Ögmundur Knútsson skipaður Fiskistofustjóri
Kristján Þór Júlíusson , sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað dr. Ögmund Knútsson, ráðgjafa, Fiskistofustjóra til fimm ára. Ögmundur hefur störf 1.maí nk.
Ögmundur er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri, meistaragráðu í sömu grein frá Háskólanum í Edinborg ásamt því að hafa lokið doktorsprófi frá sama skóla og fjallaði doktorsverkefnið hans um stjórnun á samstarfi í íslenskum sjávarútvegi með áherslu á þróun sölusamtakanna.
Ögmundur starfaði hjá Háskólanum á Akureyri frá árinu 1994 til ársins 2019 m.a. sem framkvæmdastjóri stefnumótunar og starfsþróunar á árunum 2001 til 2006, framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar háskólans 2006 til 2007 og deildarforseti á árunum 2015-2017. Þá sinnti hann kennslu og rannsóknum við skólann og hafa rannsóknir hans tengst sjávarútvegi hér á landi og erlendis. Á undanförnum mánuðum hefur Ögmundur starfað sjálfstætt sem ráðgjafi og hefur unnið að verkefnum tengdum sjávarútvegi meðal annars í Albaníu og Víetnam.
Nítján sóttu um embættið og mat hæfnisnefnd fjóra umsækjendur vel hæfa til þess að gegna því. Í kjölfarið boðaði ráðherra þá í viðtal þar sem ítarlega var farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda.
Í umsögn hæfnisnefndar segir meðal annars: Ögmundur hefur öðlast víðtæka háskólamenntun sem nýtist í starfi og menntun og starfsreynslu sem tengist sjávarútvegi og stjórnsýslu á vettvangi háskóla og verkefna sem tengjast þeim störfum. Að mati hæfnisnefndar uppfyllir Ögmundur allar menntunar- og hæfniskröfur vel og telst því vel hæfur til þess að gegna embætti Fiskistofustjóra.
Var það mat ráðherra, að Ögmundur Knútsson væri hæfastur umsækjenda til að stýra Fiskistofu til næstu fimm ára.