Ástæðulaust að endurskoða lög um gagnagrunn
Ekki er ástæða til að endurskoða lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þetta er álit heilbrigðisráðherra sem svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi. Það var Þuríður Backman (VG) sem innti ráðherra álits á gagnagrunnslögunum og þörfinni á að endurskoða þau. Ráðherra rifjaði upp gildistöku laganna og dóm Hæstaréttar í nóvember 2003, þar sem viðurkenndur var réttur dóttur til að synja um að upplýsingar um látinn föður hennar yrðu færðar í gagnagrunninn, en dómurinn leiddi til þess að í heilbrigðisráðuneytinu var undirbúið að breyta lögunum til samræmis við niðurstöðu réttarins. Orðrétt sagði ráðherra á Alþingi: “Í frumvarpi sem unnið var í heilbrigðisráðuneytinu á árinu 2005 voru lagðar til breytingar á 7. og 10. gr. laganna. Umrætt frumvarp var ekki lagt fyrir þingið og réðst það fyrst og fremst af því að í reynd höfðu lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði aldrei komist í framkvæmd og ekkert bendir til að svo verði á næstunni. Segja má að lögin séu í reynd dauður bókstafur og því er ekki talin ástæða til að ráðast í endurskoðun þeirra. Að óbreyttu er því gert ráð fyrir að lögin verði felld úr gildi eigi síðar en þegar rekstrarleyfi Íslenskrar erfðagreiningar til starfrækslu gagnagrunnsins rennur út í janúar 2012. Háttvirtur þingmaður spyr líka hvort ráðherra hafi tekið afstöðu til tímabundins rekstrarleyfis Íslenskrar erfðagreiningar til starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði. Rekstrarleyfið gildir til og með 21. janúar árið 2012. Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði verði felld úr gildi eigi síðar en þegar rekstrarleyfið rennur út og því engar áætlanir um endurnýjun leyfisins eða útgáfu nýs leyfis til að reka gagnagrunn á heilbrigðissviði.”