Heilbrigðisráðherrar Íslands og Bretlands hittust í Lundúnum
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, átti síðdegisfund með breska heilbrigðisráðherranum, Alan Johnson.
Heilbrigðisráðherra er í heimsókn í Lundúnum þar sem hann hefur kynnt sér starfsemi tiltekinna sjúkrahúsa og átt fundi með heilbrigðisyfirvöldum þar sem m.a. heilsustefna, forvarnastarf og skipulag heilbrigðisþjónustunnar hefur verið efst á baugi.
Í gær hitti Guðlaugur Þór Þórðarson þannig ráðherra lýðheilsu- og forvarnamála, Dawn Primarolo og heilbrigðisráðherrann Alan Johnson, hitti Guðlaugur Þór svo í breska þinghúsinu síðdegis í gær. Á fundinum með Alan Johnson ræddu þeir Guðlaugur breytingarnar sem gerðar hafa verið á heilbrigðisþjónustunni í Bretlandi og kom þar fram af hálfu breska ráðherrans að almenn sátt væri með breytingarnar og fæstir vildu hverfa aftur til þess tíma sem var áður en breytingarnar urðu. Ræddu ráðherrarnir sérstaklega hvernig Bretum hefur gengið að greina á milli kaupanda og seljanda í heilbrigðisþjónustunni þar í landi og hverju þessi breyting hefði skilað. Á fundi ráðherranna bauð heilbrigðisráðherra starfsbróður sínum í heimsókn til Íslands sem sá síðarnefni þáði.
Guðlaugur Þór Þórðarson heimsækir í dag Moorfields Eye Hospital, sem er virtur augnspítali á sínu sviði, en einmitt þessi spítali hefur þjónað íslenskum sjúklingum í meira en tvo áratugi. Í heimsókn sinni á spítalann afhendir Guðlaugur Þór Þórðarson stjórn og starfsmönnum spítalans viðurkenningu fyrir þá góðu þjónustu sem Íslendingar hafa notið á spítalanum í áranna rás.