Sameiningin á að styrkja stofnanir
Sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni er til að styrkja þær og efla þjónustuna á viðkomandi svæðum. Þetta kom fram hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, þegar hann svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi frá Kristni H. Gunnarssyni (FL), en þingmaðurinn vildi fá svör við því hvaða heilbrigðisstofnanir sé ráðgert að sameina á þremur svæðum, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Hann spurði sömuleiðis að því hvaða breytingar væru áformaðar á núverandi starfsemi einstakra stofnana og í þriðja lagi hvort einhver sérstök vandkvæði séu í rekstri þeirra stofnana sem sameina á varðandi fjárhag eða þjónustu sem sameiningunni er ætlað að bæta úr. Í svari heilbrigðisráðherra kom afdráttarlaust fram að það væri ekkert varðandi fjárhag og þjónustu sem sem sameining ætti að bæta úr. “Reynslan er hins vegar sú að stærri stofnanir hafa meira bolmagn til ýmissa verka, svo sem að fá til sín sérhæfða heilbrigðisþjónustu og þar með efla þá þjónustu sem fyrir er á svæðinu. Meiri þjónusta fer fram í heimabyggð, mönnun er tryggari og fleira mætti nefna” sagði heilbrigðisráðherra á Alþingi. Um það hvaða stofnanir stæði til að sameina á svæðunum sem þingmaðurinn spurði um upplýsti heilbrigðisráðherra þetta: “Því er til að svara að á Vesturlandi er ætlunin að sameina heilsugæslustöðvarnar í Ólafsvík, Grundarfirði, Borgarnesi, Búðardal, Reykhólum og Heilbrigðisstofnunina í Stykkishólmi. Á Vestfjörðum eru það heilbrigðisstofnanir á Ísafirði og Bolungarvík sem áætlað er að sameina og á Norðurlandi verða heilbrigðisstofnanir á Blönduósi og Sauðárkróki sameinaðar í eina stofnun og síðan eru það heilsugæslustöðvarnar á Dalvík og Ólafsfirði og Heilbrigðisstofnunin á Siglufirði sem verða sameinaðar. Markmiðið með sameiningu stofnana er eins og áður að styrkja heilbrigðisþjónustuna á viðkomandi svæðum og skapa sterkari rekstrareiningar með samþættingu í starfsemi stofnana og samnýtingu ýmissa kostnaðarþátta. Sameiningunni er ætlað að efla þá heilbrigðisstarfsemi sem þegar er á svæðunum en ekki veikja.”