Hoppa yfir valmynd
10. desember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2002

Mál nr. 36/2002

 Þriðjudaginn, 10. desember 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 24. júní 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 18. júní 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 10. apríl 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi sendi stofnuninni viðbótargögn með bréfi dags. 15. apríl 2002. Með bréfi dags. 17. apríl 2002 var honum tilkynnt um að fyrri úrskurður stæði óhaggaður.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Forsaga máls míns er sú að við fjölskyldan fluttumst til Íslands þann 2. ágúst s.l. eftir að ég lauk störfum í Danmörku þann 31. júlí 2001. Var þá loka undirbúningur að stofnun fyrirtækis míns að klárast og var fyrirtæki mitt formlega skráð hjá hlutabréfaskrá þann 13. ágúst 2001.

Eins og fram kemur í gögnum með þessu bréfi þá hef ég verið við vinnu s.l. 8. ár samfellt. Ég skráði mig hjá Tryggingastofnun vegna feðraorlofs í byrjun ársins og var tilkynnt að allt væri frágengið. Síðan var umsókn minni hafnað þar sem talið var að ég hefði verið atvinnulaus í 13 daga eða frá 1. ágúst til 13. ágúst.  Ég hef þó margsinnis sagt frá gangi mála og þeirri staðreynd að ég var við vinnu allan ágúst þó fyrirtækið hafi ekki fengið skráningu fyrr en 13. ágúst. Þá greiddi ég mér einungis laun að 1/3 í ágúst og 2/3 í september vegna þeirra staðreyndar að tekjumyndun fyrirtækisins hófst ekki fyrr en um miðbik september mánuður.

Þá tilkynnti... B mér að ég fengi ekki 80% af laununum mínum í styrk heldur u.þ.b. rúmlega G kr. en síðan fékk ég yfirlit um greiðslur upp á kr. 38.015 á mánuði sem gerir mér ókleyft að vera lengur í orlofi.

Niðurstaða þessa máls er sú að ég hef verið við vinnu samfellt síðan 1994. Ég hef skilað inn launaseðlum frá Danmörku 6 mánuðum fyrir barnsburð og einnig vegna ágúst/september hér á landi. Ég get því ekki séð annað en að ég uppfylli öll þau skilyrði sem Tryggingastofnun fer fram á og kæri því hér með úrskurð um þær orlofsgreiðslur sem mér hefur verið úthlutað og fer fram á leiðréttingu sem samsvarar 80% af launum mínum.“

 

Með bréfi, dags. 25. júní 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. ágúst. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að ekki sé uppfyllt skilyrði um samfellt sex mánaða starf.

Með umsókn sinni 13. september 2001 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í apríl 2002 vegna væntanlegrar fæðingar 26. október 2001. Með fylgdi tilkynning um fæðingarorlof þar sem hann kvaðst ætla að taka fæðingarorlof á tímabilinu 1. maí ? 30. júní 2002. Hann hafði flutt hingað til lands frá Danmörku 13. ágúst og eignaðist tvíbura þann 14. september.

Honum var með bréfi dags. 26. september tilkynnt að ekki væri hægt að afgreiða umsóknina þar sem henni fylgdu ekki tilskilin gögn vegna flutnings hans til landsins í ágúst. Til þess að hægt væri að afgreiða umsóknina þyrfti að leggja fram E 104 vottorð frá Danmörku, auk þess sem hann þyrfti að leggja fram staðfestingu á því að hann hafi unnið samfellt starf á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barnanna, þar af a.m.k. einn heilan mánuð hér á landi, og launaseðil fyrir þann tíma sem unninn var á Íslandi.

Þann 18. september barst E 104 vottorð. Þann 12. október bárust ýmis gögn þ.á.m. launaseðill frá D á Íslandi ehf. þar sem uppgefin laun voru E kr. og þann 15. október bárust launaseðlar vegna launa í Danmörku fyrir maí- og júnímánuð. Þar sem ekki höfðu borist öll þau gögn sem farið hafði verið fram á var ekki hægt að taka afstöðu til umsóknar hans að svo stöddu.

Í 1. og 2. mgr. 13.gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) segir m.a. að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, að taka skuli til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og að greiðslur skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er kveðið á um að við ákvörðun á mánaðarlegra greiðslu til foreldris þegar um búsetu í öðru EES-ríki hefur verið að ræða skuli eingöngu höfð hliðsjón af meðaltali heildartekna þann tíma sem foreldri hefur unnið hér á landi á hinu 12 mánaða viðmiðunartímabili.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem TR afli um tekjur úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldaskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Úrskurðanefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. þar sem miðað er við að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skuli útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við þau tímamörk, jafnvel þótt annað foreldrið nýti rétt sinn til töku orlofs á síðara tímabili.

Niðurstaða þessi er byggð á því að það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákveðið upphafsdag fæðingarorlofs og haga vinnu til ávinnslu réttinda í samræmi við það.

Þar sem kærandi flutti hingað til lands 13. ágúst 2001 og börn hans fæddust 14. september hefði hann, ef komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að hann ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofsjóði, fengið greiðslur miðað við starfshlutfall hér á landi en ekki miðað við laun þar sem hann hafði ekki unnið á Íslandi á 3.?14. mánuði fyrir fæðingarmánuð barnanna. Mánaðarlegar greiðslur vegna 25-49% starfshlutfalls eru 60.195 kr. og vegna 50-100% starfshlutfalls 83.426 kr.

1. mars 2002 barst frá kæranda önnur tilkynning um fæðingarorlof, ásamt  launaseðlum vegna starfs í Danmörku janúar - júlí 2001.

Með bréfi dags. 10. apríl 2002 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði um að hafa unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag orlofs sem hefst ekki síðar en við fæðingu barns þar sem hann var ekki með tekjur í ágústmánuði 2001. Hann hafði hvorki sýnt fram á tekjur í Danmörku né á Íslandi í ágústmánuði.“

 

Þá segir í greinargerðinni:

„Þann 15. apríl barst bréf frá kæranda þar sem hann kvað laun ágúst- og septembermánaða hafa verið slegin saman í eina launagreiðslu eins og komi fram á meðfylgjandi launaseðli. Umræddur launaseðill eigi við 33% vinnu í ágúst og 66% vinnu í september. Á launaseðli þeim sem þarna barst var þetta hlutfall tilgreint. Vakin skal athygli á því að eins og kemur fram hér á undan var hann áður búinn að skila inn launaseðli fyrir septembermánuð þar sem þessi skipting á milli mánaða kom ekki fram og að þessi laun eru gefin upp til skatt sem laun fyrir septembermánuð.

Með bréfi dags. 17. apríl í tilefni þeirra viðbótargagna sem borist höfðu var tilkynnt að þar sem hann hefði ekki verið á vinnumarkaði 1.?13. ágúst stæði fyrri úrskurður óhaggaður. Þann 30. maí var afgreiddur til hans fæðingarstyrkur þann tíma sem hann var kveðst vera í fæðingarorlofi.

Lífeyristryggingasvið telur að kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og þar sem í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eru gefin upp á hann laun bæði í maí og júní, þ.e. á þeim tíma sem hann kveðst vera í fæðingarorlofi, hafi hann ekki heldur átt rétt á fæðingarstyrk, enda er fæðingarstyrkur greiðsla til foreldra utan vinnumarkaðar en getur einnig verið greiddur til foreldris sem er á vinnumarkaði ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði að því tilskyldu að ekki séu stunduð launuð störf á meðan.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. ágúst 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 19. ágúst 2002, þar sem sjónarmið hans eru áréttuð.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar meta skal hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, enda hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á þeim tíma sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Börn kæranda eru fædd 14. september 2001. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 14. mars 2001 fram að fæðingardegi barnanna.

Kærandi lét af störfum hjá F 31. júlí 2001. Hann var samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands skráður með lögheimili í Danmörku til 13. ágúst 2001 þegar hann flutti til Íslands. 

Með bréfi dags. 10. apríl 2002 synjaði Tryggingastofnun ríkisins kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Talið var að hann uppfyllti ekki skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þar sem hann hafi samkvæmt framlögðum gögnum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ekki verið með tekjur í ágústmánuði. Þá hafi hann ekki unnið heilan mánuð hér á landi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í bréfi kæranda til Tryggingastofnunar dags. 15. apríl 2002 segir að hann hafi hafið störf hjá D á Íslandi ehf. um miðbik ágúst mánaðar en fyrirtækið er skráð í hlutafélagaskrá 13. ágúst 2001. Bréfi hans fylgdi launaseðill fyrir 33% vinnu í ágúst og 66% vinnu í september 2001. Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 17. apríl 2002 er kæranda tilkynnt um að fyrri úrskurður standi óhaggaður þar sem hann hafi ekki verið á vinnumarkaði frá 1. til 13. ágúst 2001.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að fyrirliggjandi gögn nægi ekki til staðfestingar á því að, kærandi uppfylli skilyrði 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta