Hoppa yfir valmynd
5. maí 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Útrýma á bið eftir augnsteinsaðgerðum

Samningur Sjónlags hf. og samninganefndar heilbrigðisráðherra (SHBR) um augasteinsaðgerðir er undirritaður í framhaldi af útboði, sem Ríkiskaup annaðist, í febrúar sl.

Í útboðinu var óskað eftir tilboðum frá augnlæknum eða einkareknum augnlæknastofum í framkvæmd 800 augasteinsaðgerða (kataraktaðgerða) á ári næstu tvö til fjögur ár. Niðurstaða útboðsins var að ganga til samninga við augnlæknastofurnar Sjónlag hf. og LaserSjón ehf.  um samtals 1.600 augasteinsaðgerðir næstu tvö árin. 

Á undanförnum misserum hefur Landsspítalinn ekki annað eftirspurninni og bið eftir augasteinsaðgerðum óviðunandi. Með samningunum við Sjónlag og Lasersjón er ætlunin að fjölga aðgerðunum hér á landi úr 1.800 í 2.600 á ári eða um rúm 44%.  Á næsta ári ætti biðlisti eftir augasteinsaðgerðum þar með að geta heyrt sögunni til.

Ský á augasteini er einn algengasti augnsjúkdómur hér á landi eins og víðast hvar annars staðar.  Ský á augasteini er jafnan stigvaxandi og gengur ekki til baka. Það hindrar sjón á svipaðan hátt og móða á milli glerja og getur valdið blindu ef ekkert er að gert.  Meðferð á öðru auga telst ein aðgerð og er áætlað að á Íslandi þurfi um 2.400 aðgerðir á ári.

Samningurinn við Sjónlag markar tímamót þar sem sjúklingar sem þurfa að fara í augasteinsaðgerð geta nú í fyrsta sinn leitað til augnlæknastofu utan sjúkrahúsanna, en fram að þessu hafa einungis læknar á Landsspítala, St. Jósefsspítala – Sólvangi og Sjúkrahúsi Akureyrar veitt þessa þjónustu.

Um leið og samningnum er ætlað að tryggja styttri bið og greiðari aðgang að þjónustunni eykur hann einnig valmöguleika hinna sjúkratryggðu og aðhald að þeim sem veita þjónustuna.  Greiðsluþátttaka sjúklinga verður sú sama og innan og utan sjúkrahúsanna, sbr. reglugerð nr. 1265/2007 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Áður en til útboðsins kom hafði samninganefnd heilbrigðisráðherra og Læknafélag Reykjavíkur gert sérstakt samkomulag í desember sl. um fyrirkomulag stórra læknisverka utan sjúkrahúsa og í janúar sl. um breytingu á gjaldskrá fyrir augnlækna vegna augasteinsaðgerða.  Útboðið í febrúar átti sér þannig töluverðan aðdraganda og var undirbúið í nánu samráði bæði við starfsmenn sjúkrahúsa og félög sjálfstætt starfandi sérgreinalækna. Strangar kröfur voru m.a. gerðar um reynslu og aðbúnað.  

Heildarkostnaður vegna samnings Sjónlags og SHBR er áætlaður um 62 milljónir króna og hlutdeild TR 52 milljónir króna. Mismunurinn samsvarar kostnaði hinna sjúkratryggðu, en hlutdeild sjúklinga er breytileg og fer t.d. eftir því hvort þeir eru elli- eða örorkulífeyrisþegar og hvort þeir eru með afsláttarkort eða ekki.

Miklar framfarir hafa orðið í augasteinsaðgerðum undanfarin ár.  Aðgerðirnar kalla ekki lengur á innlögn sjúklinga og tekur hver aðgerð nú aðeins 10-15 mínútur.  Fyrir 15 til 20 árum tók hún á hinn bóginn um klukkustund og sjúklingar þurftu að liggja inni á sjúkrahúsi í þrjá daga.  Í nágrannalöndum okkar er nú áætlað að um 70% þessara aðgerða séu framkvæmdar utan sjúkrahúsa.  Samningurinn við Sjónlag hf. felur þannig í sér aðlögun að nýjum tíma og mun gera sjúkrahúsunum kleift að nýta aðstöðu sína og mannafla til að efla ennfrekar þá þjónustu sem þau ein geta veitt.  Læknar Sjónlags ehf. áætla að hefja augasteinsaðgerðir samkvæmt hinum nýja samningim í lok þessa mánaðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta