næstu dögum mun ráðuneytið halda áfram nánu samráði við Norðurlöndin og fleiri líkt þenkjandi ríki um framhald málsins. Fyrirhugað er að áframhaldandi stuðningur við UNRWA verði, að því samráði loknu, metinn með hliðsjón af öllum fyrirliggjandi upplýsingum og aðstæðum.
Samkvæmt rammasamningi sem undirritaður var við UNRWA í september 2023 fyrir tímabilið 2024-2028 nemur kjarnaframlag Íslands til UNRWA 110 m.kr. á ári. Samkvæmt samningi er miðað við að framlagið sé greitt á fyrstu þremur mánuðum ársins og hefði samkvæmt því verið send frá ráðuneytinu í síðasta lagi í lok mars. Það er því ekki útilokað að Ísland standi við þær skuldbindingar þrátt fyrir frestun.
Fjöldi ríkja boða frestun framlaga
Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóri UNRWA, gaf út yfirlýsingu á föstudag og upplýsti um þessar alvarlegu ásakanir. Tilkynnti hann að í ljósi alvarleika málsins hefði UNRWA sagt viðkomandi starfsmönnum upp umsvifalaust og að rannsókn á sannleiksgildi þeirra yrði hafin án tafar.
Fljótlega í kjölfar frétta af ásökununum á hendur starfsmanna UNRWA tilkynnti fjöldi ríkja að þau myndu fresta greiðslu framlaga til stofnunarinnar. Þau ríki sem tilkynnt hafa um einhvers konar frestun framlaga eru, auk framkvæmdastjórnar ESB; Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Ítalía, Ástralía, Finnland, Kanada, Holland, Eistland, Lettland, Litháen, Japan, Austurríki og Rúmenía, auk Íslands, Danmerkur sem hyggst fylgja afstöðu ESB í málinu og Svíþjóðar sem mun a.m.k. fresta greiðslu framlaga annarra en kjarnaframlaga.
Víðtækur stuðningur Íslands
Ísland hefur um árabil stutt stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem starfa að málefnum palestínskra flóttamanna á Vesturbakkanum, Gaza og í nágrannaríkjum. Ísland hefur undanfarið verið meðal stærstu stuðningsríkja UNRWA miðað við höfðatölu og voru umtalsverð viðbótarframlög veitt í lok síðasta árs samkvæmt ákvörðun ráðherra vegna ástandsins á Gaza, alls um 225 m.kr. Auk þess hafa reglubundin mannúðarframlög verið veitt í svæðasjóð vegna Palestínu á vegum Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA). Þá hefur Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna (CERF), sem Ísland er aðili að, jafnframt úthlutað til mannúðar- og neyðaraðstoðar á svæðinu.
Á sviði þróunarsamvinnu hefur Ísland stutt við tvenn frjáls félagasamtök með starfsemi á Vesturbakkanum og Gaza um alllangt skeið. Annars vegar er um að ræða Women’s Centre for Legal Aid and Counselling (WCLAC), samtaka sem veita félags- og lögfræðilegan stuðning til kvenna auk málsvarastarfs varðandi mannréttindi kvenna á Vesturbakkanum og á Gaza, hins vegar Palestinian Medical Relief Society (PMRS) sem veitir heildræna heilbrigðisþjónustu til íbúa landsins.
Viðbótarframlög til Palestínu tilkynnt í morgun
Enn fremur var í morgun tilkynnt um ákvörðun utanríkisráðherra um að ganga frá samningum við Alþjóðabankann og Rauða krossinn um frekari framlög til Palestínu, en samtals nema árleg framlög samkvæmt þessum viðbótarsamningum yfir 80 m.kr. Framlagið til Rauða krossins á Íslandi mun styðja við starfsemi Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sem starfar með palestínska hálfmánanum á Gaza og veitir nauðsynlega og lífsbjargandi aðstoð. Samningurinn við Alþjóðabankann er til fimm ára og rennur framlagið í sjóð á vegum bankans sem styður við enduruppbyggingu og endurreisn innviða í Palestínu, einkum á Gaza.