Framlag ríkisins til flugmála um tveir milljarðar króna á árinu
Mikilvægi innanlandsflugs var efni málþings Samband sveitarfélaga á Austurlandi og Þróunarfélags Austurlands á Egilsstöðum í dag. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp við upphaf þingsins og sagði að framlag ríkisvaldsins til flugmála á árinu væri rúmir tveir milljarðar króna, mest í rekstur flugvalla en einnig til viðhalds og uppbyggingar og í styrki á nokkrum flugleiðum innanlands.
Ræðumenn á fundinum fjölluðu meðal annars um mikilvægi Reykjavíkurflugvallar og sjúkraflugs um völlinn, hlutverk Isavia í innanlandsfluginu, atvinnulífið og innanlandsflug, sveitarstjórnarmenn viðruðu sjónarmið sín og rætt var um mikilvægi flugs fyrir heilbrigðisþjónustu og ferðaþjónustu.
Valdimar O. Hermannsson, formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi setti fundinn og greindi frá bókun framkvæmdaráðs SSA í janúar á þessu ári í kjölfar umræðu um framtíð flugvallar í Vatnsmýri. Segir þar að verði miðstöð innanlandsflugs flutt frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar muni ferðatími verða það langur og ferðakostnaður svo mikill að óviðunandi væri og að Reykjavíkurborg hlyti að afsala sér hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.
Bjartsýnn á framtíð innanlandsflugs
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagðist vera bjartsýnn fyrir hönd innanlandsflugsins, það hefði þurft að taka breytingum og taka þátt í áföllum þjóðarbúsins og væri jafnan háð bæði tækniþróun og breytingum í samfélaginu. Innanlandsflugið væri að eflast á ný. Flugið hefur tekið breytingum, áætlunarflug var áður á 30 staði en nú til 10 staða og ánægjulegt að nýlega væri hafið á ný áætlunarflug milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Hann sagði flug núna rekið á viðskiptalegum forsendum á nokkra staði, stefnan sú að flogið sé þar sem flug ber sig á viðskiptalegum forsendum. Ráðherra sagði það hafa áhrif á innanlandsflugið þegar vegakerfið batnar og því haldið opnu með þjónustu alla daga ársins.
Innanríkisráðherra sagði stuðning hins opinbera við flugið birtist með margvíslegum hætti, framlagið væri á þessu ári rúmir tveir milljarðar króna, um 1250 milljónir í rekstur, um 287 milljónir í viðhald, 194 til að styrkja innanlandsleiðir. Menn hafi viljað skella skuldinni af hækkun flugfarmiða á gjöld frá ríkissjóði sem hann sagði ómaklegt gjöldin hefðu að miklu leyti fylgt verðlagsþróun. Hann sagði Isavia hefur gert ráðuneytinu grein fyrir því að til að viðhalda flugvöllum þyrfti kringum einn milljarð króna en hækkun gjalda myndi á tveimur árum skila um 200 milljónum króna. Lagði ráðherra áherslu á að tekist hefði að verjast niðurskurð í framlögum til flugmála í líkingu við það sem gert hefði verið á sviði samgangna á landi.
Í lokin sagðist ráðherra vera fylgjandi því að efla innanlandsflugið; hann teldi að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram starfræktur, ekkert væri um það að ræða að búa til nýjan flugvöll á Reykjavíkursvæðinu og ef innanlandsflug yrði flutt til Keflavíkur myndi það dragast saman.
Mikilvægt að hraða ákvörðun um nýja flugstöð í Reykjavík
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, ræddi mikilvægi Reykjavíkurflugvallar í almenningssamgöngum. Bætt vegakerfi haft mikið að segja varðandi þróun í innanlandsflugi, áfangastöðum fækkað, Egilsstaðir þjóna nú til dæmis svo gott sem öllu Austurlandi. Hann sagði að samkvæmt könnun væri samsetning farþega þannig að 20-40% væru á ferð í viðskiptaerindum, 10-30% í fríi sem dæmi en samsetningin væri mjög fjölbreytt, tæplega 50% ferðast á eigin vegum, 40% á vegum fyrirtækja, 6% á vegum ríkisins og 5% á vegum sveitarfélaga. Hann sagði um 51% farþega til Reykjavíkur eiga erindi vestan Kringlumýrarbrautar, um 10% utan höfuðborgarsvæðis. Könnun sýnir að 80% farþega myndi fljúga minna ef flugið yrði flutt til Keflavíkur. Hann sagði mikilvægt að hraða ákvörðun og framkvæmdum varðandi nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll. Um 360 þúsund farþegar fóru um 1.200 fermetra stöðina í fyrra og til samanburðar nefndi hann að um 22 þúsund fermetra Leifsstöð fóru 500 þúsund farþegar árið sem hún var opnuð.
Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, ræddi mikilvægi sjúkraflugs og Reykjavíkurflugvallar í því sambandi. Hann sagði Mýflug annast sjúkraflug á Norðursvæði og Vestmannaeyjum og nota sérbúnar flugvélar með reyndum flugmönnum. Sjúkraflutningamaður væri alltaf með og stundum læknir einnig, góð samvinna væri við FSA. Núna flytur Mýflug 9 af hverjum 10 sjúklingum í sjúkraflugi. Styttra væri að fljúga frá Akureyri til allra flugvalla landsins nema Bíldudals og Vestmannaeyja. Sjúkraflug voru alls 450 árið 2011, 63% sjúklinga voru fluttir til Reykjavíkur. Hann sagði staðsetningu flugvallarins í Reykjavík vera höfuðatriði, dæmi væru um það nokkrum sinnum á ári að það gæti skipt sköpum hvort tekst að bjarga sjúklingi með því að koma honum nógu fljótt á sjúkrahús.
Hlutverk Isavia í innanlandsflugi var umræðuefni Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia. Greindi hann frá þjónustu Isavia við rekstur og umsjón flugvalla og við flugleiðsögu vegna innanlandsflugs og millilandflugs. Hann sagði Isavia bera ábyrgð á að skapa skilyrði til öryggis í flugi samkvæmt settum reglum. Lýsti forstjórinn helstu þáttum í starfseminni og kom fram að fjöldi starfsmanna verður mestur á háannatíma rúmlega 800 manns.
Óskar Borg, fulltrúi Alcoa-Fjarðaáls, ræddi um atvinnulífið á landsbyggðinni og innanlandsflug. Hann sagði höfuðborg án flugvallar vera þorp, mikilvægt væri fyrir fólk á landsbyggðinni að ná góðum vinnudegi í ferðum sínum til Reykjavíkur, að geta ferðast snemma að morgni suður og tilbaka síðdegis. Þannig væri hægt að ná yfir 6 stunda samfelldri dvöl í Reykjavík í erindrekstri. Ef flogið yrði á Keflavík myndi þessi tími styttast um tvo tíma.
Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi ræddi sjónarmið Reykjavíkurborgar og sagði hann staðsetningu Reykjavíkurflugvallar meðal lífseigustu þrætuepla. Fór hann í upphafi yfir umræðu og ýmsar hugmyndir um flugvöll á nýjum stað á höfuðborgarsvæðinu. Sagði hann það hafa verið þverpólitískt mál síðustu 50 árin innan borgarstjórnar að taka bæri flugvallasvæðið til annarra nota, þróun byggðar krefðist þess. Dagur sagði tækifæri felast í því fyrir ferðaþjónustu að tengja innanlandsflug og millilandaflug á Keflavíkurflugvelli. Sagði hann brýnt að marka stefnu og klára það verkefni að finna Reykjavíkurflugvelli nýjan stað.
Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar, nefndi innlegg sitt sveitarstjórnarmaður á faraldsfæti. Hún sagði sveitarstjórnarmenn oft eiga margvísleg erindi til Reykjavíkur og þeim ferðum myndi síst fækka í framtíðinni. Hún sagði að verði innanlandsflugi beint um Keflavíkurflugvöll í framtíðinni myndi það þýða mun lengri ferðatíma og viðbótarkostnað.
Stefán Þórarinsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, ræddi um flug og heilbrigðisþjónustu. Hann rifjaði upp nokkur tilvik um samvinnu lækna og flugmanna vegna sjúkraflugs. Ekki fyrr en kringum 2006 að sjúkraflug er komið í hreint atvinnuflug sem hann sagði hafa verið byltingu. Hann sagði þróun þá í heilbrigðiskerfinu að heilsugæslan flyttist saman í stærri einingar og að sérhæfð sjúkrahúsaþjónusta ykist, væri orðin mest á LSH og FSA. Þetta þýddi beinlínis að sjúkraflutningar færu vaxandi. Hann sagði óskalista sinn vera að Reykjavíkurflugvöllur yrði kyrr, að ný jarðgöng yrðu gerð og að sjúkraflug yrði styrkt og þyrla staðsett ál landsbyggðinni.
Díana Mjöll Sveinsdóttir, markaðsstjóri Tanna Travel, fjallaði um mikilvægi innnanlandsflugs fyrir ferðaþjónustuna sem hún sagði að lægi í augum uppi. Hún sagði einnig liggja í augum uppi að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera á sínum stað. Díana sagði ýmis tækifæri felast í innanlandsfluginu fyrir ferðaþjónustuna til dæmis dagsferðir frá Reykjavík til Egilsstaða bæði til skemmtunar og ráðstefnuhalds. Hún varpaði fram hvort hægt yrði að taka upp flug milli Akureyrar og Egilsstaða, meðal annars í tengslum við millilandaflug um Akureyrarflugvöll.
Í lokin var gefinn kosturá umræðum og fyrirspurnum og síðan sleit Þorsteinn Steinsson, formaður samgöngunefndar SSA, málþinginu.