Drög að lagafrumvörpum vegna stofnunar millidómstigs til umsagnar
Drög að frumvarpi til nýrra laga um dómstóla og frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð einkamála og meðferð sakamála eru nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Unnt er að senda umsagnir um frumvörpin á netfangið [email protected] til og með 29. janúar 2016.
Frumvörpunum er í sameiningu ætlað að leggja grunn að nýrri dómstólaskipan með þriggja þrepa dómskerfi og nýjum málsmeðferðarreglum sem taki mið af hinni nýju skipan.
Markmið þeirra grundvallarbreytinga á dómstólaskipaninni sem frumvörpin fela í sér eru í fyrsta lagi að meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu verði betur fylgt á áfrýjunarstigi en nú er bæði í einkamálum og sakamálum. Þannig verði komið til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi. Þá er markmið frumvarpanna í öðru lagi að létta álagi af Hæstarétti Íslands og gera honum betur fært að sinna hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll. Í þriðja lagi er það markmið frumvarpanna að stuðla að vandaðri málsmeðferð í málum þar sem reynir á sérfræðileg atriði. Loks eru lagðar til grundvallarbreytingar á stjórnsýslu dómstólanna í þeim tilgangi að efla hana og styrkja.
Það athugist að frumvörpin eru enn í vinnslu og geta tekið breytingum.
Hér að neðan má finna framangreind frumvörp. Þar er jafnframt að finna tvö skjöl þar sem þær breytingar sem lagðar eru til á réttarfarslöggjöf hafa verið færðar inn í gildandi lög með rauðum texta. Texti sem fella á út er yfirstrikaður.