Kaupmáttur allra hópa aukist og allir nema tekjuhæstu greiða lægri skatt
Síðustu árin hafa heildartekjur allra tekjuhópa hækkað og kaupmáttur aukist. Allir tekjuhópar greiða nú minni tekjuskatt en áður, nema þeir sem allra hæstar tekjur hafa. 83% af nettótekjum hins opinbera koma frá tekjuhærri helmingi skattgreiðenda.
Þetta kemur fram í greiningu ráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum út frá skattframtölum. Í tekjutíund felst að búið er að skipta einstaklingum í 10 jafn stóra hópa þar sem sú fyrsta er með lægstu tekjurnar og sú tíunda með þær hæstu.
Mikil aukning kaupmáttar
Undanfarin áratugur hefur einkennst af mikilli kaupmáttaraukningu þar sem tekjur hafa hækkað á sama tíma og verðbólga hefur haldist tiltölulega lág. Meðalhækkun heildartekna frá 2010 nemur 38% á verðlagi ársins 2021 og nær til allra tekjutíunda. Árið 2021 hækkuðu tekjurnar um 4,4% að raunvirði, en í raunvirði felst að leiðrétt er fyrir verðlagshækkunum.
Heildartekjur auk bóta að frádregnum opinberum gjöldum mynda ráðstöfunartekjur einstaklinga. Árið 2021 hækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna að meðaltali um 5,1% og náði sú aukning yfir allar tekjutíundir. Myndin hér að neðan sýnir breytingu á miðgildi kaupmáttar ráðstöfunartekna frá árinu 2020 til 2021, en í miðgildi felst að skoða þær tekjur sem eru í miðju hverrar tekjutíundar.
Minni skattbyrði lág- og millitekjufólks
Tekjuskattsbreytingar undanfarinna ára hafa dregið úr skattbyrði þeirra sem hafa lágar- og meðaltekjur, í samræmi við stefnu stjórnvalda þar um. Þær breytingar eiga stóran þátt í því að tekjuskattbyrði hefur lækkað frá 2019. Ekki sést breyting hjá lægstu tekjutíundinni, sem skýrist af því að þær tekjur eru undir skattleysismörkum, en kaupmáttur þeirrar tekjutíundar jókst verulega líkt og sjá má á fyrri mynd.
Lægri tekjuskattgreiðslur lág- og millitekjufólks 2021
Lág- og millitekjufólk greiddi árið 2021 lægra hlutfall í tekjuskatt þrátt fyrir að tekjur þeirra hafi hækkað sem stafar af samspili tekjuskattsbreytinga og hærri launa. Ef miðað er við 7% hækkun launa árið 2021 má sjá að tekjur eftir skatt hækkuðu umfram 7% launahækkunina vegna lægri greiðslu tekjuskatts hjá lág- og millitekjufólki.
Tekjuhærri greiða 83% tekjuskatta
Heildartekjur einstaklinga árið 2021 voru 2.256 milljarðar króna. Á þær tekjur voru lagðar 523 milljarðar króna í formi tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts. Á efstu tekjutíundina, sem fær 29% af heildartekjunum, er álagður skattur 36% af heildartekjum af tekjuskatti og borgar sú tíund að meðaltali 3,0 m.kr. í tekjuskatt, 2,2 m.kr. í útsvar og 1,2 m.kr. í fjármagnstekjuskatt. Neðstu fimm tekjutíundirnar borga 26% af heildarútsvari, 9% af tekjuskatti og 3% af fjármagnstekjuskatti og því samtals 17% af öllum tekjusköttum.
Nánar um forsendu greiningar ráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum:
Miðað er við alla framteljendur 18 ára og eldri sem hafa tekjur, álögð gjöld eða fá bætur í kjölfar álagningar opinberra gjalda. Framteljendur sem ekki fá hefðbundna álagningu, svo sem vegna áætlaðs framtals, eru ekki hafðir með. Tekjur miðast við heildartekjur sem eru samtala allra tekna áður en tekið er tillit til skatta og bóta. Grunneiningin er einstaklingur og því er fjármagnstekjum deilt jafnt á milli hjóna og sambúðaraðila. Þessar forsendur samrýmast að miklu leyti þeim forsendum sem Hagstofa Íslands notast við í greiningum á tekjutíundum.