Hoppa yfir valmynd
23. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 272/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 272/2015

Miðvikudaginn 23. mars 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. september 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins, sem tilkynnt var með bréfi 11. september 2015, um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árunum 2012, 2013 og 2014.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2012, dags. 22. júlí 2013, reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 980.454 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Þá reiknaðist stofnuninni við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2013, dags. 21. júlí 2014, að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 178.584 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu skuldar sinnar með kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 30. mars 2015, sbr. mál nr. 101/2015. Tryggingastofnun krafðist frávísunar málsins með bréfi, dags. 13. apríl 2015, á þeim grundvelli að engin stjórnvaldsákvörðun hefði verið tekin í málinu þar sem beiðni um niðurfellingu hafi fyrst borist með kærunni. Málinu var því vísað frá úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 14. apríl 2015.

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2014, dags. 21. júlí 2015,  reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 272.284 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 11. september 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að umsókn hans um niðurfellingu endurgreiðslukröfu hafi verið synjað á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki talin vera fyrir hendi. Einnig segir að endurgreiðslu eftirstöðva krafna í innheimtu, að fjárhæð 985.817 kr., sé dreift þannig að 20.538 kr. verði dregnar af mánaðarlegum greiðslum til kæranda þar til kröfur verði að fullu greiddar.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 29. september 2015. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar sama dag óskaði nefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 13. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun felli niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta þar sem hann sé óvinnufær og eigi ekki möguleika á að auka tekjur sínar. Hann sé með 148.000 kr. í tekjur á mánuði og sé að auki að greiða af 2.000.000 kr. láni frá B og af 500.000 kr. láni frá C. Hann búi í dag að mestu leyti á D þar sem hann sé að aðstoða aldraða móður sína og systur hennar en hann eigi konu, börn og barnabörn í K. Hann sé að sinna tveimur heimilum og reyni að fara X allar helgar þegar fært sé en því fylgi mikill bensínkostnaður. Hann hafi ekki farið til tannlæknis í tvö og hálft ár vegna yfirvofandi kostnaðar við þá læknisheimsókn. Auk þessa þurfi hann að greiða tíu þúsund krónur á mánuði fyrir lyf.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi synjað kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu stofnunarinnar. Tryggingastofnun hafi borist beiðni úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 7. apríl um greinargerð vegna kæru nr. 101/2015. Við skoðun erindisins hafi komið í ljós að um væri að ræða ósk um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu á hendur kæranda sem stofnunin hafi ekki fengið beiðni um. Því hafi stofnunin krafist frávísunar. Málinu hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 14. apríl 2015. Í kjölfarið hafi mál kæranda verið tekið fyrir hjá Tryggingastofnun og óskað eftir upplýsingum frá kæranda. Beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfu hafi svo verið synjað og tilkynnt með bréfi stofnunarinnar, dags. 11. september 2015, en innheimtu kröfunnar breytt þannig að dregnar væru 20.538 kr. af mánaðarlegum greiðslum til kæranda.

Ástæða endurkröfunnar séu ofgreiðslur vegna áranna 2012, 2013 og 2014. Ástæða þess að ofgreiðslur hafi myndast vegna þessara ára séu þær að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlanir hafi gert ráð fyrir. Kærandi hafi fengið greiddan örorkulífeyri og tengdar bætur á þessum árum.

Þann 20. janúar 2012 hafi Tryggingastofnun sent kæranda tillögu að tekjuáætlun. Í henni hafi verið gert ráð fyrir að kærandi hefði 548.574 kr. í atvinnuleysisbætur, 3.062.627 kr. í launatekjur, 606.163 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 300.000 kr. í leigutekjur. Í samræmi við þessa tekjuáætlun hafi kæranda verið tilkynnt að hann ætti ekki rétt á greiðslum vegna ársins 2012 vegna tekna. Þann 1. mars 2012 hafi kærandi skilað inn tekjuáætlun fyrir árið 2012. Þar hafi verið gert ráð fyrir því að kærandi hafi 400.000 kr. í atvinnuleysisbætur, 1.200.000 kr. í launatekjur, 606.168 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 300.000 kr. í leigutekjur. Kærandi hafi skilað inn annarri tekjuáætlun þann 21. maí 2012 þar sem hann hafi verið búinn að lækka lífeyrissjóðstekjur í 360.000 kr. og að lokum þeirri þriðju þann 15. október 2012 þar sem hann hafi verið búinn að hækka launatekjur í 3.500.000 kr. Við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattaframtali 2013 vegna tekjuársins 2012 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlanir gerðu ráð fyrir. Rauntekjur hans á árinu 2012 hafi verið 445.802 kr. í atvinnuleysisbætur, 4.457.879 kr. í launatekjur, 245.453 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 600.000 kr. í leigutekjur og 35.316 kr. í vaxtatekjur. Kærandi hafi því fengið of háar greiðslur í öllum bótaflokkum.

Þann 11. janúar 2013 hafi Tryggingastofnun sent kæranda tillögu að tekjuáætlun ársins 2013 þar sem gert hafi verið ráð fyrir að kærandi fengi 160.008 kr. í atvinnuleysisbætur, 3.769.596 kr. í launatekjur, 374.400 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 300.000 kr. í leigutekjur. Þann 8. maí 2013 hafi kærandi skilað inn tekjuáætlun fyrir árið 2013 þar sem gert hafi verið ráð fyrir 1.000.000 kr. í launatekjur, 410.515 kr. í atvinnuleysisbætur, 12.264 kr. í vaxtatekjur og 199.992 kr. í leigutekjur. Við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattaframtali 2014 vegna tekjuársins 2013 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlanir gerðu ráð fyrir. Rauntekjur kæranda hafi verið 622.043 kr. í atvinnuleysisbætur, 1.112.468 kr. í launatekjur, 125.511 kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur, 600.000 kr. í leigutekjur, 26.025 kr. í vaxtatekjur og 60.000 kr. í aðrar tekjur. Þessi mismunur hafi leitt til þess að kærandi hafi fengið of háar greiðslur í tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót.

Þann 27. desember 2013 hafi kærandi sent Tryggingastofnun tekjuáætlun vegna tekjuársins 2014. Í þeirri tekjuáætlun hafi kærandi ekki gert ráð fyrir neinum tekjum öðrum en 199.992 kr. í leigutekjur. Við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattaframtali 2015 vegna tekjuársins 2014 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlanir hafi gert ráð fyrir. Rauntekjur kæranda á árinu 2014 hafi verið 474.584 kr. í atvinnuleysisbætur, 90.622 kr. í lífeyrissjóðsgreiðslur, 600.000 kr. í leigutekjur og 16.994 kr. í vaxtatekjur. Þessi mismunur hafi leitt í ljós að kærandi hafi fengið of háar greiðslur í tekjutryggingu, orlofs- og desemberuppbót og framfærsluuppbót.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings bóta. Í 2. mgr. sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skuli leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga sé umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar svo að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur. Í framangreindu ákvæði felist rík skylda lífeyrisþega að hann sé vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og að hann geri viðvart ef svo sé ekki. Aftur á móti sé einungis um heimild Tryggingastofnunar að ræða til þess að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verði ekki þess valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna, sbr. 7. mgr. 16. gr. Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og í reglugerð 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Undantekningu frá þessari reglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segir að þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt II. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum líta til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hafi ásamt fyrirliggjandi gögnum verið skoðað hver ástæða ofgreiðslunnar væri, upplýsingar frá skattayfirvöldum um tekjur og eignir að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og fjárhagslega stöðu kæranda. Umrætt erindi hafi verið tekið fyrir á fundi þann 10. september 2015. Í 55. gr. almannatryggingalaga sé fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Í þessu ákvæði felist annars vegar sú krafa að fram fari mat á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til þess að endurgreiða skuldina og hins vegar hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og hana skuli skýra þröngt.

Umrædd krafa hafi orðið til við endurreikning áranna 2012, 2013 og 2014. Ástæða ofgreiðslunnar hafi verið rangar tekjuáætlanir og stofnunin telji kröfuna vera réttmæta. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi beri skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og honum beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki. Þessi skylda bótaþega eigi ekki bara við þegar tekjuáætlun sé gerð heldur alltaf þegar einstaklingur fái bætur frá Tryggingastofnun. Kærandi hafi verið á tekjutengdum greiðslum frá Tryggingastofnun árum saman og hafi verið upplýstur um þessa skyldu sína reglulega. Kærandi hafi á því tímabili sem um ræðir ítrekað skilað inn tekjuáætlunum sem hann hafi vitað eða mátt vita að hafi ekki verið í neinu samræmi við raunverulegar tekjur hans. Einnig horfi stofnunin til þess að allt frá uppgjöri bótagreiðslna frá árinu 2006 hafi stofnast nokkuð háar kröfur á hendur kæranda vegna rangra tekjuáætlana, að undanskildum bótaárunum 2008 og 2010.

Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem Tryggingastofnun hafi aðgang að og á grundvelli innsendra gagna. Við skoðun þeirra hafi það verið mat samráðsnefndarinnar að ekki hafi verið tilefni til að fella niður kröfuna. Í gögnum málsins komi meðal annars fram að skuldir kæranda séu nokkuð háar en af innsendum gögnum sé ljóst að mánaðarleg greiðslubyrði hans sé ekki veruleg og eignir séu einnig í samræmi við skuldastöðu. Þegar farið hafi verið yfir mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið ákveðið að koma til móts við hann með því að dreifa afborgunum hans af skuldinni yfir 48 mánaða tímabil, eða í fjögur ár sem sé mun lengra tímabil en venjulega sé boðið uppá. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árunum 2012, 2013 og 2014 að eftirstöðvum 985.817 kr.

Kærandi var örorkulífeyrisþegi á árunum 2012, 2013 og 2014 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Umsækjanda og greiðsluþega er skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra, sbr. 2. mgr. 52. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eins og ákvæðið hljóðaði fyrir 1. febrúar 2014, sbr. núgildandi 39. gr. laganna. Þá kemur fram í framangreindum ákvæðum að umsækjanda og greiðsluþega sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Þá er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum o.fl., sbr. 2. mgr. 52. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eins og ákvæðið hljóðaði fyrir 1. febrúar 2014, sbr. núgildandi 40. gr. laganna.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 7. mgr. 16. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2012 með bréfi, dags. 22. júlí 2013. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til kæranda hefðu verið ofgreiddar í öllum bótaflokkum, samtals að fjárhæð 980.454 kr. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2013 með bréfi, dags. 21. júlí 2014. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til kæranda hefðu verið ofgreiddar í tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót, samtals að fjárhæð 178.584 kr. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2014 með bréfi, dags. 21. júlí 2015. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til kæranda hefðu verið ofgreiddar í tekjutryggingu, orlofs- og desemberuppbót og framfærsluuppbót, samtals að fjárhæð 272.284 kr. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfurnar megi rekja til rangra tekjuáætlana kæranda fyrir umrædd ár.

Tryggingastofnun ber lögbundna skyldu til að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni beri að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins, er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Í máli þessu er ekki deilt um réttmæti endurkröfunnar eða fjárhæðir heldur lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á eftirstöðvum endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta á árunum 2012, 2013 og 2014, samtals að fjárhæð 985.817 kr.

Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Framangreind 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að örorkulífeyrir og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í sérstakri tekjuáætlun. Eins og áður greinir gerir þágildandi 52. gr. og núgildandi 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir ábyrgð um rétta tekjuáætlun á bótaþega. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með tekjur árum saman og ítrekað frá árinu 2006 hafa safnast nokkuð háar kröfur á hendur kæranda vegna rangra tekjuáætlana. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kæranda hefði mátt vera kunnugt um áhrif teknanna á bótagreiðslurnar. Kærandi byggir heldur ekki á því að hann hafi verið í góðri trú en vísar til erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna.

Samkvæmt upplýsingum kæranda hefur hann dvalist á D þar sem hann annast um aldraða móður sína og systur hennar. Hann kveðst vera að borga af tveggja milljóna króna láni hjá B á D auk þess sem hann sé að borga af fimm hundruð þúsund króna láni frá C. Kærandi hefur borið fyrir sig í máli þessu að hann sé óvinnufær að öllu leyti og eigi þar af leiðandi ekki kost á að auka tekjur sínar. 

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Meðaltekjur kæranda síðustu sex mánuði áður en Tryggingastofnun tók niðurfellingarbeiðni kæranda til skoðunar voru 207.227 kr. á mánuði samkvæmt staðgreiðsluskrá. Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kæranda séu töluverðar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. maí 2015, var óskað eftir að kærandi legði fram gögn um mánaðarlega greiðslubyrði sína. Kærandi lagði fram gögn um afborganir sínar af framangreindum lánum hjá B og C. Samkvæmt þeim gögnum virðist mánaðarleg greiðslubyrði hans vera óveruleg. Þá horfir nefndin til þess að kærandi greiðir einungis 20.538 kr. mánaðarlega af endurkröfu Tryggingastofnunar þar sem heildarkröfunni var dreift á fjörutíu og átta greiðslumánuði. Með hliðsjón af þessu telur nefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Þá lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um fjárhagslegar og félagslegar aðstæður í máli þessu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árunum 2012, 2013 og 2014 er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni A, um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árunum 2012, 2013 og 2014 er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta