Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2012 Dómsmálaráðuneytið

Átján tillögur bárust í samkeppni um hönnun fangelsis á Hólmsheiði

Átján tillögur bárust í samkeppni um hönnun fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík en frestur til að skila tillögum rann út 16. apríl síðastliðinn. Dómnefnd sem skipuð var vegna samkeppninnar kom saman í dag til að hefja mat á tillögunum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Logi Már Einarsson, formaður Arkitektafélags Íslands, undirrituðu samning um útfærslu hönnunarsamkeppninnar 4. janúar á þessu ári. Dómnefnd hafði þá lokið gerð samkeppnislýsingar og mun hún á næstu vikum fara yfir tillögurnar og velja tillögu sem byggt verður á.

Dómnefnd skipa: Fyrir hönd ráðherra Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður, Páll E. Winkel fangelsismálastjóri og Pétur Örn Björnsson arkitekt og tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands, arkitektarnir Gylfi Guðjónsson og Hildur Gunnarsdóttir.

Dómnefnd skal hafa lokið störfum eigi síðar en 4. júní. Verður þá tilkynnt hvaða tillaga hefur orðið fyrir valinu og jafnframt opnuð sýning á öllum tillögunum. Í framhaldi af því yrði samið við hönnunarteymi verðlaunatillögunnar um fullvinnslu teikninga.

Nýja fangelsið á Hólmsheiði er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Gert er ráð fyrir 56 rýmum fyrir fanga og mun byggingin leysa af hólmi Hegningarhúsið í Reykjavík og fangelsið í Kópavogi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta