Hoppa yfir valmynd
3. desember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 44/2002

Mál nr. 44/2002

Þriðjudaginn, 3. desember 2002

 

A

 gegn

 Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 26. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 24. júlí 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 16. maí 2002, var kæranda tilkynnt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Þar sem undirritaður fékk ekki fasta vinnu fyrr en í desember sl. er ekki sanngjarnt að hafa inni í meðaltalinu mánuðina júlí til og með september. Benda verður á að fæðingarorlofsgreiðslur eru tilkomnar til þess að stuðla að því að foreldrar geti sjálfir sinnt börnum sínum eftir fæðingu. Til þess að svo megi verða þurfa foreldrar að halda launum sínum enda er í reglum byggt á ákveðnu hlutfalli fastra launa. Svo sem fram er komið er undirritaður í föstu starfi hjá B. Þær fjárhæðir sem Tryggingastofnun hefur reiknað út sem greiðslur eru svo lágar að ókleift er fyrir undirritaðan að fara í fæðingarorlof með barni sínu á þessum greiðslum. Minna verður einnig á þann grundvöll sem lögin byggja á að foreldrar haldi rétti sínum sem mest verða má. Mál undirritaðs er undantekning, eins og ýmis mál námsmanna eða þeirra sem ekki hafa fest sig á vinnumarkaði. Er því gerð sú krafa að tími sá sem meðaltal launa er reiknað verði frá því undirritaður fékk vinnu hjá B. Það eru þau laun sem undirritaður hefur verið með og þau laun sem sanngjarnast er að reikna útfrá í fæðingarorlofi. Benda verður á tilganginn með greiðslum í fæðingarorlofi en þeim tilgangi er ekki náð nema foreldrar fái greiðslur sem samsvara launum.“

 

Þá er sú krafa gerð í kæru að viðmiðunarlaun fyrir marsmánuð verði leiðrétt, en hinn 1. maí s.l. voru laun vegna mars- og aprílmánaða 2002 leiðrétt. Laun marsmánaðar voru hækkuð sem nam D kr.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 14. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi er ósáttur við það tímabil sem litið er til við útreikning meðaltekna hans, sem ákvarða greiðslur í fæðingarorlofi.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Barn kæranda er fætt þann 6. júní 2002. Viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans er þar af leiðandi frá 1. apríl 2001 til 30. mars 2002. Samkvæmt 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks skal meðaltal heildarlauna miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.

Kærandi var með launatekjur frá sama vinnuveitanda mánuðina júlí, ágúst og september 2001 skv. upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK. Frá og með desembermánuði 2001 var hann aftur í samfelldu starfi. Tekjur þessara mánaða mynda grundvöll útreiknings meðaltekna hans en öðrum mánuðum vart sleppt. Útreikningur greiðslna er því í samræmi við ofangreind laga- og reglugerðarákvæði.

Fallist er á að leiðrétta tekjuskráningu fyrir marsmánuð 2002, sbr. hjálagt greiðsluyfirlit.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. ágúst 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá E fyrir hönd kæranda með bréfi dags. 29. ágúst 2002, þar segir m.a.:

„Í greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins kemur fram að launatekjur A hafi verið frá sama vinnuveitanda mánuðina júlí ágúst og september. Svo sem fram kemur á meðfylgjandi tímaskráningarútprentun var A einvörðungu í afleysingum þar sem hann var ekki í föstu starfi á þessum tíma. Hann var fenginn til þess að koma inn og ljúka verkefnum sem ljúka þurfti.

Eins og áður hefur komið fram hefur A verið í föstu starfi frá því í desember 2001. Við töku fæðingarorlofs skerðast því laun hans verulega ekki aðeins um 20% heldur 20% af miklu lægri tekjum en hann hefur nú.

Á vefsíðu félagsmálaráðuneytisins kemur fram að hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skuli miða við meðalheildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveim mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Er þá að lágmarki unnt að miða við samfellt fjögurra mánaða vinnutímabil, vinni foreldri í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Ekki verður betur séð en að þetta eigi við um kröfu A til meðaltalsútreiknings.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Tryggingastofnun ríkisins hefur fallist á að leiðrétta tekjuskráningu fyrir marsmánuð 2002. Úrskurðarnefndin mun því ekki taka á því atriði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að meðaltal heildarlauna skuli miðast við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hafi sannanlega verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Einnig er kveðið á um að hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skuli miða við meðalheildarlaun yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Er þá að lágmarki unnt að miða við samfellt fjögurra mánaða vinnutímabil starfi foreldri í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Barn kæranda fæddist 6. júní 2002. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi frá apríl 2001 til og með mars 2002.

Í framangreindri 13. gr. ffl. og 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við meðaltal heildarlauna á því tímabili sem viðkomandi hefur verið á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar.

Samkvæmt framangreindu verður því ekki fallist á styttingu á viðmiðunartímabilinu á þeim forsendum að kærandi hafi ekki verið í fullu starfi allt tímabilið. Lögin heimila ekki slíkar undantekningar.

Með hliðsjón af framangreindu er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslu í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta