Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 49/2002

Mál nr. 49/2002

Þriðjudaginn 14. janúar 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 5. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. júlí 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 8. apríl 2002, og síðan ítrekuð með bréfi stofnunarinnar, dags. 6. maí 2002.

Samkvæmt kæru og meðfylgjandi gögnum eru málavextir þeir að kærandi flutti til Íslands þann 24. október 2001 en sambýliskona hans hafði fengið starf hér á landi frá 1. nóvember 2001. Í kæru kemur fram að kærandi hafi sagt upp starfi sínu hjá B í Danmörku miðað við 1. september 2001 vegna fyrirhugaðs flutnings úr landi og vegna þess að verkefni sem hann hafði unnið að hafi þá lokið en nýtt langtíma verkefni (tveggja ára) átt að hefjast. Þann 3. september 2001 hafi hann tilkynnt sig atvinnulausan en þann 4. október 2001 hafi hann móttekið synjun á umsókn um dagpeninga frá Ledernes Arbejdslöshedskasse. Í gögnum málsins kemur fram að frá 24. október 2001 fékk kærandi dagpeninga frá Atvinnuleysistryggingasjóði eða þar til hann hóf störf hjá D á Íslandi.

Barn kæranda fæddist 22. mars 2002. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 8. apríl 2002 er umsókn kæranda um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði synjað með þeim rökum að hann, samkvæmt framlögðum gögnum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK, uppfylli ekki skilyrði laga um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 6. maí 2002, eftir að frekari gögn höfðu borist frá kæranda, segir að fyrri úrskurður skuli standa óhaggaður. Í bréfinu er tekið fram að þar sem kærandi sé ekki skráður á vinnumarkaði frá 1. september ? 23. október árið 2001 uppfylli hann ekki skilyrði um sex mánaða starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Kærandi rökstyður kæru sína einkum með því að synjun Ledernes Arbejdslöshedskasse á greiðslum til hans hafi verið óréttmæt. Í rökstuðningi með kærunni segir orðrétt:

„Jeg klager herved over afslaget paa min ansögning om betalinger fra Fæðingarorlofssjóði den 08. april 2002. Grunden til afslaget er at jeg ikke havde seks sammenhængende maaneder arbejdslöshedspenge eller lön inden mit barns födsel. Problemet ligger i at jeg ikke fik udbetalt dagpenge fra min danske A-kasse (Ledernes A-kasse) fra jeg sagde min stilling op 1. September 2001 til 23. oktober 2001 (dagen för vi flyttede til Island). Jeg klager over afgörelsen, da jeg mener at jeg uretmæssigt ikke fik udbetalt dagpenge i overnævnter pæriode i Danmark.“

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. september 2002. Í greinargerðinni segir:

„Skv. 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Skv. b-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 telst m.a. til samfellds starfs sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir þeim.

Barn kæranda er fætt 22. mars 2002. Hann hefði því þurft að vera á samfellt vinnumarkaði a.m.k. frá 23. september 2001 og fram að fæðingu barnsins til að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. ofangreint. Kærandi var án atvinnu á tímabilinu frá 1. september til 23. október 2001. Á þeim tíma fékk hann hvorki greiddar atvinnuleysisbætur eða var á biðtíma eftir þeim, né uppfyllti hann önnur skilyrði 4. gr. rgl. 909/2000. Þvert á móti liggur fyrir synjun Lederne, Arbejdslöshedskassen, á umsókn hans um greiðslur á nefndu tímabili. Þar sem skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. var ekki uppfyllt varð að synja kæranda um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. september 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Bréf barst frá kæranda dags. 21. september 2002 þar sem kæran er ítrekuð. Í bréfinu segir:

„Jeg önsker at fastholde min ret til barselspenge, da jeg mener at jeg uretmæssigt faldt igennem systemet i Danmark og Island ved at sige min stilling op pga. flytning til Island.“

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar meta skal hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, enda hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á þeim tíma, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er kveðið á um að með samfelldu starfi sé átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist enn fremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála er samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. að úrskurða um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Barn kæranda er fætt 22. mars 2002. Til þess að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi að uppfylla skilyrði 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf frá 22. september 2001 fram að fæðingardegi barnsins, sbr. og 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Kærandi var ekki á vinnumarkaði tímabilið 1. september 2001 til 23. október 2001. Það tímabil fékk hann ekki greiddar atvinnuleysisbætur eða var á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum né uppfyllti hann á annan hátt skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Umsókn hans um atvinnuleysisbætur var hafnað af Ledernes Arbejdslöshedskasse en ágreiningur um réttmæti þeirrar synjunar fellur utan ákvörðunarvalds úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt framanrituðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Hann hefur því ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta